Bandið sem var næstum því Bítlarnir Oddur J. Jónasson skrifar 13. nóvember 2022 10:02 Meðlimir Klaatu. Frá Vinstri: John Woloschuk, Dee Long og Terry Draper. Um mitt ár 1966 luku Bítlarnir við upptökur á plötu sem fylgja átti eftir sjöundu breiðskífu hljómsveitarinnar, Revolver. En á einhvern óútskýranlegan hátt hurfu öll segulböndin úr upptökuverinu. Þetta var ekki eina áfallið sem dundi á Bítlunum þetta ár því skömmu síðar varð sveitin fyrir gríðarlegri blóðtöku þegar Paul McCartney lést í hræðilegu bílslysi. Í kjölfarið ákváðu eftirlifandi meðlimir sveitarinnar að gefa týndu tónsmíðarnar alfarið upp á bátinn og láta af öllu tónleikahaldi. Því næst fengu þeir Billy nokkurn Shears, verðlaunaðan tvífara Pauls til að fylla skarð hans í bandinu og hófu upptökur á nýrri plötu sem síðar átti eftir að verða áttunda breiðskífa sveitarinnar, hin margrómaða og byltingarkennda Sgt. Peppers Lonley Hearts Club Band. Sviplegt fráfall Pauls og mannabreytingarnar útskýrðu langt útgáfuhlé milli Revolver og Sgt. Peppers sem og augljóslega breyttar áherslur í tónlistarsköpun Bítlanna. Árið 1975, fimm árum eftir að Bítlarnir lögðu upp laupana, komu glötuðu segulböndin í leitirnar þegar unnið var að skráningu sögu hljómsveitarinnar undir nafninu The Long and Winding Road, (sem kom svo út sem Anthology-safnið 1995). Til að heiðra minningu Pauls heitins ákváðu Bítlarnir að gefa efnið út en undir þeim forsendum að hvergi yrði lagahöfunda getið auk þess sem engar ljósmyndir af bandinu skyldu prýða plötuumslagið. Þannig vildu þeir stuðla að því að platan seldist tónlistarinnar vegna en ekki sem hluti af einhvers konar endurteknu Bítlaæði… Allt í plati...? Bítlana frá Liverpool þarf ekki að kynna. Þá hljómsveit þekkir nánast hvert einasta mannsbarn. Og flestir svo vel að heyra/sjá að lesturinn hér á undan á sér enga stoð í raunveruleikanum. Flestir, ef ekki allir, eru sammála um að þrátt fyrir tiltölulega stuttan en þó mjög litríkan og á tíðum stormasaman feril séu áhrif sveitarinnar óumdeilanleg og sorgin var gríðarleg þegar meðlimir bandsins slitu formlega samstarfi sínu um og upp úr 1970. En nokkra mánuði árið 1977 (og jafnvel umtalsvert lengur) gengu þær sögusagnir eins og eldur í sinu að hljómsveitin goðsagnakennda hefði sent frá sér plötu undir dulnefni og stæði jafnvel í frekari útgáfu… En hvað kom þessum sögusögnum af stað…? Eins og fyrr sagði voru, (og eru), áhrif og orðspor Bítlanna slíkt að vangavelturnar um það sem „hefði getað orðið“ eru óhjákvæmilegar. Vinsældir sveitarinnar voru og eru fordæmalausar, fjórmenningarnir voru í guðatölu og allskyns sögusagnir gengu um þá, sögusagnir sem á þessum tíma gat reynst erfitt að sannreyna og sumar urðu lífseigari en aðrar. Einhverjar sögusagnir sáu Bítlarnir sig jafnvel knúna til að leiðrétta, t.d. kom Paul fram í viðtali til að staðfesta að hann væri enn sprelllifandi. Allir meðlimir sveitarinnar höfðu í kjölfar upplausnar hljómsveitarinnar hafið vel lukkaða sólóferla en að mati hörðustu aðdáenda bandsins þótti lítið af efninu standast samanburð við meistaraverk Bítlanna og flestir þessara aðdáenda áttu eflaust þá ósk heitasta að Bítlarnir gætu grafið stríðsaxirnar og tekið saman á ný. Dularfull breiðskífa Í september 1976 birtist breiðskífan 3:47 EST með hljómsveitinni Klaatu í rekkum plötubúða í Kanada og Norður Ameríku. Platan var gefin út af útgáfufyrirtækinu Capitol Records og þrátt fyrir að útgáfan væri látlaus og hin dularfyllsta, án ljósmynda