Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Fram 24-25 | Háspenna lífshætta þegar Fram tók forystuna Kolbeinn Tumi Daðason skrifar 8. maí 2017 21:45 Hörkubarátta í Mýrinni í kvöld. Hér taka Hildur Þorgeirs og Steinunn Björns á Rakel Dögg Stjörnukonu. vísir/ernir Fram er komið með yfirhöndina í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta kvenna eftir dramatískan 25-24 útisigur á Stjörnunni í fyrsta leik liðanna í Mýrinni í Garðbænum í kvöld. Leikurinn var kaflaskiptur þar sem gestirnir höfðu frumkvæðið lengst af en lokamínúturnar voru afar spennandi. Staðan var 22-25 fyrir Fram þegar seinni hálfleikur var hálfnaður en þá tók við frost, ekki alkul en nokkuð nálægt því. Fram skoraði ekki það sem eftir lifði leiks en Stjarnan náði að skora tvisvar. Litlu munaði að Garðbæingar jöfnuðu undir lokin á farsakenndri lokamínútu þar sem Helena Rut Örvarsdóttir, besti leikmaður Stjörnunnar í leiknum, skaut yfir opið markið frá miðjum velli. Fram fagnaði dramatískum sigri sem gestirnir hefðu þó getað verið löngu búnar að sigla í hús. Það virðist hins vegar svo til ritað í lög að leikir þessara liða ráðist á einu marki, eins og var tilfellið í bikarúrslitaleiknum þegar Stjarnan vann dramatískan sigur. Sama var uppi á teningnum í deildinni þar sem Stjarnan varð deildarmeistari á markatölu, þar sem munaði einu marki. Nú eru Safamýrarkonur aftur á móti komnar með frumkvæðið og óhætt að segja að sigur þeirra í kvöld hafi verið sanngjarn. Leikurinn í kvöld var afar kaflaskiptur. Stjarnan komst í 7-3 en Fram svaraði með 10-2 kafla og var komið með fjögurra marka foyrstu, 13-9. Staðan var 12-16 í hálfleik. Stjarnan náði mest að minnka muninn í eitt mark sem var munurinn þegar upp var staðið. Guðrún Ósk Maríasdóttir, markvörður Fram, var besti leikmaður vallarins með 24 skot varin. Sum með viðkomu í vörn Framara þar sem Steinunn Björnsdóttir réð ríkjum sem fyrr. Guðrún var þó stálheppin í lokin þegar hún ákvað upp úr þurru að drippla boltanum upp völlinn í lokasókn Framara. Henni til happs tókst Stjörnunni ekki að nýta sér fjarveru hennar í markinu þegar boltinn vannst. Ragnheiður Júlíusdóttir var atkvæðamest í sókninni eins og svo oft áður með átta mörk. Hjá heimakonum var það Helena Rut sem bar sóknarleikinn uppi á löngum köflum en Stjörnukonur eiga töluvert inni og þurfa að bæta leik sinn fyrir næsta leik, í Safamýrinni á miðvikudaginn. Heiða og Hafdís skiptu hálfleikjunum á milli sín í markinu en gátu ekki keppt við frammistöðu Guðrúnar í marki Framara. Næsti leikur liðanna verður í Safamýri klukkan 18:30 á miðvikudag og full ástæða til að hvetja fólk til að fjölmenna á völlinn því það er svo gott sem hægt að bóka spennuþrunginn leik sem mun ráðast á einu marki. Vísir fylgdist með gangi mála í leiknum eins og sjá má að neðan en umfjöllun og viðtöl eru handan við hornið.Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 8, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 6, Sólveig Lára Kjærnested 3, Stefanía Theodórsdóttir 1, Elena Elísabet Birgisdóttir 2, Nataly Sæunn Valencia 1, Rakel Dögg Bragadóttir 1, Brynhildur Bergmann Kjartansdóttir 1.Varin skot: Guðrún Ósk Maríasdóttir 24Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 8, Steinunn Björnsdóttir 5, Hildur Þorgeirsdóttir 5, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 3, Rebekka Rut Skúladóttir 2, Elva Þór Arnardóttir 2. Varin skot: Heiða Ingólfsdóttir 5, Hafdís Renötudóttir 7Guðrún Ósk átti frábæran leik í marki Fram.vísir/eyþórGuðrún Ósk: Barátta og leikgleði lykillinnGuðrún Ósk Maríasdóttir varði 24 skot í Mýrinni í kvöld og átti stórleik. Hún sagði leikinn hafa verið sveiflukenndan en baráttan einkennt hann allan tímann. Stjarnan komst í 7-3 og skrifaði Guðrún það á að Fram liðið hefði ekki náð að stilla sig inn á tempóið. Baráttan hefði þó alltaf verið til staðar. Tveggja vikna biðin eftir leiknum hafi ekki verið erfið. „Nei, alls ekki. Við höfum náð að stilla okkur vel saman og baráttan á æfingum verið góð.“ Sem fyrr segir átti Guðrún frábæran leik. „Maður er búin að spila nokkrum sinnum gegn Stjörnunni. Ef ég treysti vörninni og hún skilar sínu þá næ ég góðum leik,“ segir Guðrún. Lykillinn að sigri í einvíginu er ljós í hennar huga. „Við þurfum að mæta með baráttu og leikgleði. Þá komumst við vonandi á leiðarenda.“Helena Rut fékk óblíðar móttökur hjá Frömurum í kvöld en náði þó að sejta átta mörk.Vísir/ErnirHelena Rut: Mjög svekkjandi að sjá hann ekki inni„Þetta var mjög svekkjandi en ég held að Framararnir hafi verið betri í dag,“ sagði Helena Rut Örvarsdóttir, besti leikmaður Stjörnunnar í kvöld.„Vörnin var framan af mjög léleg, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við héldum þeim reyndar í 25 mörkum lengi í seinni hálfleik en náðum ekki að setja boltann í netið,“ segir Helena. Hún fékk tækifæri til að jafna metin af löngu færi þegar markið var opið undir lokin. Boltinn fór rétt yfir.„Það var mjög svekkjandi að sjá hann ekki inni. Svona er þetta. Við náðum því miður ekki að knýja fram framlengingu.“Leikir liðanna eru undantekningalítið spennandi.„Þetta eru mjög svipuð lið. Báðir markverðir góðir, varnir góðar og keyrum mjög hraðan bolta. Þannig koma mikið af mistökum. Alltaf jafnt og aldrei hægt að slaka á,“ segir Helena. Sóknarleikurinn í kvöld hefði vissulega mátt vera fjölbreyttari en lykillinn að velgengni Stjörnunnar sé varnarleikurinn.„Þetta snýst aðallega um vörnina. Ef við höldum vörninni fáum við þessi auðveldu mörk sem gefa okkur mikið. Svo þurfum við að skjóta aðeins betur. Við fáum fín færi á köflum en erum að skjóta illa.“Guðrún reyndist Stjörnunni erfiður ljár í þúfu í kvöld með 24 skot varin.„Guðrún var frábær í kvöld en ég til dæmis skýt oft bara beint á hana. Ég á að horfa betur og negla betur.