Fótbolti

Víkingur má ekki spila í Kópa­vogi og leitar vallar er­lendis

Valur Páll Eiríksson skrifar
Víkingar munu spila heimaleikinn fjarri heimahögunum.
Víkingar munu spila heimaleikinn fjarri heimahögunum. Getty/Christian Kaspar-Bartke

Víkingur leitar erlendra leikvalla fyrir heimaleik liðsins við gríska liðið Panathinaikos í Sambandsdeild Evrópu í febrúar. Kópavogsvöllur uppfyllir ekki kröfur, frekar en aðrir vellir hérlendis.

Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, staðfestir tíðindin við Fótbolti.net en sögusagnir um málið hafa verið á sveimi síðustu daga. Þar á meðal greindi Albert Brynjar Ingason frá í viðtali við Vísi fyrir jól.

Leikurinn þarf að fara fram að kvöldi til og ljóst að birtuskilyrði eru ekki til staðar á Íslandi í febrúar. Lýsing á Kópavogsvelli uppfyllir ekki kröfur UEFA en Víkingar komust hjá því með því að spila heimaleiki sína snemma dags í skammdeginu í vetur. Leikur Víkings og Djurgården fyrr í þessum mánuði hófst til að mynda klukkan 13:00.

Haraldur sagði enn fremur við Fótbolti.net að Víkingar gætu ekki flutt leikinn til Færeyja þar sem samgöngur til eyjanna þykja ótraustar.

Aðrir kostir séu til skoðunar, þar á meðal Kaupmannahöfn, en því fylgja einnig flækjustig þar sem FC Kaupmannahöfn er í sömu keppni með sömu leikdaga. Leit Víkinga að velli mun því fara fram næstu daga.

Heimaleikur Víkings mun fara fram á erlendri grundu þann 13. febrúar. Síðari leikurinn fer fram í Grikklandi viku síðar.

Með Panathinaikos leika landsliðsmennirnir Sverrir Ingi Ingason og Hörður Björgvin Magnússon. Sá síðarnefndi hefur þó verið frá vegna meiðsla misserum saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×