og upplýsinga um lagahöfunda og meðlimi sveitarinnar, og þrátt fyrir að vera lítið sem ekkert fylgt eftir, fékk gripurinn jákvæðar undirtektir. En svo liðu vikurnar, salan dalaði og var orðin nær engin um jólaleitið sama ár. Plötuumslag plötunnar 3:47 EST með Klaatu. Einn af þeim sem hafði orðið sér úti um eintak af plötunni þetta haust var blaðamaðurinn Steve Smith. Smith starfaði á The Providence Journal á Rhode Island þar sem hann skrifaði íþróttafréttir en í honum hafði greinilega alltaf blundaði poppskríbent og þegar hann skellti vínylnum á fóninn á köldu vetrarkvöldi vakti það sem hljómaði úr græjunum undir eins athygli hans. Smith taldi sig heyra kunnuglega takta, upptökuaðferðir raddir, tónsmíðar… Gat þetta staðist? Varla sviku eyrun hann… Músíkin fangaði hug hans svo mjög að hann sá sig knúinn til að tjá sig í riti og skrifaði í geðshræringu pistil þar sem hann velti upp mjög svo róttækri hugmynd… Gæti virkilega verið að að baki þessarar dularfullu plötu stæði ekki ómerkari flokkur en sjálfir Bítlarnir, ein ástsælasta hljómsveit fyrr og síðar? Það var eitthvað element þarna í tónlistinni, það var tæplega um að villast, og Smith sannfærðist enn frekar við hverja hlustun og hvert slagið á ritvélina. Hljómsveitin Klaatu var pottþétt, að hluta til eða í heild sinni, hinir einu sönnu Bítlar. Smith lauk við pistilinn, skilaði inn til ritstjórnar sem samþykkti klausuna, pistillinn fór í prent og fljótlega upp úr því fór snjóboltinn að rúlla… Greinin sem Steve Smith skrifaði um Klaatu. Fiskisagan flýgur Ein af sögunum segir að einn af þeim sem hafi lesið pistilinn og ákveðið að kynna sér málið betur hafi verið útvarpsmaðurinn Charlie Parker hjá útvarpsstöðinni WDRC í Hartford. Eftir að hafa smellt plötunni dularfullu undir nálina settist hann við hljóðnemann og lýsti plötunni sem „undraverðri reynslu“. Einhverjir tónar af henni liðu út á öldur ljósvakans og Parker tók undir vangaveltur Smiths í beinni útsendingu. „Hverjir eru eiginlega Klaatu?“ „Getur sannarlega verið að Bítlarnir hafi snúið aftur?“ Reyndar segja aðrar sögur að þetta sé kolrangt og að téður Charlie hafi aldrei verið með útvarpsþátt né nokkurn tíma við útvarp kenndur en hvað sem því líður barst Capitol Records á sama tíma pöntun upp á 20 þúsund eintök til viðbótar af plötu Klaatu frá þessu landssvæði. Sífellt fleiri töldu sögusagnirnar sannar. Þetta hlutu að vera Bítlarnir. Annars hefði viðkomandi hljómsveit að sjálfsögðu smellt nöfnum og myndum á plötuumslagið. Og eftir því sem platan komst í fleiri hendur hófu sérfræðingar götunnar að rýna í boðskap og vísbendingar sem umslagið og útgáfan faldi og þar þótti sko af nægu að taka. Það væri að æra óstöðugan að telja allt til en til að nefna eitthvað voru það auðvitað augljósar vísbendingar eins og sú að platan var gefin út af Capitol Records sem sá einmitt um útgáfu á flestum plötum Bítlanna í Bandaríkjunum. Söngurinn í mörgum lögum þótti víst svipa mjög til raddanna fóstbræðranna Pauls McCartney og Johns Lennon. Öllu langsóttari var td. sú vísbending að platan hafi verið gefin út í samræmi við reglur CAPAC, samtök tónskálda, lagahöfunda og útgefenda í Kanada en orðrómur hafði verið á kreiki um hríð að John Lennon hygðist einmitt flytja til Totonto í Kanada á þessum tíma. Þá þótti það auðvitað í meira lagi undarlegt að hlutaðeigandi var hvergi getið, einungis að allar lagasmíðar, útsetningar, upptökustjórn og flutningur hafi verið í höndum Klaatu. Nafnið Klaatu var fengið úr kvikmyndinni „The Day the Earth Stood Still“ eða „Dagurinn sem jörðin stóð kyrr“. Í stórum dráttum fjallar hún um geimveru að nafni Klaatu sem kemur til jarðar ásamt vélmenninu sínu Gort og eftir allskyns ævintýri og bras skipar Klaatu Gort að lokum að hætta að skaða jarðabúa með setningunni fleygu „Klaatu barada niktu!