“ Stefán Arnarson þjálfari Fram íbygginn á svip á hliðarlínunni í kvöld.Vísir/EyþórStefán Arnarson: Stjarnan hefði hæglega getað jafnað „Ef við tökum frá tíu fyrstu mínúturnar þá vorum við mun betri. Áttum að vinna sanngjarnt en við gerum algjör mistök í lokin og komum þeim inn í leikinn,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Framara, í leikslok. Hann sagði sigurinn virkilega sætan þótt hann hefði verið mjög tæpur í lokin. Liðið lenti 7-3 undir í fyrri hálfleik þegar Stefán tók leikhlé sem breytti miklu.„Við þurftum að núllstilla, byrja að halda okkar skipulagi. Um leið og það gerðist batnaði leikurinn. Eftir það fórum við að spila bæði góðan varnar- og sóknarleik,“ sagði Stefán. Liðið hefði átt að sigla sigrinum örugglega í hús.„Í lokin vorum við ekki nógu skynsamar og Stjarnan hefði hæglega getað jafnað í lokin.“Lokamínútan var hádramatísk þar sem Guðrún Ósk markvörður átti stórskrýtin sprett upp völlinn og tapaði boltanum. Sem betur fer fyrir hana og Framara kom það ekki að sök.„Hún er mikill íþróttamaður og finnst gaman að hlaupa,“ sagði Stefán og viðurkenndi að hlaup hennar hefði ekki verið samkvæmt plani. En líkt og hjá Kolbrúnu Jóhannsdóttur, markverði Fram á gullaldarárunum á síðustu öld, hefur hún gaman af því að hlaupa með boltann.„Jú jú, enda báðar frábærar.“Halldór Harri vill betri varnarleik hjá sínum leikmönnum.vísir/ernirHalldór Harri: Ekkert líkt okkur í vörninniHalldór Harri Kristjánsson var ekki sáttur við varnarleik sinna kvenna í Mýrinni í kvöld. „Vörnin hefði átt að gera betur. Við fáum á okkur sextán mörk í fyrri hálfleik sem er ekkert líkt okkur,“ sagði Halldór Harri í leikslok.Liðið hefði byrjað þokkalega þótt vörnin hefði ekki staðið vaktina. Liðið komst í 7-3 en sá svo ekki til sólar.„Við klúðrum færum og fáum hraðaupphlaup í andlitið. En við sýndum samt karakter og baráttu, þetta var allavega jafnt í lokin.“Næsti leikur liðanna er strax á miðvikudag.„Þetta er bara 1-0, löng sería og við erum svolítið þekktar fyrir að fara löngu leiðina.“ Leiklýsing24-25 (Leik lokið): Fáránlegar lokasekúndur þar sem Guðrún Ósk bar upp boltann, tapaði honum klaufalega og Helena reyndi skot í opið markið sem fór yfir markið. Fram fór í sókn, tapaði boltanum en vann hann aftur. Heiða varði frá Ragnheiði úr opnu færi en tíminn var of skammur fyrir Stjörnuna. Fram vinnur sigur í frábærum leik sem gefur góð fyrirheit í þessu einvígi.24-25 (59:20): Hvað haldiði? Guðrún Ósk grípur skot Helenu sem hafði þó viðkomu í vörninni. 24 skot varin hjá markverði Framara sem er maður þessa leiks. Fram með boltann og Stefán tekur leikhlé. 40 sekúndur eftir.24-25 (59. mín): Mínúta eftir þegar Halldór Harri tekur leikhlé. Sókn Stjörnunnar var orðin nokkuð vandræðaleg en Framarar klippa Helenu Rut út úr sóknarleiknum. Datt einhverjum í hug að þessi leikur yrði spennandi? Æsispennandi mínúta eftir og Stjarnan með boltann.24-25 (58. mín): Hanna Guðrún minnkar muninn í eitt mark úr vítakasti. Framarar fara í sókn, sem lýkur með frábærri útfærslu á aukakasti en Steinunn klukkar af línunni eftir sendingu frá Ragnheiði. Úff, galopið færi.23-25 (57. mín): Framarar manni færri en spila fimm. Stefán tekur enga áhættu og Guðrún bíður í markinu. Heiða ver svo skot frá Hildi. 23-25 (55. mín): Báðum liðum gengur illa að finna leiðina í markið. Markverðirnir að taka skot á báðum endum. Varnirnar að standa vaktina vel. Fram tapar boltanum og Ragnheiður fær tveggja mínútna brottvísun fyrir að halda utan um Hönnu G. Harður dómur. En Framarar telja réttlætið hafa sigrað í næstu sókn þegar Guðrún ver frá Hönnu úr galopnu færi.23-25 (52. mín): Hanna Guðrún skorar úr hraðaupphlaupi eftir góða vörn Stjörunnar. Afar mikilvægt mark. Hildur skýtur svo framhjá í næstu sókn Framara. Stjarnan brunar upp og Helena nýtir flugbrautina en skotið fer í slána og niður á línu.22-25 (50. mín): Halldór Harri tekur leikhlé og fer yfir málin með sínum konum. Tíu mínútur eftir og munurinn þrjú mörk. Helena Rut heldur að miklu leyti sókn Stjörnunnar gangandi og heimakonur þurfa meiri fjölbreytni. Stefán vill pottþétt meiri aga í sóknarleik sinna kvenna sem eru í góðri stöðu.22-25 (48. mín): Stjarnan í basli í sókninni manni færri og vörn Framara ver skot frá Rakel úr vonlausri stöðu. Dæmd skref á Hildi Þorgeirs svo Stjarnan fær annað tækifæri til að minnka muninn.22-25 (45. mín): Sólveig Lára með skot í skrefinu en Hildur svarar með flottu skoti. Guðrún ver enn eitt skotið í marki Framara sem snúa vörn í sókn og fá víti. Ragnheiður skorar af öryggi úr vítinu. Hanna Guðrún rekin útaf í tvær mínútur.21-23 (43. mín): Ragnheiður skorar með langskoti í bláhornið og hinumegin ver Guðrún sitt fjórtánda skot. Enn spila Framarar með sjö í sókninni og engan í markinu.21-22 (42. mín): Ragnheiður skorar enn eitt markið sitt og Guðrún ver í hinu markinu. Fram spilar með sjö í sókninni þessa stundina. Og hver kemur á flugbrautinni í seinni bylgju nema Helena Örvars sem skorar áttunda mark sitt.20-21 (40. mín): Rakel jafnar metin með gegnumbroti og Steinunn er rekin útaf með tvær í annað skipti. Elísabet Gunnars komin inn á línuna hjá Fram á meðan Steinunn hvílir sig. Ragnheiður fær boltann eftir fína sendingu og skorar sitt sjötta mark. Fram heldur frumkvæðinu.19-20 (39. mín): Stefán þjálfari tekur leikhlé. Reynir að róa leik sinna leikmanna. Hildur svarar kallinu með marki en Helena skorar um leið hinumegin.18-19 (37. mín): Helena er í banastuði og fer í gegnum vörnina og skorar með gólfskoti. Heiða, sem er komin í mark Stjörnunnar, ver svo frá Sigurbjörgu. Helena brýst í gegn, Guðrún ver en Stjarnan fær ódýrt vítakast sem Hanna skorar úr. 6-3 kafli hjá Stjörnunni í seinni hálfleik.16-19 (36. mín): Sólveig Lára með skot af gólfinu og minnkar muninn í fjögur mörk. Aðalheiður Hreins skorar svo úr hraðaupphlaupi og munurinn orðinn þrjú og kætast Garðbæingar í stúkunni.14-19 (34. mín): Sigurbjörg Jóhanns labbar í gegnum vörn Stjörnunnar en Helena svarar aftur á hinum endanum. En vitiði