Veður

Dregur úr vindi en á­fram vetrar­veður

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Suðurlandsvegi var lokað í dag vegna veðurs.
Suðurlandsvegi var lokað í dag vegna veðurs. vísir/vilhelm

Draga á úr vindi og élum í nótt víða á landinu, með slyddu og rigningu í fyrramálið. Enn verður hvasst við suðurströndina. Á næstu dögum er búist við því að kólni töluvert.

Þetta segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við fréttastofu. Um klassískt „desemberveður“ sé að ræða.

„Það er þurrt að mestu á Austurlandi og áfram verður suðvestanátt. En það mun heldur kólna í veðri um helgina og snúast í norðanátt. Hitinn er á niðurleið,“ segir Þorsteinn.

Vegir voru víða lokaðir í dag. Björgunarsveitir stóðuvaktina á lokunarpóstum, til að mynda beggja vegna Hellisheiði. Þá eru Öxnadals- og Holtavörðuheiði sömuleiðis lokaðar. 

Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi fram að miðnætti, og síðan verður gul viðvörun í gildi á morgun lengst af á suður- og suðvestanverðu landinu. Samkvæmt tilkynningu Vegagerðarinnar er áfram vetrarfærð á morgun þó að það dragi úr vindi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×