“ Sá söguþráður hefði eflaust nægt fyrir þýðinguna „Tveir á toppnum“ eða „Á tæpasta vaði“ en það er önnur saga. Á umslagi plötu sinnar Good Night, Vienna sést bítillinn fyrrverandi Ringo Starr stíga út úr geimskipi þeirra kumpána úr myndinni og standa við hliðina á Gort. Að sjálfsögðu þótti það til merkis um að hljómsveitin Klaatu væri Bítlarnir komnir saman á ný. Plötuumslag Ringo Starr. Samsæriskenningasúpa Og samsæriskenningarnar undu upp á sig. Á plötunni var að finna lagið Mr. Manson. Þar var að sjálfsögðu verið að vísa í fjöldamorðingjann Charles Manson sem hafði eitt sinn haldið því fram að Bítlarnir væru sendiboðar guðs. Innan á tvöföldu plötuumslagi Sgt. Pepper´s var mynd af Bítlunum í litskrúðugum einkennisbúningum. Á vinstri ermi bláa jakkans síns skartaði Paul McCartney heitinn, eða þá líklega tvífarinn Billy Shears, ásaumuðu merki með skammstöfuninni O.P.D. Við nánari eftirgrennslan reynist skammstöfunin reyndar vera O.P.P en vísbendingaglaðir Bítlasamsæringar létu það ekki trufla sig og túlkuðu þessa skammstöfun sem „Officially Presumed Dead“ eða „Opinberlega talinn látinn“ Það þótti því renna enn styrkari stoðum undir Bítlakenninguna að í næstsíðasta lagi plötunnar, Sir Bodsworth Rugglesby III, mátti heyra textabrotið „Officially Presumed as Dead, But the words he left behind, still echoed through my mind.“ Auðvitað voru þarna eftirlifandi Bítlar að syngja um látinn fyrrum fóstbróður sinn. Í upphafslagi plötunnar má heyra bjöllur tísta og suða. Það er auðvitað gefið hvaða tilvísun það er. Þá má sjá sjö rótarskot alveg neðst á umslagi plötunnar, nafnið Beatles telur sjö stafi. Þetta liggur auðvitað allt kýrskýrt fyrir… Mynd af McCartney þar sem sést í O.P.P-merkið. Svona mætti lengi telja og hver vísbendingin langsóttari en önnur, sumar þeirra vísuðu meira að segja í sólóplötur Paul´s sem hver alvörubítlaaðdándi vissi samt mætavel að hefði legið undir grænni torfu í nokkur ár. En það var augljóst að þarna var kominn stór hópur af fólki sem augljóslega óskaði þess einskis heitar en að þarna væri ein ástsælasta hljómsveit allra tíma saman komin á ný undir dulnefni en hefði samt vandað mjög til verks við að koma vísbendingum til sinna allra heitustu aðdáenda um það hverjir væri í raun og veru þar á ferð. Gullið markaðstækifæri Hjá útgáfufyrirtækinu Capitol Records klóruðu menn sér í hausnum yfir þessum undarlega áhuga á allt að því óþekktu bandi frá Kanada. Þar á bæ þekktu menn sjálfir nánast ekkert til bandsins dularfulla en þegar útgáfunni barst til eyrna ástæða þessa óvænta áhuga voru spunameistararnir fljótir að hugsa. Þetta var auðvitað gullið tækifæri til að auka söluna og því var sú stefna tekin að spila með og ýta undir dulúðina. Tengslunum var hvorki játað né neitað og markaðsdeildinni var gert að taka fullan þátt í að finna eða spinna nýjar tengingar og vísbendingar og enn seldist platan í bílförmum. Það var auðvitað mönnum til happs að á meðan nýja Bítlaæðið stóð sem hæst þarna vestan hafs sátu hinir raunverulegu meðlimir hljómsveitarinnar Klaatu, þeir John Woloschuk, söngvari, bassaleikari, hljómborðsleikari og gítarleikari, Dee