Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Haukar 84-68 | Njarðvík á góðu róli fyrir úrslitakeppnina Siggeir Ævarsson skrifar 22. mars 2023 23:50 vísir/Diego Njarðvík vann góðan sextán stiga sigur á Haukum þegar liðin mættust í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Haukar falla niður í þriðja sæti deildarinnar eftir tapið. Þetta er sjötti sigurleikur Njarðvíkur í röð sem er heldur betur að koma sér á gott ról fyrir úrslitakeppnina. Njarðvík hafði frumkvæðið allan leikinn í dag og náði mest þrjátíu og eins stigs forystu í leiknum. Það var þó nokkuð jafnræði með liðunum í upphafi leiks, staðan 18-17 eftir fyrsta leikhluta. Þó mátti mögulega sjá í hvað stefndi. Sóknarleikur Hauka virkaði bæði stirður og einhæfur, en mikið mæddi á Keiru Robinson, sem skoraði níu af 17 stigum liðsins í fyrsta leikhluta. Sóknarlega voru aðrir leikmenn Hauka einfaldlega langt frá sínu besta í kvöld, en þegar yfir lauk skoraði Keira rúmlega helming stiga liðsins, 35 af 68. Hún fiskaði líka 13 villur, en alls brutu Njarðvíkingar 18 sinnum af sér. Mikill fókus á Keiru í kvöld, sem hefði eflaust þegið meiri aðstoð frá samherjum sínum. Undir lok annars leikhluta skelltu heimakonur í létta skotsýningu, unnu leikhlutann með tíu stigum og fóru því inn í hálfleik með ellefu stiga forskot. Við þetta mótlæti virtust Haukakonur hreinlega missa trúna á verkefnið. Bjarni Magnússon þjálfari þeirra reyndi vissulega að stappa í þær stálinu í hálfleik en þriðji leikhlutinn var einfaldlega endurtekið efni. Sóknarleikur Njarðvíkinga var að flæða vel í kvöld og best lét var var munurinn kominn upp í 27 stig. Haukar svöruðu þá með 13-0 áhlaupi en það var of lítið, of seint. Lokaleikhlutinn í raun hálfgert formsatriði en þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka leyfði Rúnar Ingi þjálfari Njarðvíkur sér að setja tvo 15 ára leikmenn inn á. Þær Hulda María Agnarsdóttir og Sara Björk Logadóttir Gunnarssonar fengu þá sína eldskírn í efstu deild, við mikinn fögnuð áhorfenda. Lokatölur 84-68 en ef ekki hefði verið fyrir Keiru Robinson og hennar framlag á lokasprettinum, hefði sigurinn hæglega getað orðið miklu stærri. Af hverju vann Njarðvík? Þær gerðu allt rétt í kvöld. Vörnin var þétt sem gaf þeim oft ódýrar körfur hinumegin og þá var gott jafnvægi á körfum inni í teig og fyrir utan. Isabella var atkvæðamikil undir körfunni sem opnaði á skotin fyrir utan, en þriggjastiga nýting Njarðvíkur endaði í 41 prósenti. Raquel Laneiro var sjóðheit fyrir utan, setti fimm þrista í átta skotum. Hverjar stóðu upp úr? Keira Robinson var eins og áður sagði í algjörum sérflokki hjá Haukum. 35 stig, tíu fráköst og sex stoðsendingar. En hún tók líka ansi mörg skot og var aðeins með fjögur ofan í 15 tilraunum í tveggjastiga skotum. Hjá Njarðvík fóru fjórir leikmenn yfir tíu stig. Isabella Ósk Sigurðardóttir stigahæst með 19 stig og tólf fráköst. Einn af hennar betri leikjum í Njarðvíkurbúningnum. Raquel Laneiro var mjög ógnandi allan leikinn og endaði með tvöfalda tvennu, 17 stig og 10 stoðsendingar. Aliyah Collier var í strangri gæslu lungann úr leiknum en lét það þó ekki stoppa sig í að skila sömuleiðis tvöfaldri tvennu í hús, 17 stig frá henni og tíu fráköst. Hvað gekk illa? Haukum gekk illa að finna leikfæra leikmenn í kvöld. Sex leikmenn á bekknum í borgaralegum klæðum. Hvað gerist næst? Njarðvíkingar eiga sinn lokaleik í deildinni eftir viku þegar þær heimsækja Val á Hlíðarenda. Haukar falla niður í 3. sætið með þessum ósigri. Þær eiga þó séns á að taka 2. sætið aftur, ef þær vinna Breiðablik á sínum heimavelli þetta sama kvöld, ef Njarðvíkingar sækja sigur gegn