Veður

Lægð yfir landinu og gul við­vörun á Breiða­firði

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það er ágætis hiti þrátt fyrir rigningu. Hiti verður líklega á bilinu 8 til 16 stig og verður hlýjast norðaustantil.
Það er ágætis hiti þrátt fyrir rigningu. Hiti verður líklega á bilinu 8 til 16 stig og verður hlýjast norðaustantil. Vísir/Vilhelm

Lægð stödd fyrir vestan okkur og úrkomusvæði frá henni fer yfir landið í dag með sunnan strekkingi. Í hugleiðingum veðurfræðings spáir mjög hvössum vindstrengjum á norðanverðu Snæfellsnesi og hefur verið gefin út gul viðvörun vegna þess. Viðvörunin er í gildi frá klukkan átta til 15 í dag. Hiti verður líklega á bilinu 8 til 16 stig og verður hlýjast norðaustantil.

Á morgun er önnur lægð í kortunum á svipuðum slóðum. Sú verður dýpri en lægðin í dag. Það þýðir að vindur verður víða allhvass eða hvass, sunnan- eða suðvestanátt. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það gæti jafnvel orðið stormur í vindstrengjum á norðanverðu landinu. Samhliða þessu megi búast við talsverðri rigningu fyrri part dags sunnan- og vestanlands.

Seinnipartinn á morgun dregur svo úr vætu og rofar til í norðausturfjórðungi landsins, þar eru horfur á að hiti nái 20 stigum í hnjúkaþey. Annað kvöld dregur síðan úr vindbelgingnum. Hiti verður á bilinu 10 til 20 stig, hlýjast á norðaustanverðu landinu. Dregur úr vindi um kvöldið.

Nánar um veðrið á vef Veðurstofu og færð á vef Vegagerðar. Á vef þeirra má sjá að greiðfært er um landið en víða framkvæmdir og malbikun. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Sunnan og síðar suðvestan 13-23 m/s, hvassast norðantil á landinu. Víða rigning fyrripart dags. Dálítil væta síðdegis, en léttir til norðaustan- og austanlands. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á norðaustanverðu landinu. Dregur úr vindi um kvöldið.

Á föstudag:

Suðvestan og sunnan 8-15 og lítilsháttar súld, en hægari vindur og léttskýjað austantil á landinu. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Austurlandi. Fer að rigna vestanlands um kvöldið.

Á laugardag:

Suðvestan 8-15 og víða bjart, en skýjað með köflum og smáskúrir á Suður- og Vesturlandi. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:

Norðlæg eða breytileg átt. Rigning með köflum á norðanverðu landinu, en stöku skúrir sunnantil. Kólnandi veður.

Á mánudag:

Norðanátt og lítilsháttar skúrir eða slydduél norðaustantil á landinu, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Hiti 2 til 10 stig að deginum, mildast syðst.

Á þriðjudag:

Vestlæg átt og víða léttskýjað. Hiti 5 til 10 stig yfir daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×