Long, söngvari, gítar- og hljómborðsleikari og Terry Draper, söngvari, trommari, gítar- hljómborðs- og básúnuleikari, innilokaði í hljóðveri á Englandi við upptökur á annarri breiðskífu sveitarinnar, Hope. Hvort það hafi verið meðvituð ákvörðun að halda þessu leyndu fyrir þeim fylgir ekki sögunni en sagt er að þeir hafi ekki fengið veður af fárinu fyrr en þeir sneru loks aftur til Kanada. Síðar hafa meðlimir Klaatu sagt að auðvitað hafi verið upphefð í því að vera taldir sjálfir Bítlarnir og fyrst um sinn hafi þeim verði skemmt. Þeir voru sjálfir miklir Bítlaaðdáendur og án þess að hafa ætlað að skapa svona mikinn styr um plöturnar sína hafi þeir vissulega daðrað aðeins við dulúðina. Að eigin sögn voru þeir hvort eð er bara þrír óþekktir gaurar frá Toronto. En svo tók við mikil barátta sveitarinnar fyrir tilverurétti sínum. Meðlimir sveitarinnar þvertóku fyrir nokkrar tengingar við hina miklu Bítla og réðu sér m.a.s. talsmann til að tala máli sínu í fjölmiðlum. Austan Atlantsála voru menn skeptískari á þessar tengingar en margir kokgleyptu samsæriskenninguna. Kjánahrollur Svo svæsinn, og fráleitur, þótti þessi orðrómur hjá bresku tónlistarelítunni að hið virta tónlistartímarit NME sá sig knúið til að birta um málið grein undir fyrirsögninni „Heyrnarsljór blaðamannsauli kemur Bítlaorðrómi af stað“. Þrátt fyrir þetta og stöðugar yfirlýsingar frá bandinu að „Klaatu væri Klaatu“ lifði orðrómurinn enn góðu lífi og platan hélt áfram að seljast eins og heitar lummur. Eldheitur ástralskur aðdáandi gerði sér td. lítið fyrir og skrifaði 34 síðna ritgerð þar sem hann, þvert ofan í staðhæfingar raunverulegra meðlima sveitarinnar, færði rök fyrir því að Klaatu væru Bítlarnir. Greinin um heyrnarsljóa blaðamanninn.New Musical Express Það fer litlum sögum af viðbrögðum sjálfra Bítlanna við þessu fári, enda allir uppteknir við að vera stórstjörnur, hver í sínu lagi, og það þarf auðvitað ekki að taka fram að þótt tveir þeirra séu nú horfnir yfir móðuna miklu er Sir Paul auðvitað enn sprelllifandi þegar þetta er skrifað og rokkar enn eins og enginn sé morgundagurinn. Mæjónesan gulnar En Klaatu-liðum þótti gamanið tekið að kárna, þrátt fyrir að vera bara þrír óþekktir gaurar frá Toronto voru þeir auðvitað alvöru músíkantar að reyna að koma eigin tónlist á framfæri undir eigin formerkjum. Þegar kom að útgáfu Hope ákváðu þeir því að læra af reynslunni, láta af allri dulúð og þrælmerkja sér og upptökuliði sínu allar lagasmíðar og stúdíóbauk í bak og fyrir. En lengi lifir í gömlum glæðum og þrátt fyrir þetta töldu menn sig enn geta lesið í vísbendingar á umslagi hennar að þar væru Bítlarnir enn á ferð. Þarna var auðvitað allra lagahöfunda getið en það þurfti ekki að þýða að þeir væru hinir raunverulegu flytjendur. Það sama var að segja um næstu þrjár plötur sveitarinnar, Sir Army Suit sem kom út 1978, Endangered Species frá 1980 og Magentalane frá 1981. Þrautreyndustu samsærisskjónum tókst alltaf á undraverðan, og yfirleitt afar langsóttan hátt, að finna vísbendingar um það að þarna væru Bítlarnir enn að músisera. Enn dúkkaði Billy Shears upp (sem Paul McCartney auðvitað) og þarna var jafnvel að finna tregasöng þá líklega tvímenninganna eftirlifandi frá Liverpool um fráfall Johns Lennons sem myrtur var í New York í desember 1980 illu heilli. Hljómsveitin Klaatu starfaði til ársins 1982 en lagði þá upp laupana í bili. Árið 1988 kom bandið saman og tók upp smáskífu. Til að hræra enn upp í samsærisgrautnum