Veður

Lokað um Þrengsli og vegir víða á óvissu­stigi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Vegir eru víða lokaðir, ófærir eða á óvissustigi.
Vegir eru víða lokaðir, ófærir eða á óvissustigi. Vísir/Vilhelm

Gul viðvörun er í gildi á stórum hluta landsins og víða hvasst og hált.  Þrengsli eru lokuð og Krýsuvíkurvegur. Allt norðanvert Snæfellsnes er ófært og fjöldi vega á Vesturlandi á óvissustigi og verða það þar til klukkan 21 í kvöld.

Á Norðurlandi er hálka á flestum leiðum og vegir á óvissustigi sömuleiðis til klukkan 21 í kvöld. Ekki er búið að uppfæra fleiri landshluta á vef Vegagerðar en mælt er með að fylgjast með vef Vegagerðar eftir nýjustu upplýsingum um færð vega.

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að þegar þær eru skrifaðar, um klukkan 6, er enn stödd lægð um 600 kílómetrum vestur af Reykjanesi. Þessi lægð hafi í nótt sent megin skilakerfi sitt norðaustur yfir landið og að í skilunum hafi verið suðaustan stormur með slyddu og snjókomu. En fór svo í rigningu við suður- og vesturströndina þegar hlýnaði.

„Handan skilanna er hægari suðvestanátt með skúrum og hita 2 til 7 stig. Nú kl. 6 hefur vindur snúist til suðvestanáttar í Keflavík og mun snúast annars staðar eftir því sem líður á morguninn og skilin færast til norðausturs,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Þar kemur svo fram að lægðin færist norðaustur og nálgist þannig landið. Síðdegis í dag bætist því aftur í vind og að það megi búast við allhvössum vindi sunnantil og hvassviðri og stormi á bæði Norðurlandi og Vestfjörðum. Þá kólni smám saman og það sé útlit fyrir slydduél eða él á vesturhelmingi landsins.

Önnur lægð á leið yfir jólin

Í fyrramálið, á aðfangadag, eru svo samkvæmt hugleiðingunum horfur á sunnan kalda eða strekkingi. Slydda eða snjókoma verður viðloðandi, en þurrt veður á norðaustanverðu landinu. Þá segir að síðdegis á morgun geri spár ráð fyrir að önnur lægð dýpki fyrir vestan land. Þá herðir á vindinum og með fylgja él. Á aðfangadagskvöld er því útlit fyrir suðvestan storm með dimmum éljum á sunnan- og vestanverðu landinu. Á Norðaustur- og Austurlandi verður heldur hægari vindur og úrkomulaust. Þá frystir á öllu landinu.

„Einnig er vert að nefna að horfur eru á að óveðrið á aðfangadagskvöld verði langvarandi og haldist áfram með litlum breytingum á jólanótt og á jóladag. Af ofansögðu er ljóst að það er líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið. Í hvössum vindi og éljum eru akstursskilyrði erfið og færð getur auðveldlega spillst, sérílagi á tímum þegar snjómokstur er af skornum skammti,“ segir að lokum.

Nánar um veður á vef Veðurstofunnar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×