Skoðun

Fé­lags­leg sam­skipti eru for­senda góðrar heilsu

Karen Björg Jóhannsdóttir skrifar

Félagsleg einangrun spyr ekki um aldur, kyn né þjóðerni og það eitt að tilheyra hóp er ein af grunnþörfum manneskjunnar. Félagsleg þátttaka er ekki bara skemmtileg viðbót við líf okkar, heldur hreint út sagt nauðsynleg fyrir almenna vellíðan og góða heilsu.

Hæfni einstaklinga til þess að mynda og viðhalda félagslegum tengslum er þó mjög misjöfn. Í nútímasamfélagi hættir okkur líka til að flýta okkur um of og það bitnar oft á samskiptum og samböndum við vini, ættingja og kunningja, þó að í grunninn viljum við langflest vera til staðar fyrir þau sem á þurfa að halda.

Vinaverkefni Rauða krossins eru verkefni sem snúa að félagslegri þátttöku þeirra sem eftir því óska og rauði þráðurinn í okkar verkefnum er að draga úr félagslegri einangrun þeirra sem búa við hana. Þessi félagslega þátttaka getur verið af ýmsu tagi og því eru útfærslur Vinaverkefna Rauða krossins mjög fjölbreyttar, en þær taka mið af þörfum þeirra einstaklinga sem óska eftir aðstoðinni.

Í dag erum við með fjögur Vinaverkefni, en þau eru gönguvinir, heimsóknavinir, hundavinir og símavinir. Þau hafa öll notið mikilla vinsælda á undanförnum misserum. Aldurstakmarkið fyrir nýja sjálfboðaliða í Vinaverkefni Rauða krossins er 18 ár, en reyndar hafa verið gerðar einstaka undantekningar og það er gaman að segja frá því að yngsti starfandi sjálfboðaliði okkar er bara 14 ára gamall og fer í hópheimsóknir á vegum Vinaverkefna Rauða krossins ásamt sínum forsjáraðila.

Félagsleg einangrun getur meðal annars haft bein áhrif á sjálfsöryggi, heilsu, hamingju og velferð einstaklinga. Í slæmum tilfellum félagslegrar einangrunar má sjá lakari sjálfstjórn, þunglyndi sem og skort á sjálfstrausti. En ef við leiðum okkur áfram í samskiptum við aðra með ábyrgð, virðingu og viðurkenningu að leiðarljósi er leikur einn að ýta undir bjartsýni og valdeflingu hjá þeim einstaklingum sem á því þurfa að halda.

Með viðeigandi aðstoð til að rjúfa félagslega einangrun höfum við hjá Vinaverkefnum Rauða krossins séð viðhorf einstaklinga breytast og í beinu framhaldi af því sjáum við oft meiri virkni á sviðum sem kannski reyndust yfirþyrmandi áður fyrr. Jákvæðni, góð samskipti og virðing fyrir náunganum hafa nefnilega reynst afar vel fyrir félagslega heilsu, hvort sem það er í Vinaverkefnum Rauða krossins eða annars staðar. 

Verum dugleg að stunda góð samskipti, því góð samskipti eru forsenda þess að líða vel.

Höfundur er verkefnastjóri Vinaverkefna Rauða krossins hjá Rauða krossinum.


Vantar þig félagsskap? Viltu veita félagsskap og taka þátt í verkefnum hjá Rauða krossinum? Lumar þú á góðri hugmynd um hvernig við getum dregið úr félagslegri einangrun? Þá getur þú haft samband í síma 570-4000 eða sent okkur póst á : [email protected]

Við minnum líka á Hjálparsímann 1717 og netspjallið 1717.is.

Þeir sem vilja styrkja starf Rauða krossins geta líka gert það með því að gerast Mannvinir á heimasíðu félagsins, www.raudikrossinn.is.

Höfundur er verkefnastjóri Vinaverkefna Rauða krossins á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×