bar sú smáskífa nafnið Woman, eins og auðvitað lag Johns Lennons og þá átti nafnið víst einnig mjög langsótta tengingu við lagið Woman sem Paul McCartney átti að hafa samið og gefið öðrum flytjendum til afnota einhverjum áratugum fyrr… 2005 kom Klaatu einu sinni enn saman og tók nokkur lög í órafmagnaðri útgáfu í tilefni af safnplötu með efni sveitarinnar sem þá kom út… Þeir John, Dee og Terry eru af og til enn fengnir til að rifja upp Bítlafárið hið síðara og hafa nokkuð gaman af í dag. En sætta sig við það að þrátt fyrir þokkalegasta feril verður bandið þeirra sennilega alltaf þekkt sem bandið sem var næstum því Bítlarnir…. Ég hvet alla sem þetta lesa til að kynna sér þessa umræddu og margslungnu plötu, 3:47 EST, og leggja sjálfir dóm á hvort eitthvað sé til í bítlískum pælingum samsærisskúnkann. Tónlist Einu sinni var... Mest lesið Tengdadóttir forsætisráðherra í innsta koppi Loftssystkina Lífið Tengdó hringdi og vildi vita hvort Sunnu Dís hefði í alvöru liðið svona Lífið „Getur líka fengið Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki“ Lífið „Nýja heimsskipanin:“ Leynileg áætlun um heimsyfirráð í undirbúningi? Lífið Fáir sáu íslenskar bíómyndir sem fengu 350 milljónir króna í styrk Lífið Segir fjölskylduna flutta Lífið Bannað að hlæja: Stressið allsráðandi í upphafi kvöldsins Lífið Hafa bæði kvatt sín fyrrverandi og eru alsæl saman Lífið „Er ekki að fara fram á það lifa lífinu í bómull“ Lífið Skellti sér á djammið Lífið Fleiri fréttir HAM reið á vaðið í fiskabúri X-ins 977 Létu ævintýrið loksins rætast í fiskabúrinu á X-inu „Stórir hlutir að koma og fólk þarf að vera tilbúið“ Emilíana Torrini heillaði tónleikagesti upp úr skónum Laufey naut lífsins með Ariönu Grande Rétta harmonikkan er í harmonikkuverksmiðju í harmonikkuþorpi Iceland Airwaves ýtt úr vör á Grund Fagna tuttugu ára afmæli og troða upp á Grund Segja aðra kaupa gervispilanir til að hafa áhrif á veðmál Young Thug játar sök en losnar úr fangelsi „Enginn þekkir mig og ég þekki engan, sem mér finnst þægilegt“ Laufey fagnaði með Oliviu Rodrigo og Chappell Roan Tileinkar lagið Grindvíkingum „Það hefur aldrei verið neinn ótti“ „Hugleikið hver fær að stunda kynlíf og hver ekki“ „Þetta er saga af villigötum“ „Enginn að fara að hringja í mig að fyrra bragði“ Kemur frá Sýrlandi og syngur á íslensku Space Odyssey opnar á nýjum stað Dr. Gunni spyr hvort það sé ekki bara búið að vera gaman Afhjúpað á hvaða dögum böndin spila á Airwaves Sjá meira
Því næst fengu þeir Billy nokkurn Shears, verðlaunaðan tvífara Pauls til að fylla skarð hans í bandinu og hófu upptökur á nýrri plötu sem síðar átti eftir að verða áttunda breiðskífa sveitarinnar, hin margrómaða og byltingarkennda Sgt. Peppers Lonley Hearts Club Band. Sviplegt fráfall Pauls og mannabreytingarnar útskýrðu langt útgáfuhlé milli Revolver og Sgt. Peppers sem og augljóslega breyttar áherslur í tónlistarsköpun Bítlanna. Árið 1975, fimm árum eftir að Bítlarnir lögðu upp laupana, komu glötuðu segulböndin í leitirnar þegar unnið var að skráningu sögu hljómsveitarinnar undir nafninu The Long and Winding Road, (sem kom svo út sem Anthology-safnið 1995). Til að heiðra minningu Pauls heitins ákváðu Bítlarnir að gefa efnið út en undir þeim forsendum að hvergi yrði lagahöfunda getið auk þess sem engar ljósmyndir af bandinu skyldu prýða plötuumslagið. Þannig vildu þeir stuðla að því að platan seldist tónlistarinnar vegna en ekki sem hluti af einhvers konar endurteknu Bítlaæði… Allt