Handbolti

Læri­sveinar Rúnars með góðan sigur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rúnar stýrði sínum mönnum til sigrus í dag.
Rúnar stýrði sínum mönnum til sigrus í dag. Vísir/Getty

Viggó Kristjánsson og Andri Már Rúnarsson voru atkvæðamiklir þegar Íslendingaliðin Leipzig og Göppingen mættust í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag.

Fyrir umferðina var Leipzig í 10. sæti með 8 stig en Göppigen með tveimur stigum minna í 14. sæti. Viggó Kristjánsson og Andri Már Rúnarsson voru báðir í leikmannahópi Leipzig og þjálfarinn Rúnar Sigtryggsson að sjálfsögðu mættur á hliðarlínuna. Þá var Ýmir Örn Gíslason á sínum stað í liði Göppingen.

Leipzig byrjaði leikinn í dag betur og komst í 9-5 snemma leiks en gestirnir úr Göppingen náðu vopnum sínum og jöfnuðu metin í 11-11. Staðan í hálfleik var 15-14 heimamönnum í vil.

Leipzig var áfram skrefinu á undan í síðari hálfleiknum og munaði yfirleitt tveimur til fjórum mörkum á liðunum. Göppingen náði hins vegar að jafna metin í 23-23 og lokamínúturnar voru æsispennandi. Heimamenn komust í 26-24 þegar 90 sekúndur voru eftir en gestirnir minnkuðu muninn í næstu sókn.

Rúnar tók leikhlé þegar um hálf mínúta var eftir og á lokasekúndunum náðu heimamenn að skora markið sem innsiglaði sigurinn. Lokatölur 27-25 og heimamenn fögnuðu sigri.

Andri Már skoraði fimm mörk fyrir heimamenn í Leipzig og Viggó skoraði þrjú. Ýmir Örn skoraði tvö mörk fyrir Göppingen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×