Valskonum. Rúnar Ingi: Vinnusemi varnarlega er það sem skapar þennan sigur Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var sammála þeirri greiningu blaðamanns að þetta hefði verið nokkuð öruggur sigur eftir því sem leið á leikinn. Það hefði að vísu tekið smá tíma að setja síðustu naglana í kistulokið, en stöðugleiki í varnarleiknum hefði verið lykillinn að sigrinum. „Við gerðum hrikalega vel, varnarlega sérstaklega. Það var kafli í byrjun þriðja þar sem við vorum að ná stoppi eftir stoppi eftir stopp. Við vorum bara ekki að klára leikinn, það var held ég 15 stiga munur meðan við fáum þarna einhver fimm stopp í röð en náðum ekki að setja þetta upp í þessi 25-30 stig sem við síðan gerðum.“ „En við sýndum stöðugleika varnarlega og vorum að lesa leikinn alveg hrikalega vel. Vorum að taka þessar góðu ákvarðanir sem við erum búnar að vera undirbúa okkur að taka. Það er bara einbeiting, að vera tilbúnar að setja hjartað á gólfið og hjálpa félaganum. Vinnusemi varnarlega er það sem skapar þennan sigur.“ Rúnar Ingi beinir einhverjum vel völdum orðum að Aliyah CollierBára Dröfn Rúnar talaði um það fyrir leik að sigur væri í raun ekki það sem skipti mestu máli í kvöld. Leikurinn væri fyrst og fremst góð æfing fyrir hans lið fyrir úrslitakeppnina og til að prófa hluti og stilla saman strengi. En sigurinn hlýtur þó að vera ansi góður bónus, ekki síst í ljósi þess að Njarðvíkingar höfðu ekki náð sigri gegn Haukum áður í vetur? „Virkilega. Að við séum að finna takt hvernig við viljum spila okkar varnarleik og séum tilbúnar að hjálpa hver annarri og fá þessa vinnusemi. Stundum skiptir kannski ekki öllu máli að allar færslur séu réttar. Ef þú bara gerir þetta af nógu miklum krafti og ert tilbúin að leggja þig fram þá geturðu bjargað hlutunum. Mér fannst við gera rosalega vel í kvöld og stíga skref í að verða töluvert betra körfuboltalið.“ „Við getum ennþá gert aðeins betur sóknarlega. Við erum með frábæra skotmenn og erum sterkar inni í teig. Erum með leikmenn sem geta búið til fyrir sjálfan sig og samherja. Það sem ég er að leggja áherslu á þessa dagana er að nýta breiddina á vellinum og svæðið og fá þannig auðveldari körfur.“ Framan af leik voru það erlendu leikmenn Njarðvíkur sem báru hitann og þungann af sóknarleiknum, en eftir því sem leið á lögðu fleiri leikmenn í púkkið, ekki síst Isabella sem endaði stigahæst. Skiptir það ekki miklu máli fyrir liðið að fá þetta framlag frá öðrum leikmönnum en burðarásunum? „100%. Það er bara alltaf þannig að við vitum alveg að það er t.d. verið að setja mikla áherslu á að loka á Aliyuh Collier og það getur verið erfitt að opna fyrir Laneiro fyrir utan. Þetta hjálpar okkur að opna fyrir hinar. Þegar við verðum ennþá betri í að nýta þær á réttum tímapunkti til þess að það sé erfiðara að hjálpa á okkar bestu leikmenn þá erum við bara lið sem er erfitt að vinna.“ „Ég er búinn að vita það svo sem allan veturinn, en það tekur bara tíma að púsla þessu saman og það eru ennþá alveg nokkrir metrar eftir. Við sjáum hvort við náum að láta þetta allt ganga upp, við höfum ennþá einhverja tíu daga.“ Talandi um íslenska leikmenn. Það komu tvær stúlkur inn á í kvöld fæddar 2008. Það er ekki amalegt að eiga svona efnilega leikmenn uppi í erminni og geta leyft þeim að spila í alvöru leikjum? „Þessar tvær eru búnar að koma inn ásamt fleiri ungum stelpum í vetur í landsleikjahléum og jólafríi. Það hittist akkúrat þannig á að okkur vantaði leikmenn í vikunni og þessar tvær fengu kallið núna. Þær eru bara stríðsmenn. Sýndu það og sönnuðu að þær eru klárar í slaginn. Ég vona að Njarðvíkingar mæti og horfi björtu augum á framhaldið með svona frábæra fulltrúa úr yngri flokka starfinu á gólfinu.“ Subway-deild kvenna UMF Njarðvík Haukar