í plati...? Bítlana frá Liverpool þarf ekki að kynna. Þá hljómsveit þekkir nánast hvert einasta mannsbarn. Og flestir svo vel að heyra/sjá að lesturinn hér á undan á sér enga stoð í raunveruleikanum. Flestir, ef ekki allir, eru sammála um að þrátt fyrir tiltölulega stuttan en þó mjög litríkan og á tíðum stormasaman feril séu áhrif sveitarinnar óumdeilanleg og sorgin var gríðarleg þegar meðlimir bandsins slitu formlega samstarfi sínu um og upp úr 1970. En nokkra mánuði árið 1977 (og jafnvel umtalsvert lengur) gengu þær sögusagnir eins og eldur í sinu að hljómsveitin goðsagnakennda hefði sent frá sér plötu undir dulnefni og stæði jafnvel í frekari útgáfu… En hvað kom þessum sögusögnum af stað…? Eins og fyrr sagði voru, (og eru), áhrif og orðspor Bítlanna slíkt að vangavelturnar um það sem „hefði getað orðið“ eru óhjákvæmilegar. Vinsældir sveitarinnar voru og eru fordæmalausar, fjórmenningarnir voru í guðatölu og allskyns sögusagnir gengu um þá, sögusagnir sem á þessum tíma gat reynst erfitt að sannreyna og sumar urðu lífseigari en aðrar. Einhverjar sögusagnir sáu Bítlarnir sig jafnvel knúna til að leiðrétta, t.d. kom Paul fram í viðtali til að staðfesta að hann væri enn sprelllifandi. Allir meðlimir sveitarinnar höfðu í kjölfar upplausnar hljómsveitarinnar hafið vel lukkaða sólóferla en að mati hörðustu aðdáenda bandsins þótti lítið af efninu standast samanburð við meistaraverk Bítlanna og flestir þessara aðdáenda áttu eflaust þá ósk heitasta að Bítlarnir gætu grafið stríðsaxirnar og tekið saman á ný. Dularfull breiðskífa Í september 1976 birtist breiðskífan 3:47 EST með hljómsveitinni Klaatu í rekkum plötubúða í Kanada og Norður Ameríku. Platan var gefin út af útgáfufyrirtækinu Capitol Records og þrátt fyrir að útgáfan væri látlaus og hin dularfyllsta, án ljósmynda og upplýsinga um lagahöfunda og meðlimi sveitarinnar, og þrátt fyrir að vera lítið sem ekkert fylgt eftir, fékk gripurinn jákvæðar undirtektir. En svo liðu vikurnar, salan dalaði og var orðin nær engin um jólaleitið sama ár. Plötuumslag plötunnar 3:47 EST með Klaatu. Einn af þeim sem hafði orðið sér úti um eintak af plötunni þetta haust var blaðamaðurinn Steve Smith. Smith starfaði á The Providence Journal á Rhode Island þar sem hann skrifaði íþróttafréttir en í honum hafði greinilega alltaf blundaði poppskríbent og þegar hann skellti vínylnum á fóninn á köldu vetrarkvöldi vakti það sem hljómaði úr græjunum undir eins athygli hans. Smith taldi sig heyra kunnuglega takta, upptökuaðferðir raddir, tónsmíðar… Gat þetta staðist? Varla sviku eyrun hann… Músíkin fangaði hug hans svo mjög að hann sá sig knúinn til að tjá sig í riti og skrifaði í geðshræringu pistil þar sem hann velti upp mjög svo róttækri hugmynd… Gæti virkilega verið að að baki þessarar dularfullu plötu stæði ekki ómerkari flokkur en sjálfir Bítlarnir, ein ástsælasta hljómsveit fyrr og síðar? Það var eitthvað element þarna í tónlistinni, það var tæplega um að villast, og Smith sannfærðist enn frekar við hverja hlustun og hvert slagið á ritvélina. Hljómsveitin Klaatu var pottþétt, að hluta til eða í heild sinni, hinir einu sönnu Bítlar. Smith lauk við pistilinn, skilaði inn til ritstjórnar sem samþykkti klausuna, pistillinn fór í prent og fljótlega upp úr því fór snjóboltinn að rúlla… Greinin sem Steve Smith skrifaði um Klaatu. Fiskisagan flýgur Ein af sögunum segir að einn af þeim sem hafi lesið pistilinn og ákveðið að kynna sér málið betur hafi verið útvarpsmaðurinn Charlie Parker hjá útvarpsstöðinni WDRC í Hartford. Eftir að hafa smellt plötunni dularfullu undir nálina settist hann við hljóðnemann og lýsti plötunni sem „undraverðri reynslu“. Einhverjir tónar af henni liðu út á öldur ljósvakans og Parker tók undir vangaveltur Smiths í beinni útsendingu. „Hverjir eru eiginlega Klaatu?