hvað? Sigurbjörg skoraði aftur, alveg eins. Komin í gang. Hjálpar henni að Stjarnan klippir Ragnheiði út úr sóknarleiknum og fækkar í vörninni. Skapast pláss.13-17 (31. mín): Eftir þvílíka baráttu á línunni við Sólveigu Láru og Helenu er það Steinunn sem opnar hálfleikinn með snyrtilegu marki. Helena Rut svarar með skoti í skrefinu. Nú tekur Hanna G. Ragnheiði úr umferð.12-16 (hálfleikur): Gestirnir úr Safamýri leiða með fjórum mörkum í hálfleik. Garðbæingar byrjuðu leikinn betur og virtust ætla sér stóra hluti í vörninni. Stjarnan komst í 7-3 þegar Stefán Arnarson tók leikhlé sem virðist heldur betur hafa breytt gangi mála. Fram komst í 13-9 með 10-2 leikkafla og Safamýrastúlkur léku við hvern sinn fingur. Guðrún hefur verið frábær í marki Framara, varið ellefu skot, og fengið góða hjálp frá vörninni þar sem besti varnarmaður deildarinnar, Steinunn Björnsdóttir, fer fyrir sínu liði. Fram á töluvert inni hjá Sigurbjörgu í sókninni og sömuleiðis Rebekku Rut. Ragnheiður og Hildur hafa verið í aðalhlutverki þar sem og Steinunn sem er komin með fjögur mörk af línunni. Stjarnan saknar Sólveigar Láru, hægri skyttu sinnar, í sóknarleiknum. Aðeins eitt mark frá henni í fyrri hálfleik sem er vel undir pari á þeim bænum. Hanna Guðrún hefur nýtt vítin þrjú en annars hefur lítil ógn verið af hægri vængnum. Hafdís hefur skilað sínu í markinu og komin með sjö skot varin.12-16 (30. mín): Helena Örvarsdóttir lyftir sér upp og skorar flott mark fyrir Garðbæinga. Hafdís ver á hinum endanum en kastar svo boltanum glórulaust fram völlinn, beint í hendurnar á Ragnheiði. Síðustu sókn fyrri hálfleiksins lýkur svo með því að Fram tapar boltanum en Stjarnan nær ekki að nýta þær sekúndur sem eftir lifa.11-16 (29. mín): Guðrún ver frá Sólveigu Láru. Guðrún komin með ellefu skot í fyrri hálfleik. Stórleikur hjá landsliðsmarkverðinum í kvöld. Ragnheiður með sleggju á hinum endanum. Þvílík skytta!11-15 (27. mín): Sólveig Lára kemst í gegnum vörn Framstelpna og skorar, loksins. Hennar fyrsta mark. Stjarnan þarf meira frá skyttunni sinni. Ragnheiður svarar á hinum endanum með þvílíkri sleggju, stöngina og inn.10-14 (25. mín): Enn ver Guðrún í markinu og Steinunn skorar úr hraðaupphlaupi sitt fjórða mark. Framarar taka á Stjörnukonum í vörninni og Rakel fer í jörðina eftir að Steinunn tók hraustlega á henni. Rakel gerði mikið úr þessu, Steinunni er ekki skemmt en tvær mínútur niðurstaðan. Guðrún ver svo frá Stjörnunni enn eina ferðina og fær lof í lófa frá Steinunni. Guðrún fer á bekkinn í skamma stund svo Fram geti verið með fullmannað lið í sókninni.10-13 (24. mín): Stjarnan þurfti þetta mark Hanna Guðrún úr vítakasti. Hafdís ver svo frá Ragnheiði á hinum endanum.9-13 (22. mín): Ragnheiður les sóknarleik Stjörnunnar eins og opna bók, stelur boltanum og skorar. Stjarnan klúðrar annarri sókn og Elva Þóra skorar af línunni hinumegin eftir að hafa hirt frákast. Framarar að taka yfir. 10-2 kafli hjá Fram. Stjarnan í miklu basli með Framvörnina og Guðrúnu í markinu sem er í miklu stuði.9-11 (20. mín): Hildur skorar með fínu skoti. Kom með þrjú mörk. Markverðirnir báðir að taka skot og leikar enn að æsast. Steinunn fær sendingu inn á línuna en grípur ekki í úrvalsfæri.9-10 (19. mín): Guðrún ver enn eitt skotið og Rebekka Rut skorar úr hraðaupphlaupi. Rakel svo með frábæra sendingu inn á línuna á Nataly Sæunni sem skorar sitt fyrsta mark.8-9 (18. mín): Sigurbjörg brýtur sér leið í gegnum Stjörnuvörnina og skorar. Framstelpur komnar yfir í fyrsta sinn í leiknum og frábær kafli hjá þeim. Búnar að skora sex mörk gegn einu marki Stjörnunnar. Halldór Harri hefur fengið nóg og nýtir leikhlé.8-8 (17. mín): Steinunn nýtir færin sín vel af línunni og jafnar metin.8-7 (15. mín): Áhorfendur láta vel í sér heyra. Hér er gaman. Hildur Þorgeirs fær opna braut í gegnum vörn Stjörnunnar og þakkar fyrir sig með marki. Reynir aftur í næstu sókn en Hafdís ver í markinu.8-6 (12. mín): Ruðningur dæmdur á Stjörnuna og Elva Þóra skorar úr hraðaupphlaupinu. Helna Rut svarar að bragði með sleggju. Hafdís ver í markinu frá Sigurbjörgu en Stjörnustelpur tapa boltanum um leið. Mjög hraður leikur í Mýrinni.7-5 (11. mín): Leikhléið skilaði strax sínu því Fram spilaði þolinmóða sókn og Steinunn með fínt mark af línunni eftir sendingu úr horninu. Vel gert. Guðrún ver svo í markinu frá Rakel og Hildur skorar úr seinni bylgjunni. Fram vinnur boltann strax aftur en tapar honum afar klaufalega, skref úti á miðjum velli undir engri pressu.7-3 (10. mín): Stefanía með fínt mark úr horninu úr nokkuð þröngu færi, Helena svo með hörkuskot í næstu sókn og aftur úr hraðaupphlaupi í sókninni á eftir. Stefán Arnarson, þjálfari Framara, hefur fengið nóg eftir fjögur mörk Garðbæinga í röð og tekur leikhlé. Framstelpur tapað boltanum nokkuð klaufalega í nokkrum sóknum, misheppnaðar sendingar og skot úr erfiðum stöðum.4-3 (8. mín): Elena Elísabet skorar af línunni eftir hraðaupphlaup. Vörnin hjá Stjörnunni tók skot frá Hildi Þorgeirs á hinum endanum.3-3 (6. mín): Hafdís og Guðrún verja hvort sitt skotið í markinu og svo kemur stórskyttan Ragnheiður með glæsilegt mark og jafnar metin fyrir Fram, hennar annað mark í röð. Vörnin hjá Fram farin að standa betur og Stjarnan ekki skorað úr þremur sóknum í röð.3-1 (4. mín): Stjörnustelpur eru baráttuglaðar í vörninni og Frömurum gengur illa að skapa sér færi. Hanna G. skorar aftur úr víti eftir að Stjarnan vann boltann í vörninni.2-1 (3. mín): Ragnheiður með línusendingu inn á Steinunni fyrirliða sem jafnar metin. Rakel Dögg svarar hinum megin með undirhandarskoti og kemur Stjörnunni yfir. Sigurbjörg svo með skot í stöngina. 