Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Hamar 87-69 | Fyrsti sigur Blikanna í hús Ágúst Orri Arnarson skrifar 24. nóvember 2023 22:00 vísir/hulda margrét Breiðablik sótti sinn fyrsta sigur í Subway deild karla í kvöld. Lokatölur leiks þeirra gegn Hamri urðu 87-69. Breiðablik kemur sér með þessum sigri í 11. sætið og skilur Hamar þar af leiðandi eftir á botni deildarinnar. Ljóst var fyrir leik að taphrina annars liðsins tæki enda í kvöld en þau voru bæði án sigurs eftir sjö umferðir. Lítið skildi liðin að í fyrri hálfleiknum, þau skiptust á að taka forystuna og voru bæði vel flæðandi fram á við. Breiðablik reiddi sig mikið á þriggja stiga körfur og skutu heilt yfir mjög vel. Keith Jordan og Zoran Vrkic voru algjörir lykilmenn fyrir Blikana í fyrri hálfleiknum, leiddu stigasöfnun og stigu alltaf upp þegar liðið þurfti á þeim að halda. Jafnræðið ríkti enn með liðunum þegar komið var út í seinni hálfleikinn þó það hægðist aðeins á stigasöfnun þeirra í þriðja leikhlutanum. Orkustigið var orðið mjög hátt inni á vellinum, menn voru að flýta sér um of í sóknunum og skjóta úr slökum færum. En undir lok þriðja leikhluta átti Breiðablik frábæran kafla, tóku áhlaup þar sem þeir skoruðu 13 stig gegn 2 frá Hamri og enduðu leikhlutann með 12 stiga forskot. Jalen Moore var að spila annan leik sinn í Hamarstreyjunni en það er ljóst að honum er treyst fyrir stóru hlutverki. Oft á tíðum virtist hann einfaldlega ætla að klára leikinn einn síns liðs. Hann endaði leikinn vissulega stigahæstur en skotnýtingin (25% FG og 10% 3PT) var arfaslök og ákvarðanatakan sömuleiðis. Hamar byrjaði fjórða leikhlutann vel og allt leit út fyrir spennandi endasprett. Breiðablik greip þá til sinna ráða, settu þrjá snögga þrista í röð og brutu Hamarsmenn alveg á bak aftur. Þrátt fyrir að munurinn væri ekki mjög mikill og nægur tími eftir var Hamarsliðið alveg sprungið og töpuðu leiknum að endingu sannfærandi með átján stiga mun. Afhverju vann Breiðablik? Breiðablik keyrði vel á ungu strákunum og breiddinni sem þeir höfðu fram yfir Hamar í kvöld. Góður endasprettur og orkustigið undir lokin skilaði þeim sigrinum. Hverjir stóðu upp úr? Eins og áður segir voru Keith og Zoran gríðarmikilvægir fyrir Breiðablik en maður leiksins að þessu sinni var Sölvi Ólason. Frábær leikur heilt yfir og steig upp á ögurstundu fyrir sitt lið með tveimur mikilvægum þristum í fjórða leikhluta. Hvað gekk illa? Hamar er afar illa skipulagt lið og ákvarðanataka margra leikmanna þar er ekki til fyrirmyndar. Til dæmis má nefna að Raggi Nat var með 10 stig (4-4 FG og 2-2 FT) í fyrsta leikhluta, Blikarnir áttu engin svör þegar hann fékk boltann undir körfunni. En Hamar hætti bara alveg að leita að honum og Raggi tók ekki fleiri skot allan leikinn þrátt fyrir að spila 35 mínútur. Hvað gerist næst? Hamar tekur á móti toppliði Njarðvíkur næstkomandi fimmtudag klukkan 19:15, Breiðablik heimsækir Keflavík á sama tíma. „Komnir með fyrsta sigurinn og ætlum að ná í fleiri“ Ívar Ásgrímsson gat loks glaðst í leikslok Vísir/Anton Brink „Manni líður miklu betur eftir sigur heldur en tap. Frábær sigur bara og öruggur fannst