Njarðvík vann góðan sextán stiga sigur á Haukum þegar liðin mættust í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Haukar falla niður í þriðja sæti deildarinnar eftir tapið. Þetta er sjötti sigurleikur Njarðvíkur í röð sem er heldur betur að koma sér á gott ról fyrir úrslitakeppnina. Njarðvík hafði frumkvæðið allan leikinn í dag og náði mest þrjátíu og eins stigs forystu í leiknum. Það var þó nokkuð jafnræði með liðunum í upphafi leiks, staðan 18-17 eftir fyrsta leikhluta. Þó mátti mögulega sjá í hvað stefndi. Sóknarleikur Hauka virkaði bæði stirður og einhæfur, en mikið mæddi á Keiru Robinson, sem skoraði níu af 17 stigum liðsins í fyrsta leikhluta. Sóknarlega voru aðrir leikmenn Hauka einfaldlega langt frá sínu besta í kvöld, en þegar yfir lauk skoraði Keira rúmlega helming stiga liðsins, 35 af 68. Hún fiskaði líka 13 villur, en alls brutu Njarðvíkingar 18 sinnum af sér. Mikill fókus á Keiru í kvöld, sem hefði eflaust þegið meiri aðstoð frá samherjum sínum. Undir lok annars leikhluta skelltu heimakonur í létta skotsýningu, unnu leikhlutann með tíu stigum og fóru því inn í hálfleik með ellefu stiga forskot. Við þetta mótlæti virtust Haukakonur hreinlega missa trúna á verkefnið. Bjarni Magnússon þjálfari þeirra reyndi vissulega að stappa í þær stálinu í hálfleik en þriðji leikhlutinn var einfaldlega endurtekið efni. Sóknarleikur Njarðvíkinga var að flæða vel í kvöld og best lét var var munurinn kominn upp í 27 stig. Haukar svöruðu þá með 13-0 áhlaupi en það var of lítið, of seint. Lokaleikhlutinn í raun hálfgert formsatriði en þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka leyfði Rúnar Ingi þjálfari Njarðvíkur sér að setja tvo 15 ára leikmenn inn á. Þær Hulda María Agnarsdóttir og Sara Björk Logadóttir Gunnarssonar fengu þá sína eldskírn í efstu deild, við mikinn fögnuð áhorfenda. Lokatölur 84-68 en ef ekki hefði verið fyrir Keiru Robinson og hennar framlag á lokasprettinum, hefði sigurinn hæglega getað orðið miklu stærri. Af hverju vann Njarðvík? Þær gerðu allt rétt í kvöld. Vörnin var þétt sem gaf þeim oft ódýrar körfur hinumegin og þá var gott jafnvægi á körfum inni í teig og fyrir utan. Isabella var atkvæðamikil undir körfunni sem opnaði á skotin fyrir utan, en þriggjastiga nýting Njarðvíkur endaði í 41 prósenti. Raquel Laneiro var sjóðheit fyrir utan, setti fimm þrista í átta skotum. Hverjar stóðu upp úr? Keira Robinson var eins og áður sagði í algjörum sérflokki hjá Haukum. 35 stig, tíu fráköst og sex stoðsendingar. En hún tók líka ansi mörg skot og var aðeins með fjögur ofan í 15 tilraunum í tveggjastiga skotum. Hjá Njarðvík fóru fjórir leikmenn yfir tíu stig. Isabella Ósk Sigurðardóttir stigahæst með 19 stig og tólf fráköst. Einn af hennar betri leikjum í Njarðvíkurbúningnum. Raquel Laneiro var mjög ógnandi allan leikinn og endaði með tvöfalda tvennu, 17 stig og 10 stoðsendingar. Aliyah Collier var í strangri gæslu lungann úr leiknum en lét það þó ekki stoppa sig í að skila sömuleiðis tvöfaldri tvennu í hús, 17 stig frá henni og tíu fráköst. Hvað gekk illa? Haukum gekk illa að finna leikfæra leikmenn í kvöld. Sex leikmenn á bekknum í borgaralegum klæðum. Hvað gerist næst? Njarðvíkingar eiga sinn lokaleik í deildinni eftir viku þegar þær heimsækja Val á Hlíðarenda. Haukar falla niður í 3. sætið með þessum ósigri. Þær eiga þó séns á að taka 2. sætið aftur, ef þær vinna Breiðablik á sínum heimavelli þetta sama kvöld, ef Njarðvíkingar sækja sigur gegn Valskonum. Rúnar Ingi: Vinnusemi varnarlega er það sem skapar