1-0 (2. mín): Rakel Dögg neglir í slána úr fyrsta skoti Stjörnunnar og hinumegin skýtur Sigurbjörg yfir. Stjarnan sækir svo víti sem Hanna Guðrún skorar úr af öryggi.Fyrir leik: Töluvert betur mætt úr röðum Stjörnunnar en Framara í stúkuna í kvöld. En svo er spurning hvor sveitin lætur betur í sér heyra. Líklega á milli 200 og 300 manns í stúkunni núna. Búið að kynna bæði lið og þá getur ballið farið að byrja. Stjarnan byrjar með boltann.Fyrir leik: Framkonur ganga á undan til búningsklefa og Stjarnan tekur eina skotæfingu síðustu tvær mínútur fyrir klefann. Maður finnur spennuna í loftinu. Rakel Dögg kemur með leikboltann til dómaranna og slær á létta strengi.Fyrir leik: Tíu mínútur í leik og þá hljómar lag heimakvenna: „Við erum Stjörnumenn“ og yngri kynslóðin tekur undir í stúkunni. Líklega um hundrað manns komin í sæti sín þegar leikmenn búa sig undir að ganga til búningsherbergja og fara yfir plan dagsins í síðasta sinn.Fyrir leik: Þar sem uppáhaldslitur beggja félaga er blár þarf annað liðið að spila í varabúningum. Eins og hefðbundið er kemur það í hlut útiliðsins, Framarar, sem verða hvítir í kvöld. Já, var ég búinn að nefna hver er í aðalhlutverki á ritaraborðinu? Líklega ekki. Vilhjálmur Bjarnason, Garðbæingur, Útsvarsmeistari og alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í suðvesturkjördæmi.Fyrir leik: Ungir og efnilegir Stjörnukrakkar af báðum kynjum, klæddir í búning félagsins, eru að gera sig klára til að ganga inn á völlinn með HSÍ fána og Stjörnufána. Stór stund fyrir börnin sem verða mögulega leikmenn í úrslitaeinvígjum Íslandsmótsins eftir áratug eða svo.Fyrir leik: Það er boðið upp á rándýrt dómarapar í kvöld þar sem okkar bestu dómarar, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, eru með flauturnar. Það kæmi blaðamanni á óvart ef þeir byðu upp á nokkuð annað en úrvalsframmistöðu.Fyrir leik: Þorgerður Anna Atladóttir er að sjálfsögðu mætt á bekkinn í upphituninni hjá Stjörnustelpum en hún handleggsbrotnaði í apríl og hefur því ekkert tekið þátt í úrslitakeppninni og munar um minna. Meiðslasaga hennar er með ólíkindum, ein okkar allra besta handboltakona. Hún skartar að sjálfsögðu treyju númer 19 og heldur uppi stuðinu á bekknum.Fyrir leik: Það er óhætt að segja að um tvö stórveldi í kvennahandboltanum sé að ræða. Hvorugt liðið hefur þó landan þeim stóra í nokkurn tíma. Stjarnan varð síðast meistari árið 2009 eftir 3-0 sigur á Fram. Fram varð síðast Íslandsmeistari árið 2013 eftir oddaleik gegn Stjörnunni. Þá hafði stórveldið legið í dvala frá árinu 1990 þegar Kolbrún Jóhanns varði mark þeirra.Fyrir leik: Bæði lið eru á fullu í upphitun nú þegar 35 mínútur eru í leik. Flestir búnir að skokka og eru að teygja á vöðvunum. Fólk byrjað að tínast í stúkuna. Fram-konur eru búnar að bíða í tvær vikur eftir þessum leik en Stjörnustelpur fimm dögum skemur enda þurftu þær fimmta leik í undanúrslitunum gegn Gróttu.Fyrir leik: Framarar þurftu sömuleiðis að hafa fyrir sigrinum gegn Haukum þótt niðurstaðan hljómi þægilega, þrír sigrar í jafnmörgum leikjum. Síðasti leikurinn var tvíframlengdur og töldu Haukar sig illa svikna af dómgæslu í leiknum. Fram vann leikina þrjá samanlagt með fimm marka mun sem gefur vel til kynna hve jafnir leikirnir voru. Fyrir leik: Stjarnan fór hádramatíska leið í úrslitin með 3-2 sigri á Gróttu í fimm leikja seríu. Stjarnan vann reyndar fjóra leiki en Gróttu var dæmdur sigur í einum leiknum þar sem leikmaður Stjörnunnar var ekki skráð á leikskýrslu. Grótta kærði og vann leikinn. Fyrir leik: Stjarnan er deildar- og bikarmeistari en Fram mátti sætta sig við silfurverðlaun í báðum keppnum, með minnsta mun. Stjarnan varð deildarmeistari á markatölu og munaði aðeins einu marki á liðunum. Hið sama var uppi á teningnum þegar Stjarnan vann bikarinn eftir 19-18 sigur á Frömurum í Laugardalshöll.Fyrir leik: Velkomnir með okkur í Mýrina lesendur góðir þar sem styttist í stórleikinn hjá bláliðunum úr Garðabæ og Safamýrinni í Reykjavík. Stjarnan tekur á móti Fram í leik sem er hægt að bóka að verði spennandi sé miðað við viðureignir liðanna í vetur. Olís-deild kvenna Mest lesið Rassinn út og Netflix í rugli er Paul lagði Tyson Sport Kom heim með skjalatösku fulla af seðlum frá Rússlandi Fótbolti Vildi ekki rota og meiða Tyson Sport Messi: Þú ert hugleysingi Fótbolti Árekstur í beinni er hitað var upp fyrir leik Íslands Fótbolti Reynslubolti skilin eftir heima: „Niðurbrotin“ Handbolti Steig á tána á Mike Tyson Sport Scott McTominay sér ekki eftir neinu Enski boltinn Infantino lét grafa nafnið sitt tvisvar á nýja bikarinn fyrir HM félagsliða Fótbolti Dagskráin í dag: Íslenska karlalandsliðið í eldlínunni í Svartfjallalandi Sport Fleiri fréttir Reynslubolti skilin eftir heima: „Niðurbrotin“ Lauflétt hjá Valsmönnum sem hoppuðu upp í þriðja sætið Kristján öflugur í sigri í Íslendingaslag Tólfti sigurinn í röð hjá Stiven og félögum Guðjón Valur framlengir við Gummersbach Elliði segir HM ekki í hættu Mosfellingar í vandræðum í Grafarvogi en redduðu sér í lokin Anna Karólína varði þrjú víti en það dugði ekki til Guðjón Valur án Íslendinga en áfram í bikarnum Uppgjörið: Grótta - Haukar 25-42 | Haukar kjöldrógu Gróttu FH-ingar í fínum gír án Arons „Enn sáttari með að allir leikmenn fari heilir inn í þetta jólafrí” Embla tryggði Stjörnunni sigur Rúnar frábær í sigri á gamla heimavelli sínum í Eyjum Íslendingalið í bikarúrslit í Noregi en aðeins eitt áfram í þýska bikarnum Uppgjör og viðtöl: Haukar - Fram 20-28 | Sannfærandi sigur Fram Einar Bragi öflugur í stórsigri Kristianstad Þórey Anna minnti á sig í 35. sigri Valskvenna í röð Er HSÍ í samstarfi við Adidas eða ekki? „Það er erfitt að færa þessar fregnir“ Nýja mamman „hefði þurft 1-2 mánuði í viðbót“ Sandra ekki í EM-hópnum en Rut fer með Svona var fundurinn er Arnar tilkynnti EM-hópinn Íslenski risinn sem gnæfir yfir Porto: „Myndi ekki vilja gera neitt annað“ Blaðamannafundur HSÍ blásinn af á elleftu stundu Viktor Gísli í úrvalsliði fyrstu tveggja umferða undankeppninnar Andrea öflug í sigri á Söndru og stöllum í Metzungen Dana klikkaði ekki á skoti en Volda tapaði stigi Annar sannfærandi sigur hjá lærisveinum Alfreðs Gísla Uppgjörið: Georgía - Ísland 25-30 | Íslenska liðið spýtti í lófana og gerði nóg í Georgíu Sjá meira