mér. Við vorum óánægðir eftir fyrri hálfleik að vera ekki með meiri forystu, við gerðum mistök varnarlega, fórum allt í einu að spila allt öðruvísi vörn en við vorum að gera og hleyptum þeim aftur inn í leikinn. Ég veit að sjö stig [forskot Blika í 2. leikhluta] eru ekki neitt en við hefðum átt að byggja ofan á það. En við keyrðum hraðann upp í þriðja og þegar við höfðum ekki orkuna í fjórða þá skutum við“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, kátur í brag að leikslokum. Spennan hélst milli liðanna út allan fyrri hálfleikinn og aðeins inn í þriðja leikhlutann en eftir það tók Breiðablik fram úr gestunum og sigldi sigrinum að lokum örugglega heim. „Þeir fóru í svæði og við ströggluðum aðeins í byrjun. Ég var ekki alveg með rétta liðið á móti svæðisvörninni, en um leið og við skiptum réttum mönnum inn þá kláruðum við þá fljótt.“ Breiðablik á erfitt verkefni sér fyrir höndum í næstu umferð þegar þeir heimsækja Keflavík. „Við erum að fara í stórt próf gegn hörkuliði og við þurfum að koma vel einbeittir. Strákurinn sem er uppalinn hér hittir ekki svona vel í Keflavík eins og hann gerði hér“ sagði Ívar brosandi og vísaði þar til Sigurðs Péturssonar sem átti sannkallaðan stórleik í Smáranum fyrr í kvöld þegar Keflavík lagði Grindavík að velli. Sigurður fór frá Breiðabliki til Keflavíkur fyrir þetta tímabil. “Við þurfum að spila hörkuvörn ef við ætlum að eiga einhvern möguleika. Byrjum bara að hugsa um það á morgun, við erum komnir með fyrsta sigurinn og ætlum að ná í fleiri. Það er bara einn leikur í liðið fyrir ofan okkur [Hauka], það er það sem við stefnum að núna“ sagði Ívar að lokum. Subway-deild karla Breiðablik Hamar
Breiðablik sótti sinn fyrsta sigur í Subway deild karla í kvöld. Lokatölur leiks þeirra gegn Hamri urðu 87-69. Breiðablik kemur sér með þessum sigri í 11. sætið og skilur Hamar þar af leiðandi eftir á botni deildarinnar. Ljóst var fyrir leik að taphrina annars liðsins tæki enda í kvöld en þau voru bæði án sigurs eftir sjö umferðir. Lítið skildi liðin að í fyrri hálfleiknum, þau skiptust á að taka forystuna og voru bæði vel flæðandi fram á við. Breiðablik reiddi sig mikið á þriggja stiga körfur og skutu heilt yfir mjög vel. Keith Jordan og Zoran Vrkic voru algjörir lykilmenn fyrir Blikana í fyrri hálfleiknum, leiddu stigasöfnun og stigu alltaf upp þegar liðið þurfti á þeim að halda. Jafnræðið ríkti enn með liðunum þegar komið var út í seinni hálfleikinn þó það hægðist aðeins á stigasöfnun þeirra í þriðja leikhlutanum. Orkustigið var orðið mjög hátt inni á vellinum, menn voru að flýta sér um of í sóknunum og skjóta úr slökum færum. En undir lok þriðja leikhluta átti Breiðablik frábæran kafla, tóku áhlaup þar sem þeir skoruðu 13 stig gegn 2 frá Hamri og enduðu leikhlutann með 12 stiga forskot. Jalen Moore var að spila annan leik sinn í Hamarstreyjunni en það er ljóst að honum er treyst fyrir stóru hlutverki. Oft á tíðum virtist hann einfaldlega ætla að klára leikinn einn síns liðs. Hann endaði leikinn vissulega stigahæstur en skotnýtingin (25% FG og 10% 3PT) var arfaslök og ákvarðanatakan sömuleiðis. Hamar byrjaði fjórða leikhlutann