Körfubolti

„Leik­mennirnir fyllast smá skömm“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jacob Falko með boltann. Í bakgrunni sést Ísak Máni Wium sem hætti sem þjálfari ÍR í síðustu viku.
Jacob Falko með boltann. Í bakgrunni sést Ísak Máni Wium sem hætti sem þjálfari ÍR í síðustu viku. vísir/diego

Pavel Ermolinskij, sérfræðingur Bónus Körfuboltakvölds, segir að ÍR-ingar hafi sýnt viðbrögð eftir að Ísak Máni Wium hætti sem þjálfari þeirra.

Ísak hætti sem þjálfari ÍR á þriðjudaginn og á föstudaginn vann liðið svo sinn fyrsta sigur í Bónus deildinni. ÍR-ingar lögðu þá Njarðvíkinga að velli, 96-101. Baldur Már Stefánsson stýrði ÍR í leiknum í Njarðvík.

Oft er talað um að lið sýni viðbrögð eftir þjálfaraskipti og Pavel segir margt til í því. 

„Hundrað prósent. Bæði kemur eitthvað nýtt andlit, Baldur reyndar búinn að vera þarna, en það hverfur eitthvað. Og fyrst það sem gerist fyrst og fremst stundum, og er alveg eðlilegt, er að leikmennirnir fyllast smá skömm og segja: þjálfarinn þurfti að hætta og það er mest á okkur. Þú vilt einhvern veginn bæta upp fyrir það,“ sagði Pavel í Bónus Körfuboltakvöldi á föstudaginn.

„Stundum kemur inn nýr þjálfari og þú vilt sýna þig fyrir honum. Það gerist líka. En í þessu tilefni var þetta svona við skuldum aðeins og frábærlega gert hjá þeim að svara því.“

Klippa: Bónus Körfuboltakvöld - Umræða um ÍR

Pavel segir að margt hafi gengið upp hjá ÍR gegn Njarðvík og það þurfti að gerast til að Breiðhyltingar vinni leiki.

„Þrátt fyrir að ÍR-ingar hafi spilað virkilega vel að mestu leyti þurfa þeir líka að eiga dag. Þeir eru þannig séð hæfileikaminni en önnur lið. Það hefur ekkert breyst,“ sagði Pavel. 

„Þeir þurfa að eiga góðan dag; góðan skotdag eða góðan varnardag. Það þarf eitthvað gott að gerast hjá þeim til að eiga möguleika á að vinna. Í dag [í fyrradag] hittu þeir frábærlega.“

Umræðuna um ÍR má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Ísak hættur með ÍR

Fyrstu þjálfarabreytingarnar hafa orðið í Bónus deild karla í körfubolta því Ísak Máni Wium er hættur með ÍR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×