Fram er komið með yfirhöndina í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta kvenna eftir dramatískan 25-24 útisigur á Stjörnunni í fyrsta leik liðanna í Mýrinni í Garðbænum í kvöld. Leikurinn var kaflaskiptur þar sem gestirnir höfðu frumkvæðið lengst af en lokamínúturnar voru afar spennandi. Staðan var 22-25 fyrir Fram þegar seinni hálfleikur var hálfnaður en þá tók við frost, ekki alkul en nokkuð nálægt því. Fram skoraði ekki það sem eftir lifði leiks en Stjarnan náði að skora tvisvar. Litlu munaði að Garðbæingar jöfnuðu undir lokin á farsakenndri lokamínútu þar sem Helena Rut Örvarsdóttir, besti leikmaður Stjörnunnar í leiknum, skaut yfir opið markið frá miðjum velli. Fram fagnaði dramatískum sigri sem gestirnir hefðu þó getað verið löngu búnar að sigla í hús. Það virðist hins vegar svo til ritað í lög að leikir þessara liða ráðist á einu marki, eins og var tilfellið í bikarúrslitaleiknum þegar Stjarnan vann dramatískan sigur. Sama var uppi á teningnum í deildinni þar sem Stjarnan varð deildarmeistari á markatölu, þar sem munaði einu marki. Nú eru Safamýrarkonur aftur á móti komnar með frumkvæðið og óhætt að segja að sigur þeirra í kvöld hafi verið sanngjarn. Leikurinn í kvöld var afar kaflaskiptur. Stjarnan komst í 7-3 en Fram svaraði með 10-2 kafla og var komið með fjögurra marka foyrstu, 13-9. Staðan var 12-16 í hálfleik. Stjarnan náði mest að minnka muninn í eitt mark sem var munurinn þegar upp var staðið. Guðrún Ósk Maríasdóttir, markvörður Fram, var besti leikmaður vallarins með 24 skot varin. Sum með viðkomu í vörn Framara þar sem Steinunn Björnsdóttir réð ríkjum sem fyrr. Guðrún var þó stálheppin í lokin þegar hún ákvað upp úr þurru að drippla boltanum upp völlinn í lokasókn Framara. Henni til happs tókst Stjörnunni ekki að nýta sér fjarveru hennar í markinu þegar boltinn vannst. Ragnheiður Júlíusdóttir var atkvæðamest í sókninni eins og svo oft áður með átta mörk. Hjá heimakonum var það Helena Rut sem bar sóknarleikinn uppi á löngum köflum en Stjörnukonur eiga töluvert inni og þurfa að bæta leik sinn fyrir næsta leik, í Safamýrinni á miðvikudaginn. Heiða og Hafdís skiptu hálfleikjunum á milli sín í markinu en gátu ekki keppt við frammistöðu Guðrúnar í marki Framara. Næsti leikur liðanna verður í Safamýri klukkan 18:30 á miðvikudag og full ástæða til að hvetja fólk til að fjölmenna á völlinn því það er svo gott sem hægt að bóka spennuþrunginn leik sem mun ráðast á einu marki. Vísir fylgdist með gangi mála í leiknum eins og sjá má að neðan en umfjöllun og viðtöl eru handan við hornið.Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 8, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 6, Sólveig Lára Kjærnested 3, Stefanía Theodórsdóttir 1, Elena Elísabet Birgisdóttir 2, Nataly Sæunn Valencia 1, Rakel Dögg Bragadóttir 1, Brynhildur Bergmann Kjartansdóttir 1.Varin skot: Guðrún Ósk Maríasdóttir 24Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 8, Steinunn Björnsdóttir 5, Hildur Þorgeirsdóttir 5, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 3, Rebekka Rut Skúladóttir 2, Elva Þór Arnardóttir 2. Varin skot: Heiða Ingólfsdóttir 5, Hafdís Renötudóttir 7Guðrún Ósk átti frábæran leik í marki Fram.vísir/eyþórGuðrún Ósk: Barátta og leikgleði lykillinnGuðrún Ósk Maríasdóttir varði 24 skot í Mýrinni í kvöld og átti stórleik. Hún sagði leikinn hafa verið sveiflukenndan en baráttan einkennt hann allan tímann. Stjarnan komst í 7-3 og skrifaði Guðrún það á að Fram liðið hefði ekki náð að stilla sig inn á tempóið. Baráttan hefði þó alltaf verið til staðar. Tveggja vikna biðin eftir leiknum hafi ekki verið erfið. „Nei, alls ekki. Við höfum náð að stilla okkur vel saman og baráttan á æfingum verið góð.“ Sem fyrr segir átti Guðrún frábæran leik. „Maður er búin að spila nokkrum sinnum gegn Stjörnunni. Ef ég treysti vörninni og hún skilar sínu þá næ ég góðum leik,“ segir Guðrún. Lykillinn að sigri í einvíginu er ljós í hennar huga. „Við þurfum að mæta með baráttu og leikgleði. Þá komumst við vonandi á leiðarenda.“Helena Rut fékk óblíðar móttökur hjá Frömurum í kvöld en náði þó að sejta átta mörk.Vísir/ErnirHelena Rut: Mjög svekkjandi að sjá hann ekki inni„Þetta var mjög svekkjandi en ég held að Framararnir hafi verið betri í dag,“ sagði Helena Rut Örvarsdóttir, besti leikmaður Stjörnunnar í kvöld.„Vörnin var framan af mjög léleg, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við héldum þeim reyndar í 25 mörkum lengi í seinni hálfleik en náðum ekki að setja boltann í netið,“ segir Helena. Hún fékk tækifæri til að jafna metin af löngu færi þegar markið var opið undir lokin. Boltinn fór rétt yfir.„Það var mjög svekkjandi að sjá hann ekki inni. Svona er þetta. Við náðum því miður ekki að knýja fram framlengingu.“Leikir liðanna eru undantekningalítið spennandi.„Þetta eru mjög svipuð lið. Báðir markverðir góðir, varnir góðar og keyrum mjög hraðan bolta. Þannig koma mikið af mistökum. Alltaf jafnt og aldrei hægt að slaka á,“ segir Helena. Sóknarleikurinn í kvöld hefði vissulega mátt vera fjölbreyttari en lykillinn að velgengni Stjörnunnar sé varnarleikurinn.„Þetta snýst aðallega um vörnina. Ef við höldum vörninni fáum við þessi auðveldu mörk sem gefa okkur mikið. Svo þurfum við að skjóta aðeins betur. Við fáum fín færi á köflum en erum að skjóta illa.“Guðrún reyndist Stjörnunni erfiður ljár í þúfu í kvöld með 24 skot varin.„Guðrún var frábær í kvöld en ég til dæmis skýt oft bara beint á hana. Ég á að horfa betur og negla betur.