Körfubolti

Ein skærasta stjarna NBA tefldi við fólk úti á götu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Victor Wembanyama og allir sem tefldu við hann í Washington Square Park í New York.
Victor Wembanyama og allir sem tefldu við hann í Washington Square Park í New York.

Victor Wembanyama, leikmaður San Antonio Spurs í NBA-deildinni, átti stund milli stríða í dag og nýtti hana til að tefla við fólk úti á götu í New York.

Wembanyama skoraði nítján stig, tók sjö fráköst og varði sex skot þegar San Antonio sigraði Brooklyn Nets, 87-96, á útivelli í gær.

Leikmenn San Antonio áttu svo frí í dag. Wembanyama tók daginn snemma og auglýsti eftir fólki á X sem vildi tefla við hann úti á götu í New York. 

Eins og við mátti búast voru margir tilbúnir að tefla við Frakkann hávaxna í morgun. Engu breytti þótt það rigndi duglega.

Wembanyama og félagar mæta Minnesota Timberwolves aðra nótt, í síðasta leik sínum á árinu. San Antonio er í 9. sæti Vesturdeildarinnar með sextán sigra og fimmtán töp.

Wembanyama var valinn nýliði ársins á síðasta tímabili. Í vetur er hann með 25,2 stig, 10,1 frákast, 3,9 stoðsendingar og 4,0 varin skot að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×