Skoðun

Flug til fram­tíðar

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar

Fyrsta flug easyJet frá Manchester lenti á Akureyrarflugvelli í gær en flogið verður á þriðjudögum og laugardögum frá nóvember út mars. Samtals verða þetta því 40 flug í vetur með 186 sætum hvert og því má búast við 6-7 þúsund farþegum í þessu flugi. Flug frá London Gatwick hófst í síðustu viku og stendur það fram á vor með sömu tíðni og fjölda sæta. Ætla má að flug á þessa áfangastaði geti skilað um 40 þúsund gistinóttum á landinu og aukningu landframleiðslu um 700 milljónir króna. Flugið frá London Gatwick til Akureyrar síðastliðinn vetur gekk framar vonum. Nýting var góð, stöðugur vöxtur í komum erlendra ferðamanna og heimamenn nýttu flugið mjög vel í helgarferðir eða tengingar lengra út í heim. Aðstæður á flugvellinum voru erfiðar vegna þrengsla en starfsfólkið þar á hrós skilið fyrir að veita frábæra þjónustu. Lendingar gengu vel á Akureyrarflugvelli og þurfti easyJet aldrei að nota varaflugvellina. Það sýndi sig að í slæmu veðri þar sem innanlandsflug lá niðri var þrátt fyrir það hægt að fljúga út í heim án vandkvæða. Þannig gat ferðaþjónustan tekið á móti ferðafólki og sýnt Norðurland í fallegum vetrarbúningi.

Ávinningur af verkefni sem þessu er ekki aðeins fjárhagslegur heldur má mæla hann í auknum lífsgæðum. Norðlendingar hafa nú tækifæri til að nýta þessa öflugu tengingu út í heim, hvort sem er til ánægju eða viðskipta. Beint flug til Akureyrarflugvallar skapar möguleika á uppbyggingu heilsársferðaþjónustu á Norðurlandi þar sem ferðamenn geta komist á einfaldan og þægilegan hátt inn á svæðið og nýtt sér vetrarferðaþjónustu. Þannig verða til gistinætur á Norðurlandi og fyrirtækin eru þegar farin að byggja upp og þróa þjónustu til að sinna þessum gestum. Þessi verkefni eru síðan einn þáttur í að efla sjálfbæra uppbyggingu ferðaþjónustu þar sem áherslan er á dreifingu ferðamanna og möguleika minni svæða og samfélaga á að skapa atvinnu, nýja þjónustu og byggja upp innviði.

Að breyta íslenskri ferðaþjónustu með því að bæta við nýrri gátt inn í landið gerist ekki á einni nóttu og þarf öflugt samstarf fjölmargra að koma til enda er þetta stærsta hagsmunamál ferðaþjónustunnar á bæði Norðurlandi og Austurlandi. Með endurbættum flugvelli og góðri uppbyggingu í ferðaþjónustunni hafa skapast enn fleiri tækifæri sem mikilvægt er að nýta vel. Halda þarf áfram öflugri markaðssókn og samtali við flugfélög og ferðaskrifstofur. Þannig eigum við möguleika á að bæta enn frekar við fjölda þeirra áfangastaða sem nú eru í boði frá Akureyrarflugvelli og tryggja áframhaldandi vöxt í flugi beint til Norðurlands.

Höfundur er framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.




Skoðun

Sjá meira


×