“ Stefán Arnarson þjálfari Fram íbygginn á svip á hliðarlínunni í kvöld.Vísir/EyþórStefán Arnarson: Stjarnan hefði hæglega getað jafnað „Ef við tökum frá tíu fyrstu mínúturnar þá vorum við mun betri. Áttum að vinna sanngjarnt en við gerum algjör mistök í lokin og komum þeim inn í leikinn,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Framara, í leikslok. Hann sagði sigurinn virkilega sætan þótt hann hefði verið mjög tæpur í lokin. Liðið lenti 7-3 undir í fyrri hálfleik þegar Stefán tók leikhlé sem breytti miklu.„Við þurftum að núllstilla, byrja að halda okkar skipulagi. Um leið og það gerðist batnaði leikurinn. Eftir það fórum við að spila bæði góðan varnar- og sóknarleik,“ sagði Stefán. Liðið hefði átt að sigla sigrinum örugglega í hús.„Í lokin vorum við ekki nógu skynsamar og Stjarnan hefði hæglega getað jafnað í lokin.“Lokamínútan var hádramatísk þar sem Guðrún Ósk markvörður átti stórskrýtin sprett upp völlinn og tapaði boltanum. Sem betur fer fyrir hana og Framara kom það ekki að sök.„Hún er mikill íþróttamaður og finnst gaman að hlaupa,“ sagði Stefán og viðurkenndi að hlaup hennar hefði ekki verið samkvæmt plani. En líkt og hjá Kolbrúnu Jóhannsdóttur, markverði Fram á gullaldarárunum á síðustu öld, hefur hún gaman af því að hlaupa með boltann.„Jú jú, enda báðar frábærar.“Halldór Harri vill betri varnarleik hjá sínum leikmönnum.vísir/ernirHalldór Harri: Ekkert líkt okkur í vörninniHalldór Harri Kristjánsson var ekki sáttur við varnarleik sinna kvenna í Mýrinni í kvöld. „Vörnin hefði átt að gera betur. Við fáum á okkur sextán mörk í fyrri hálfleik sem er ekkert líkt okkur,“ sagði Halldór Harri í leikslok.Liðið hefði byrjað þokkalega þótt vörnin hefði ekki staðið vaktina. Liðið komst í 7-3 en sá svo ekki til sólar.„Við klúðrum færum og fáum hraðaupphlaup í andlitið. En við sýndum samt karakter og baráttu, þetta var allavega jafnt í lokin.“Næsti leikur liðanna er strax á miðvikudag.„Þetta er bara 1-0, löng sería og við erum svolítið þekktar fyrir að fara löngu leiðina.“ Leiklýsing24-25 (Leik lokið): Fáránlegar lokasekúndur þar sem Guðrún Ósk bar upp boltann, tapaði honum klaufalega og Helena reyndi skot í opið markið sem fór yfir markið. Fram fór í sókn, tapaði boltanum en vann hann aftur. Heiða varði frá Ragnheiði úr opnu færi en tíminn var of skammur fyrir Stjörnuna. Fram vinnur sigur í frábærum leik sem gefur góð fyrirheit í þessu einvígi.24-25 (59:20): Hvað haldiði? Guðrún Ósk grípur skot Helenu sem hafði þó viðkomu í vörninni. 24 skot varin hjá markverði Framara sem er maður þessa leiks. Fram með boltann og Stefán tekur leikhlé. 40 sekúndur eftir.24-25 (59. mín): Mínúta eftir þegar Halldór Harri tekur leikhlé. Sókn Stjörnunnar var orðin nokkuð vandræðaleg en Framarar klippa Helenu Rut út úr sóknarleiknum. Datt einhverjum í hug að þessi leikur yrði spennandi? Æsispennandi mínúta eftir og Stjarnan með boltann.24-25 (58. mín): Hanna Guðrún minnkar muninn í eitt mark úr vítakasti. Framarar fara í sókn, sem lýkur með frábærri útfærslu á aukakasti en Steinunn klukkar af línunni eftir sendingu frá Ragnheiði. Úff, galopið færi.23-25 (57. mín): Framarar manni færri en spila fimm. Stefán tekur enga áhættu og Guðrún bíður í markinu. Heiða ver svo skot frá Hildi. 23-25 (55. mín): Báðum liðum gengur illa að finna leiðina í markið. Markverðirnir að taka skot á báðum endum. Varnirnar að standa vaktina vel. Fram tapar boltanum og Ragnheiður fær tveggja mínútna brottvísun fyrir að halda utan um Hönnu G. Harður dómur. En Framarar telja réttlætið hafa sigrað í næstu sókn þegar Guðrún ver frá Hönnu úr galopnu færi.23-25 (52. mín): Hanna Guðrún skorar úr hraðaupphlaupi eftir góða vörn Stjörunnar. Afar mikilvægt mark. Hildur skýtur svo framhjá í næstu sókn Framara. Stjarnan brunar upp og Helena nýtir flugbrautina en skotið fer í slána og niður á línu.22-25 (50. mín): Halldór Harri tekur leikhlé og fer yfir málin með sínum konum. Tíu mínútur eftir og munurinn þrjú mörk. Helena Rut heldur að miklu leyti sókn Stjörnunnar gangandi og heimakonur þurfa meiri fjölbreytni. Stefán vill pottþétt meiri aga í sóknarleik sinna kvenna sem eru í góðri stöðu.22-25 (48. mín): Stjarnan í basli í sókninni manni færri og vörn Framara ver skot frá Rakel úr vonlausri stöðu. Dæmd skref á Hildi Þorgeirs svo Stjarnan fær annað tækifæri til að minnka muninn.22-25 (45. mín): Sólveig Lára með skot í skrefinu en Hildur svarar með flottu skoti. Guðrún ver enn eitt skotið í marki Framara sem snúa vörn í sókn og fá víti. Ragnheiður skorar af öryggi úr vítinu. Hanna Guðrún rekin útaf í tvær mínútur.21-23 (43. mín): Ragnheiður skorar með langskoti í bláhornið og hinumegin ver Guðrún sitt fjórtánda skot. Enn spila Framarar með sjö í sókninni og engan í markinu.21-22 (42. mín): Ragnheiður skorar enn eitt markið sitt og Guðrún ver í hinu markinu. Fram spilar með sjö í sókninni þessa stundina. Og hver kemur á flugbrautinni í seinni bylgju nema Helena Örvars sem skorar áttunda mark sitt.20-21 (40. mín): Rakel jafnar metin með gegnumbroti og Steinunn er rekin útaf með tvær í annað skipti. Elísabet Gunnars komin inn á línuna hjá Fram á meðan Steinunn hvílir sig. Ragnheiður fær boltann eftir fína sendingu og skorar sitt sjötta mark. Fram heldur frumkvæðinu.19-20 (39. mín): Stefán þjálfari tekur leikhlé. Reynir að róa leik sinna leikmanna. Hildur svarar kallinu með marki en Helena skorar um leið hinumegin.18-19 (37. mín): Helena er í banastuði og fer í gegnum vörnina og skorar með gólfskoti. Heiða, sem er komin í mark Stjörnunnar, ver svo frá Sigurbjörgu. Helena brýst í gegn, Guðrún ver en Stjarnan fær ódýrt vítakast sem Hanna skorar úr. 6-3 kafli hjá Stjörnunni í seinni hálfleik.16-19 (36. mín): Sólveig Lára með skot af gólfinu og minnkar muninn í fjögur mörk. Aðalheiður Hreins skorar svo úr hraðaupphlaupi og munurinn orðinn þrjú og kætast Garðbæingar í stúkunni.14-19 (34. mín): Sigurbjörg Jóhanns labbar í gegnum vörn Stjörnunnar en Helena svarar aftur á hinum endanum. En vitiði hvað? Sigurbjörg skoraði aftur, alveg eins. Komin í gang. Hjálpar henni að Stjarnan klippir Ragnheiði út úr sóknarleiknum og fækkar í