“ „Getur sannarlega verið að Bítlarnir hafi snúið aftur?“ Reyndar segja aðrar sögur að þetta sé kolrangt og að téður Charlie hafi aldrei verið með útvarpsþátt né nokkurn tíma við útvarp kenndur en hvað sem því líður barst Capitol Records á sama tíma pöntun upp á 20 þúsund eintök til viðbótar af plötu Klaatu frá þessu landssvæði. Sífellt fleiri töldu sögusagnirnar sannar. Þetta hlutu að vera Bítlarnir. Annars hefði viðkomandi hljómsveit að sjálfsögðu smellt nöfnum og myndum á plötuumslagið. Og eftir því sem platan komst í fleiri hendur hófu sérfræðingar götunnar að rýna í boðskap og vísbendingar sem umslagið og útgáfan faldi og þar þótti sko af nægu að taka. Það væri að æra óstöðugan að telja allt til en til að nefna eitthvað voru það auðvitað augljósar vísbendingar eins og sú að platan var gefin út af Capitol Records sem sá einmitt um útgáfu á flestum plötum Bítlanna í Bandaríkjunum. Söngurinn í mörgum lögum þótti víst svipa mjög til raddanna fóstbræðranna Pauls McCartney og Johns Lennon. Öllu langsóttari var td. sú vísbending að platan hafi verið gefin út í samræmi við reglur CAPAC, samtök tónskálda, lagahöfunda og útgefenda í Kanada en orðrómur hafði verið á kreiki um hríð að John Lennon hygðist einmitt flytja til Totonto í Kanada á þessum tíma. Þá þótti það auðvitað í meira lagi undarlegt að hlutaðeigandi var hvergi getið, einungis að allar lagasmíðar, útsetningar, upptökustjórn og flutningur hafi verið í höndum Klaatu. Nafnið Klaatu var fengið úr kvikmyndinni „The Day the Earth Stood Still“ eða „Dagurinn sem jörðin stóð kyrr“. Í stórum dráttum fjallar hún um geimveru að nafni Klaatu sem kemur til jarðar ásamt vélmenninu sínu Gort og eftir allskyns ævintýri og bras skipar Klaatu Gort að lokum að hætta að skaða jarðabúa með setningunni fleygu „Klaatu barada niktu!“ Sá söguþráður hefði eflaust nægt fyrir þýðinguna „Tveir á toppnum“ eða „Á tæpasta vaði“ en það er önnur saga. Á umslagi plötu sinnar Good Night, Vienna sést bítillinn fyrrverandi Ringo Starr stíga út úr geimskipi þeirra kumpána úr myndinni og standa við hliðina á Gort. Að sjálfsögðu þótti það til merkis um að hljómsveitin Klaatu væri Bítlarnir komnir saman á ný. Plötuumslag Ringo Starr. Samsæriskenningasúpa Og samsæriskenningarnar undu upp á sig. Á plötunni var að finna lagið Mr. Manson. Þar var að sjálfsögðu verið að vísa í fjöldamorðingjann Charles Manson sem hafði eitt sinn haldið því fram að Bítlarnir væru sendiboðar guðs. Innan á tvöföldu plötuumslagi Sgt. Pepper´s var mynd af Bítlunum í litskrúðugum einkennisbúningum. Á vinstri ermi bláa jakkans síns skartaði Paul McCartney heitinn, eða þá líklega tvífarinn Billy Shears, ásaumuðu merki með skammstöfuninni O.P.D. Við nánari eftirgrennslan reynist skammstöfunin reyndar vera O.P.P en vísbendingaglaðir Bítlasamsæringar létu það ekki trufla sig og túlkuðu þessa skammstöfun sem „Officially Presumed Dead“ eða „Opinberlega talinn látinn“ Það þótti því renna enn styrkari stoðum undir Bítlakenninguna að í næstsíðasta lagi plötunnar, Sir Bodsworth Rugglesby III, mátti heyra textabrotið „Officially Presumed as Dead, But the words he left behind, still echoed through my mind.