Fótbolti

Emilía Kiær skoraði og Gló­dís Perla sá rautt í öruggum sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Emilía Kiær getur ekki hætt að skora.
Emilía Kiær getur ekki hætt að skora. Nordsjælland

Framherjinn Emilía Kiær Ásgeirsdóttir skoraði annað marka Nordsjælland í góðum sigri í efstu deild kvenna í Danmörku. Þá fékk Glódís Perla Viggósdóttir tvö gul spjöld og þar með rautt þegar Bayern München vann öruggan 4-0 sigur á Werder Bremen.

Emilía Kiær var á sínum stað í byrjunarliði Nordsjælland og skoraði annað mark liðsins á 67. mínútu. Var þetta hennar sjöunda deildarmark í jafn mörgum leikjum. Emilía Kiær var svo tekin af velli þegar tvær mínútur voru til loka venjulegs leiktíma.

Sigurinn lyftir Nordsjælland upp á topp deildarinnar með 17 stig, einu meira en Fortuna Hjörring þegar bæði lið hafa spilað sjö leiki.

Glódís Perla var á sínum stað í byrjunarliði Þýskalandsmeistara Bayern. Hún fékk gult spjald á 21. mínútu en skömmu síðar kom Lea Schüller gestunum frá Bayern yfir. Staðan 0-1 í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik fékk Glódís Perla sitt annað gula spjald og þar með rautt en það kom ekki að sök þar sem Bæjarar skoruðu þrjú mörk manni færri. Georgia Stanway tvöfaldaði forystu Bayern þegar tuttugu mínútur lifðu leiks.

Í blálokin skoruðu gestirnir tvö mörk á jafn mörgum mínútum. Pernille Harder skoraði þriðja mark Bayern og Jovana Damnjanović bætti því fjórða við, lokatölur 0-4.

Bayern er því áfram með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir og tveimur stigum meira en Bayer Leverkusen sem situr í 2. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×