vörninni. Skapast pláss.13-17 (31. mín): Eftir þvílíka baráttu á línunni við Sólveigu Láru og Helenu er það Steinunn sem opnar hálfleikinn með snyrtilegu marki. Helena Rut svarar með skoti í skrefinu. Nú tekur Hanna G. Ragnheiði úr umferð.12-16 (hálfleikur): Gestirnir úr Safamýri leiða með fjórum mörkum í hálfleik. Garðbæingar byrjuðu leikinn betur og virtust ætla sér stóra hluti í vörninni. Stjarnan komst í 7-3 þegar Stefán Arnarson tók leikhlé sem virðist heldur betur hafa breytt gangi mála. Fram komst í 13-9 með 10-2 leikkafla og Safamýrastúlkur léku við hvern sinn fingur. Guðrún hefur verið frábær í marki Framara, varið ellefu skot, og fengið góða hjálp frá vörninni þar sem besti varnarmaður deildarinnar, Steinunn Björnsdóttir, fer fyrir sínu liði. Fram á töluvert inni hjá Sigurbjörgu í sókninni og sömuleiðis Rebekku Rut. Ragnheiður og Hildur hafa verið í aðalhlutverki þar sem og Steinunn sem er komin með fjögur mörk af línunni. Stjarnan saknar Sólveigar Láru, hægri skyttu sinnar, í sóknarleiknum. Aðeins eitt mark frá henni í fyrri hálfleik sem er vel undir pari á þeim bænum. Hanna Guðrún hefur nýtt vítin þrjú en annars hefur lítil ógn verið af hægri vængnum. Hafdís hefur skilað sínu í markinu og komin með sjö skot varin.12-16 (30. mín): Helena Örvarsdóttir lyftir sér upp og skorar flott mark fyrir Garðbæinga. Hafdís ver á hinum endanum en kastar svo boltanum glórulaust fram völlinn, beint í hendurnar á Ragnheiði. Síðustu sókn fyrri hálfleiksins lýkur svo með því að Fram tapar boltanum en Stjarnan nær ekki að nýta þær sekúndur sem eftir lifa.11-16 (29. mín): Guðrún ver frá Sólveigu Láru. Guðrún komin með ellefu skot í fyrri hálfleik. Stórleikur hjá landsliðsmarkverðinum í kvöld. Ragnheiður með sleggju á hinum endanum. Þvílík skytta!11-15 (27. mín): Sólveig Lára kemst í gegnum vörn Framstelpna og skorar, loksins. Hennar fyrsta mark. Stjarnan þarf meira frá skyttunni sinni. Ragnheiður svarar á hinum endanum með þvílíkri sleggju, stöngina og inn.10-14 (25. mín): Enn ver Guðrún í markinu og Steinunn skorar úr hraðaupphlaupi sitt fjórða mark. Framarar taka á Stjörnukonum í vörninni og Rakel fer í jörðina eftir að Steinunn tók hraustlega á henni. Rakel gerði mikið úr þessu, Steinunni er ekki skemmt en tvær mínútur niðurstaðan. Guðrún ver svo frá Stjörnunni enn eina ferðina og fær lof í lófa frá Steinunni. Guðrún fer á bekkinn í skamma stund svo Fram geti verið með fullmannað lið í sókninni.10-13 (24. mín): Stjarnan þurfti þetta mark Hanna Guðrún úr vítakasti. Hafdís ver svo frá Ragnheiði á hinum endanum.9-13 (22. mín): Ragnheiður les sóknarleik Stjörnunnar eins og opna bók, stelur boltanum og skorar. Stjarnan klúðrar annarri sókn og Elva Þóra skorar af línunni hinumegin eftir að hafa hirt frákast. Framarar að taka yfir. 10-2 kafli hjá Fram. Stjarnan í miklu basli með Framvörnina og Guðrúnu í markinu sem er í miklu stuði.9-11 (20. mín): Hildur skorar með fínu skoti. Kom með þrjú mörk. Markverðirnir báðir að taka skot og leikar enn að æsast. Steinunn fær sendingu inn á línuna en grípur ekki í úrvalsfæri.9-10 (19. mín): Guðrún ver enn eitt skotið og Rebekka Rut skorar úr hraðaupphlaupi. Rakel svo með frábæra sendingu inn á línuna á Nataly Sæunni sem skorar sitt fyrsta mark.8-9 (18. mín): Sigurbjörg brýtur sér leið í gegnum Stjörnuvörnina og skorar. Framstelpur komnar yfir í fyrsta sinn í leiknum og frábær kafli hjá þeim. Búnar að skora sex mörk gegn einu marki Stjörnunnar. Halldór Harri hefur fengið nóg og nýtir leikhlé.8-8 (17. mín): Steinunn nýtir færin sín vel af línunni og jafnar metin.8-7 (15. mín): Áhorfendur láta vel í sér heyra. Hér er gaman. Hildur Þorgeirs fær opna braut í gegnum vörn Stjörnunnar og þakkar fyrir sig með marki. Reynir aftur í næstu sókn en Hafdís ver í markinu.8-6 (12. mín): Ruðningur dæmdur á Stjörnuna og Elva Þóra skorar úr hraðaupphlaupinu. Helna Rut svarar að bragði með sleggju. Hafdís ver í markinu frá Sigurbjörgu en Stjörnustelpur tapa boltanum um leið. Mjög hraður leikur í Mýrinni.7-5 (11. mín): Leikhléið skilaði strax sínu því Fram spilaði þolinmóða sókn og Steinunn með fínt mark af línunni eftir sendingu úr horninu. Vel gert. Guðrún ver svo í markinu frá Rakel og Hildur skorar úr seinni bylgjunni. Fram vinnur boltann strax aftur en tapar honum afar klaufalega, skref úti á miðjum velli undir engri pressu.7-3 (10. mín): Stefanía með fínt mark úr horninu úr nokkuð þröngu færi, Helena svo með hörkuskot í næstu sókn og aftur úr hraðaupphlaupi í sókninni á eftir. Stefán Arnarson, þjálfari Framara, hefur fengið nóg eftir fjögur mörk Garðbæinga í röð og tekur leikhlé. Framstelpur tapað boltanum nokkuð klaufalega í nokkrum sóknum, misheppnaðar sendingar og skot úr erfiðum stöðum.4-3 (8. mín): Elena Elísabet skorar af línunni eftir hraðaupphlaup. Vörnin hjá Stjörnunni tók skot frá Hildi Þorgeirs á hinum endanum.3-3 (6. mín): Hafdís og Guðrún verja hvort sitt skotið í markinu og svo kemur stórskyttan Ragnheiður með glæsilegt mark og jafnar metin fyrir Fram, hennar annað mark í röð. Vörnin hjá Fram farin að standa betur og Stjarnan ekki skorað úr þremur sóknum í röð.3-1 (4. mín): Stjörnustelpur eru baráttuglaðar í vörninni og Frömurum gengur illa að skapa sér færi. Hanna G. skorar aftur úr víti eftir að Stjarnan vann boltann í vörninni.2-1 (3. mín): Ragnheiður með línusendingu inn á Steinunni fyrirliða sem jafnar metin. Rakel Dögg svarar hinum megin með undirhandarskoti og kemur Stjörnunni yfir. Sigurbjörg svo með skot í stöngina. 