Fótbolti

Fríar sætaferðir frá Suðurlandi – verður Silfurskeiðin undir í baráttunni um stúkuna?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmunda Brynja Óladóttir, til hægri, er fyrirliði og markahæsti leikmaður Selfossliðsins.
Guðmunda Brynja Óladóttir, til hægri, er fyrirliði og markahæsti leikmaður Selfossliðsins. Vísir/Valli
Laugardagurinn 30. Ágúst 2014 er sögulegur dagur fyrir Selfyssingar því spilar kvennalið Selfoss sinn fyrsta bikarúrslitaleik þegar liðið mætir Íslandsmeisturum Stjörnunnar á Laugardalsvellinum.

Á heimasíðu Ungmennafélags Selfoss má finna frétt um leikinn en þar kemur fram að það ríkir mikil eftirvænting á öllu Suðurlandi fyrir leiknum. Knattspyrnudeild Selfoss hefur skipulagt mikla dagskrá í kringum leikinn og það verður stanslaus dagskrá á Hótel Selfossi frá hádegi á leikdegi.

Guðmundur Tyrfingsson býður einnig öllum Sunnlendingum fríar sætaferðir á leikinn og fara rútur frá öllum helstu þéttbýliskjörnum Suðurlands. Skráning í sætaferðirnar fer fram á netfanginu [email protected] og á skrifstofu Umf. Selfoss í síma 482-2477.

Selfoss komst í úrslitaleikinn eftir sigur á Fylki í vítakeppni í undanúrslitunum en þá fjölmenntu Selfyssingar í Árbæinn og settu mikinn svip á nýju stúkuna á Fylkisvelli. Sá stuðningur átti örugglega mikinn þátt í því Selfossstelpunum tókst að skrifa nýjan kafla í sögu félagsins.

Það má því búast við mörgum stuðningsmönnum Selfossliðsins í stúkunni og jafnvel spurning um hvort Silfurskeiðin, stuðningsmannasveit þeirra Stjörnumanna, verði jafnvel undir í baráttunni um stúkuna á morgun.

Úrslitaleikur Stjörnunnar og Selfoss hefst klukkan 16.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD sem og hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×