Handbolti

Naum töp hjá Viktori Gísla og Gísla Þorgeiri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gísli Þorgeir var frábær í kvöld.
Gísli Þorgeir var frábær í kvöld. Twitter@ehfcl

Fimm leikir fóru fram í Meistaradeildar Evrópu í handbolta í kvöld. Gísli Þorgeir Kristjánsson átti stórleik í liði Magdeburg sem varð samt að sætta sig við tap. Þá töpuðu Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í Nantes naumlega fyrir Celje Pivovarna Laško á heimavelli. 

Gísli Þorgeir fór fyrir Magdeburg í fjarveru Ómars Inga Magnússonar. Miðjumaðurinn öflugi skoraði sjö mörk og gaf tvær stoðsendingar í því sem var frábær leikur hjá honum en þrátt fyrir það tapaði liðið með eins marks mun fyrir Wisla Plock á útivelli, lokatölur 25-24.

Magdeburg er í 3. sæti A-riðils með 14 stig að loknum 11 leikjum.

Í B-riðli fóru fram fjórir leikir.  Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli átti fínan leik í marki heimamanna en það dugði ekki í kvöld. Nantes tapaði leiknum á endanum með eins marks mun, lokatölur 31-32.

Elverum átti í raun aldrei möguleika gegn Barcelona. Þegar flautað var til hálfleiks var sjö marka munur á liðunum. Sá munur var orðinn tíu mörk þegar flautað var til leiksloka, lokatölur 40-30 Barcelona í vil. Orri Freyr Þorkelsson skoraði tvö mörk í liði Elverum.

Þá vann Álaborg sex marka sigur á Pick Szeged, lokatölur 33-27. Aron Pálmarsson var fjarverandi í liði Álaborgar í kvöld en Arnór Atlason, aðstoðarþjálfari, var á sínum stað á hliðarlínunni.

Staðan í B-riðli er þannig að Nantes er í 3. sæti með 12 stig. Álaborg er í 5. sæti með 9 stig og Elverum á botninum með 2 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×