1-0 (2. mín): Rakel Dögg neglir í slána úr fyrsta skoti Stjörnunnar og hinumegin skýtur Sigurbjörg yfir. Stjarnan sækir svo víti sem Hanna Guðrún skorar úr af öryggi.Fyrir leik: Töluvert betur mætt úr röðum Stjörnunnar en Framara í stúkuna í kvöld. En svo er spurning hvor sveitin lætur betur í sér heyra. Líklega á milli 200 og 300 manns í stúkunni núna. Búið að kynna bæði lið og þá getur ballið farið að byrja. Stjarnan byrjar með boltann.Fyrir leik: Framkonur ganga á undan til búningsklefa og Stjarnan tekur eina skotæfingu síðustu tvær mínútur fyrir klefann. Maður finnur spennuna í loftinu. Rakel Dögg kemur með leikboltann til dómaranna og slær á létta strengi.Fyrir leik: Tíu mínútur í leik og þá hljómar lag heimakvenna: „Við erum Stjörnumenn“ og yngri kynslóðin tekur undir í stúkunni. Líklega um hundrað manns komin í sæti sín þegar leikmenn búa sig undir að ganga til búningsherbergja og fara yfir plan dagsins í síðasta sinn.Fyrir leik: Þar sem uppáhaldslitur beggja félaga er blár þarf annað liðið að spila í varabúningum. Eins og hefðbundið er kemur það í hlut útiliðsins, Framarar, sem verða hvítir í kvöld. Já, var ég búinn að nefna hver er í aðalhlutverki á ritaraborðinu? Líklega ekki. Vilhjálmur Bjarnason, Garðbæingur, Útsvarsmeistari og alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í suðvesturkjördæmi.Fyrir leik: Ungir og efnilegir Stjörnukrakkar af báðum kynjum, klæddir í búning félagsins, eru að gera sig klára til að ganga inn á völlinn með HSÍ fána og Stjörnufána. Stór stund fyrir börnin sem verða mögulega leikmenn í úrslitaeinvígjum Íslandsmótsins eftir áratug eða svo.Fyrir leik: Það er boðið upp á rándýrt dómarapar í kvöld þar sem okkar bestu dómarar, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, eru með flauturnar. Það kæmi blaðamanni á óvart ef þeir byðu upp á nokkuð annað en úrvalsframmistöðu.Fyrir leik: Þorgerður Anna Atladóttir er að sjálfsögðu mætt á bekkinn í upphituninni hjá Stjörnustelpum en hún handleggsbrotnaði í apríl og hefur því ekkert tekið þátt í úrslitakeppninni og munar um minna. Meiðslasaga hennar er með ólíkindum, ein okkar allra besta handboltakona. Hún skartar að sjálfsögðu treyju númer 19 og heldur uppi stuðinu á bekknum.Fyrir leik: Það er óhætt að segja að um tvö stórveldi í kvennahandboltanum sé að ræða. Hvorugt liðið hefur þó landan þeim stóra í nokkurn tíma. Stjarnan varð síðast meistari árið 2009 eftir 3-0 sigur á Fram. Fram varð síðast Íslandsmeistari árið 2013 eftir oddaleik gegn Stjörnunni. Þá hafði stórveldið legið í dvala frá árinu 1990 þegar Kolbrún Jóhanns varði mark þeirra.Fyrir leik: Bæði lið eru á fullu í upphitun nú þegar 35 mínútur eru í leik. Flestir búnir að skokka og eru að teygja á vöðvunum. Fólk byrjað að tínast í stúkuna. Fram-konur eru búnar að bíða í tvær vikur eftir þessum leik en Stjörnustelpur fimm dögum skemur enda þurftu þær fimmta leik í undanúrslitunum gegn Gróttu.Fyrir leik: Framarar þurftu sömuleiðis að hafa fyrir sigrinum gegn Haukum þótt niðurstaðan hljómi þægilega, þrír sigrar í jafnmörgum leikjum. Síðasti leikurinn var tvíframlengdur og töldu Haukar sig illa svikna af dómgæslu í leiknum. Fram vann leikina þrjá samanlagt með fimm marka mun sem gefur vel til kynna hve jafnir leikirnir voru. Fyrir leik: Stjarnan fór hádramatíska leið í úrslitin með 3-2 sigri á Gróttu í fimm leikja seríu. Stjarnan vann reyndar fjóra leiki en Gróttu var dæmdur sigur í einum leiknum þar sem leikmaður Stjörnunnar var ekki skráð á leikskýrslu. Grótta kærði og vann leikinn. Fyrir leik: Stjarnan er deildar- og bikarmeistari en Fram mátti sætta sig við silfurverðlaun í báðum keppnum, með minnsta mun. Stjarnan varð deildarmeistari á markatölu og munaði aðeins einu marki á liðunum. Hið sama var uppi á teningnum þegar Stjarnan vann bikarinn eftir 19-18 sigur á Frömurum í Laugardalshöll.Fyrir leik: Velkomnir með okkur í Mýrina lesendur góðir þar sem styttist í stórleikinn hjá bláliðunum úr Garðabæ og Safamýrinni í Reykjavík. Stjarnan tekur á móti Fram í leik sem er hægt að bóka að verði spennandi sé miðað við viðureignir liðanna í vetur.
Olís-deild kvenna Mest lesið Rassinn út og Netflix í rugli er Paul lagði Tyson Sport Kom heim með skjalatösku fulla af seðlum frá Rússlandi Fótbolti Vildi ekki rota og meiða Tyson Sport Messi: Þú ert hugleysingi Fótbolti Árekstur í beinni er hitað var upp fyrir leik Íslands Fótbolti Reynslubolti skilin eftir heima: „Niðurbrotin“ Handbolti Steig á tána á Mike Tyson Sport Scott McTominay sér ekki eftir neinu Enski boltinn Infantino lét grafa nafnið sitt tvisvar á nýja bikarinn fyrir HM félagsliða Fótbolti Dagskráin í dag: Íslenska karlalandsliðið í eldlínunni í Svartfjallalandi Sport Fleiri fréttir Reynslubolti skilin eftir heima: „Niðurbrotin“ Lauflétt hjá Valsmönnum sem hoppuðu upp í þriðja sætið Kristján öflugur í sigri í Íslendingaslag Tólfti sigurinn í röð hjá Stiven og félögum Guðjón Valur framlengir við Gummersbach Elliði segir HM ekki í hættu Mosfellingar í vandræðum í Grafarvogi en redduðu sér í lokin Anna Karólína varði þrjú víti en það dugði ekki til Guðjón Valur án Íslendinga en áfram í bikarnum Uppgjörið: Grótta - Haukar 25-42 | Haukar kjöldrógu Gróttu FH-ingar í fínum gír án Arons „Enn sáttari með að allir leikmenn fari heilir inn í þetta jólafrí” Embla tryggði Stjörnunni sigur Rúnar frábær í sigri á gamla heimavelli sínum í Eyjum Íslendingalið í bikarúrslit í Noregi en aðeins eitt áfram í þýska bikarnum Uppgjör og viðtöl: Haukar - Fram 20-28 | Sannfærandi sigur Fram Einar Bragi öflugur í stórsigri Kristianstad Þórey Anna minnti á sig í 35. sigri Valskvenna í röð Er HSÍ í samstarfi við Adidas eða ekki? „Það er erfitt að færa þessar fregnir“ Nýja mamman „hefði þurft 1-2 mánuði í viðbót“ Sandra ekki í EM-hópnum en Rut fer með Svona var fundurinn er Arnar tilkynnti EM-hópinn Íslenski risinn sem gnæfir yfir Porto: „Myndi ekki vilja gera neitt annað“ Blaðamannafundur HSÍ blásinn af á elleftu stundu Viktor Gísli í úrvalsliði fyrstu tveggja umferða undankeppninnar Andrea öflug í sigri á Söndru og stöllum í Metzungen Dana klikkaði ekki á skoti en Volda tapaði stigi Annar sannfærandi sigur hjá lærisveinum Alfreðs Gísla Uppgjörið: Georgía - Ísland 25-30 | Íslenska liðið spýtti í lófana og gerði nóg í Georgíu Sjá meira