Fótbolti

„Þeir hafa bætt sig frá því síðast en við einnig“

Aron Guðmundsson skrifar
Åge Hareide er brattur fyrir leikinn í dag.
Åge Hareide er brattur fyrir leikinn í dag. Vísir/Hulda Margrét

Ís­land heimsækir Svart­fjalla­land í mikilvægum leik í Þjóða­deild UEFA sem verður að vinnast í Niksic í dag. Ís­land hafði betur í fyrri leik liðanna heima á Laugar­dals­velli og segir Age Hareide, lands­liðsþjálfari að stiga­lausir Svart­fellingar hafi bætt sig síðan þá. Það hafi ís­lenska liðið hins vegar líka gert og Norðmaðurinn er bjartsýnn á jákvæð úr­slit í dag.

Ís­land þarf sigur sem og treysta á að Wa­les tapi stigum gegn Tyrk­landi á úti­velli til þess að stilla upp hreinum úr­slita­leik við Wa­les í Car­diff um um­spilssæti fyrir A-deild Þjóða­deildarinnar en fjögur stig skilja nú liðin að.

Lands­liðs­fyrir­liðinn Aron Einar Gunnars­son er mættur aftur í lands­liðið eftir langa fjar­veru vegna meiðsla og er það kær­komið fyrir lands­liðið að fá mann með hans reynslu aftur inn.

„Klár­lega. Hann býr yfir ákveðnum drif­krafti,” segir Hareide um Aron í sam­tali við íþrótta­deild. „Býr að þessari áralöngu reynslu sem fyrir­liði og það er mjög náttúru­legt fyrir hann að snúa aftur í lands­liðið og smella þar beint inn. Hann er maðurinn sem heldur liðs­félögum sínum á tánum. Hann er okkur mjög mikilvægur.“

Klippa: Aron Einar klár í að byrja gegn Svartfjallalandi

En er Aron klár í að byrja gegn Svart­fellingum?

„Já hann lítur vel út. Er klár. Hann er búinn að spila tvo leiki í Meistara­deild Asíu í að­draganda verk­efnisins. Hann er heill heilsu og það er mikilvægt eftir að hafa glímt við meiðsli yfir lengri tíma. Honum hlakkar til að láta til sín taka í leiknum.“

Leikurinn við Svart­fellinga fer fram í Niksic og felst hættu­legur and­stæðingur í heima­mönnum sem, þrátt fyrir að vera stiga­lausir, hafa verið að taka skref upp á við.

„Það er ekki auðvelt verk að mæta þeim. Þeir búa að góðum frammistöðum bæði frá leik sínum gegn Wa­les sem og Tyrk­landi. Mér finnst þeir hafa bætt sig frá því að við mættum þeim á Laugar­dals­velli en það höfum við einnig gert. Við áttum skilið fleiri stig en við náðum í úr síðasta verk­efni og verðum að slá frá okkur núna. Sigra Svart­fjalla­land til þess að eiga mögu­leika gegn Wa­les.“

Fyrri leik liðanna á Laugar­dals­velli lauk með 2-0 sigri Ís­lands þar sem að bæði mörk okkar manna komu úr föstum leik­at­riðum. Í sam­tali við íþrótta­deild sagði Robert Prosinecki, þjálfari Svart­fellinga að þeir hefðu farið sér­stak­lega yfir föstu leik­at­riði Ís­lands í að­draganda leiksins. Er Hareide klár með ein­hver brögð upp í erminni hvað föstu leik­at­riðin varðar fyrir leik kvöldsins?

„Já hver veit. Föstu leik­at­riðin gengu upp hjá okkur í fyrri leiknum en núna tel ég okkur hafa bætt sóknar­leik okkar, höfum skorað sjö mörk í þessari Þjóða­deild, meðal annars mörk gegn Wa­les og Tyrk­landi. Við erum sann­færðir um að geta skilað góðum leik gegn Svart­fjalla­landi.“

Svart­fellingar verða án sinnar helstu stjörnu, fyrir­liðans Stevan Jovetic sem tekur út leik­bann í dag. Hareide segir það högg fyrir Svart­fjalla­land en ein­beiting ís­lenska liðsins hefur farið á eigin leik í að­draganda leiksins.

„Jovetic er góður leik­maður sem býr yfir mikilli reynslu en höfum lítið hugsað um ein­st leik­menn Svart­fjalla­land. Fókusinn hefur verið á okkar leik, okkar lið og við erum klárir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×