vel og allt leit út fyrir spennandi endasprett. Breiðablik greip þá til sinna ráða, settu þrjá snögga þrista í röð og brutu Hamarsmenn alveg á bak aftur. Þrátt fyrir að munurinn væri ekki mjög mikill og nægur tími eftir var Hamarsliðið alveg sprungið og töpuðu leiknum að endingu sannfærandi með átján stiga mun. Afhverju vann Breiðablik? Breiðablik keyrði vel á ungu strákunum og breiddinni sem þeir höfðu fram yfir Hamar í kvöld. Góður endasprettur og orkustigið undir lokin skilaði þeim sigrinum. Hverjir stóðu upp úr? Eins og áður segir voru Keith og Zoran gríðarmikilvægir fyrir Breiðablik en maður leiksins að þessu sinni var Sölvi Ólason. Frábær leikur heilt yfir og steig upp á ögurstundu fyrir sitt lið með tveimur mikilvægum þristum í fjórða leikhluta. Hvað gekk illa? Hamar er afar illa skipulagt lið og ákvarðanataka margra leikmanna þar er ekki til fyrirmyndar. Til dæmis má nefna að Raggi Nat var með 10 stig (4-4 FG og 2-2 FT) í fyrsta leikhluta, Blikarnir áttu engin svör þegar hann fékk boltann undir körfunni. En Hamar hætti bara alveg að leita að honum og Raggi tók ekki fleiri skot allan leikinn þrátt fyrir að spila 35 mínútur. Hvað gerist næst? Hamar tekur á móti toppliði Njarðvíkur næstkomandi fimmtudag klukkan 19:15, Breiðablik heimsækir Keflavík á sama tíma. „Komnir með fyrsta sigurinn og ætlum að ná í fleiri“ Ívar Ásgrímsson gat loks glaðst í leikslok Vísir/Anton Brink „Manni líður miklu betur eftir sigur heldur en tap. Frábær sigur bara og öruggur fannst mér. Við vorum óánægðir eftir fyrri hálfleik að vera ekki með meiri forystu, við gerðum mistök varnarlega, fórum allt í einu að spila allt öðruvísi vörn en við vorum að gera og hleyptum þeim aftur inn í leikinn. Ég veit að sjö stig [forskot Blika í 2. leikhluta] eru ekki neitt en við hefðum átt að byggja ofan á það. En við keyrðum hraðann upp í þriðja og þegar við höfðum ekki orkuna í fjórða þá skutum við“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, kátur í brag að leikslokum. Spennan hélst milli liðanna út allan fyrri hálfleikinn og aðeins inn í þriðja leikhlutann en eftir það tók Breiðablik fram úr gestunum og sigldi sigrinum að lokum örugglega heim. „Þeir fóru í svæði og við ströggluðum aðeins í byrjun. Ég var ekki alveg með rétta liðið á móti svæðisvörninni, en um leið og við skiptum réttum mönnum inn þá kláruðum við þá fljótt.“ Breiðablik á erfitt verkefni sér fyrir höndum í næstu umferð þegar þeir heimsækja Keflavík. „Við erum að fara í stórt próf gegn hörkuliði og við þurfum að koma vel einbeittir. Strákurinn sem er uppalinn hér hittir ekki svona vel í Keflavík eins og hann gerði hér“ sagði Ívar brosandi og vísaði þar til Sigurðs Péturssonar sem átti sannkallaðan stórleik í Smáranum fyrr í kvöld þegar Keflavík lagði Grindavík að velli. Sigurður fór frá Breiðabliki til Keflavíkur fyrir þetta tímabil. “Við þurfum að spila hörkuvörn ef við ætlum að eiga einhvern möguleika. Byrjum bara að hugsa um það á morgun, við erum komnir með fyrsta sigurinn og ætlum að ná í fleiri. Það er bara einn leikur í liðið fyrir ofan okkur [Hauka], það er það sem við stefnum að núna“ sagði Ívar að lokum.