þennan sigur Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var sammála þeirri greiningu blaðamanns að þetta hefði verið nokkuð öruggur sigur eftir því sem leið á leikinn. Það hefði að vísu tekið smá tíma að setja síðustu naglana í kistulokið, en stöðugleiki í varnarleiknum hefði verið lykillinn að sigrinum. „Við gerðum hrikalega vel, varnarlega sérstaklega. Það var kafli í byrjun þriðja þar sem við vorum að ná stoppi eftir stoppi eftir stopp. Við vorum bara ekki að klára leikinn, það var held ég 15 stiga munur meðan við fáum þarna einhver fimm stopp í röð en náðum ekki að setja þetta upp í þessi 25-30 stig sem við síðan gerðum.“ „En við sýndum stöðugleika varnarlega og vorum að lesa leikinn alveg hrikalega vel. Vorum að taka þessar góðu ákvarðanir sem við erum búnar að vera undirbúa okkur að taka. Það er bara einbeiting, að vera tilbúnar að setja hjartað á gólfið og hjálpa félaganum. Vinnusemi varnarlega er það sem skapar þennan sigur.“ Rúnar Ingi beinir einhverjum vel völdum orðum að Aliyah CollierBára Dröfn Rúnar talaði um það fyrir leik að sigur væri í raun ekki það sem skipti mestu máli í kvöld. Leikurinn væri fyrst og fremst góð æfing fyrir hans lið fyrir úrslitakeppnina og til að prófa hluti og stilla saman strengi. En sigurinn hlýtur þó að vera ansi góður bónus, ekki síst í ljósi þess að Njarðvíkingar höfðu ekki náð sigri gegn Haukum áður í vetur? „Virkilega. Að við séum að finna takt hvernig við viljum spila okkar varnarleik og séum tilbúnar að hjálpa hver annarri og fá þessa vinnusemi. Stundum skiptir kannski ekki öllu máli að allar færslur séu réttar. Ef þú bara gerir þetta af nógu miklum krafti og ert tilbúin að leggja þig fram þá geturðu bjargað hlutunum. Mér fannst við gera rosalega vel í kvöld og stíga skref í að verða töluvert betra körfuboltalið.“ „Við getum ennþá gert aðeins betur sóknarlega. Við erum með frábæra skotmenn og erum sterkar inni í teig. Erum með leikmenn sem geta búið til fyrir sjálfan sig og samherja. Það sem ég er að leggja áherslu á þessa dagana er að nýta breiddina á vellinum og svæðið og fá þannig auðveldari körfur.“ Framan af leik voru það erlendu leikmenn Njarðvíkur sem báru hitann og þungann af sóknarleiknum, en eftir því sem leið á lögðu fleiri leikmenn í púkkið, ekki síst Isabella sem endaði stigahæst. Skiptir það ekki miklu máli fyrir liðið að fá þetta framlag frá öðrum leikmönnum en burðarásunum? „100%. Það er bara alltaf þannig að við vitum alveg að það er t.d. verið að setja mikla áherslu á að loka á Aliyuh Collier og það getur verið erfitt að opna fyrir Laneiro fyrir utan. Þetta hjálpar okkur að opna fyrir hinar. Þegar við verðum ennþá betri í að nýta þær á réttum tímapunkti til þess að það sé erfiðara að hjálpa á okkar bestu leikmenn þá erum við bara lið sem er erfitt að vinna.“ „Ég er búinn að vita það svo sem allan veturinn, en það tekur bara tíma að púsla þessu saman og það eru ennþá alveg nokkrir metrar eftir. Við sjáum hvort við náum að láta þetta allt ganga upp, við höfum ennþá einhverja tíu daga.“ Talandi um íslenska leikmenn. Það komu tvær stúlkur inn á í kvöld fæddar 2008. Það er ekki amalegt að eiga svona efnilega leikmenn uppi í erminni og geta leyft þeim að spila í alvöru leikjum? „Þessar tvær eru búnar að koma inn ásamt fleiri ungum stelpum í vetur í landsleikjahléum og jólafríi. Það hittist akkúrat þannig á að okkur vantaði leikmenn í vikunni og þessar tvær fengu kallið núna. Þær eru bara stríðsmenn. Sýndu það og sönnuðu að þær eru klárar í slaginn. Ég vona að Njarðvíkingar mæti og horfi björtu augum á framhaldið með svona frábæra fulltrúa úr yngri flokka starfinu á gólfinu.“