“ Auðvitað voru þarna eftirlifandi Bítlar að syngja um látinn fyrrum fóstbróður sinn. Í upphafslagi plötunnar má heyra bjöllur tísta og suða. Það er auðvitað gefið hvaða tilvísun það er. Þá má sjá sjö rótarskot alveg neðst á umslagi plötunnar, nafnið Beatles telur sjö stafi. Þetta liggur auðvitað allt kýrskýrt fyrir… Mynd af McCartney þar sem sést í O.P.P-merkið. Svona mætti lengi telja og hver vísbendingin langsóttari en önnur, sumar þeirra vísuðu meira að segja í sólóplötur Paul´s sem hver alvörubítlaaðdándi vissi samt mætavel að hefði legið undir grænni torfu í nokkur ár. En það var augljóst að þarna var kominn stór hópur af fólki sem augljóslega óskaði þess einskis heitar en að þarna væri ein ástsælasta hljómsveit allra tíma saman komin á ný undir dulnefni en hefði samt vandað mjög til verks við að koma vísbendingum til sinna allra heitustu aðdáenda um það hverjir væri í raun og veru þar á ferð. Gullið markaðstækifæri Hjá útgáfufyrirtækinu Capitol Records klóruðu menn sér í hausnum yfir þessum undarlega áhuga á allt að því óþekktu bandi frá Kanada. Þar á bæ þekktu menn sjálfir nánast ekkert til bandsins dularfulla en þegar útgáfunni barst til eyrna ástæða þessa óvænta áhuga voru spunameistararnir fljótir að hugsa. Þetta var auðvitað gullið tækifæri til að auka söluna og því var sú stefna tekin að spila með og ýta undir dulúðina. Tengslunum var hvorki játað né neitað og markaðsdeildinni var gert að taka fullan þátt í að finna eða spinna nýjar tengingar og vísbendingar og enn seldist platan í bílförmum. Það var auðvitað mönnum til happs að á meðan nýja Bítlaæðið stóð sem hæst þarna vestan hafs sátu hinir raunverulegu meðlimir hljómsveitarinnar Klaatu, þeir John Woloschuk, söngvari, bassaleikari, hljómborðsleikari og gítarleikari, Dee Long, söngvari, gítar- og hljómborðsleikari og Terry Draper, söngvari, trommari, gítar- hljómborðs- og básúnuleikari, innilokaði í hljóðveri á Englandi við upptökur á annarri breiðskífu sveitarinnar, Hope. Hvort það hafi verið meðvituð ákvörðun að halda þessu leyndu fyrir þeim fylgir ekki sögunni en sagt er að þeir hafi ekki fengið veður af fárinu fyrr en þeir sneru loks aftur til Kanada. Síðar hafa meðlimir Klaatu sagt að auðvitað hafi verið upphefð í því að vera taldir sjálfir Bítlarnir og fyrst um sinn hafi þeim verði skemmt. Þeir voru sjálfir miklir Bítlaaðdáendur og án þess að hafa ætlað að skapa svona mikinn styr um plöturnar sína hafi þeir vissulega daðrað aðeins við dulúðina. Að eigin sögn voru þeir hvort eð er bara þrír óþekktir gaurar frá Toronto. En svo tók við mikil barátta sveitarinnar fyrir tilverurétti sínum. Meðlimir sveitarinnar þvertóku fyrir nokkrar tengingar við hina miklu Bítla og réðu sér m.a.s. talsmann til að tala máli sínu í fjölmiðlum. Austan Atlantsála voru menn skeptískari á þessar tengingar en margir kokgleyptu samsæriskenninguna. Kjánahrollur Svo svæsinn, og fráleitur, þótti þessi orðrómur hjá bresku tónlistarelítunni að hið virta tónlistartímarit NME sá sig knúið til að birta um málið grein undir fyrirsögninni „Heyrnarsljór blaðamannsauli kemur Bítlaorðrómi af stað“. Þrátt fyrir þetta og stöðugar yfirlýsingar frá bandinu að „Klaatu væri Klaatu“ lifði orðrómurinn enn góðu lífi og platan hélt áfram að seljast eins og heitar lummur. Eldheitur ástralskur aðdáandi gerði sér td. lítið fyrir og skrifaði 34 síðna ritgerð þar sem hann, þvert ofan í staðhæfingar raunverulegra meðlima sveitarinnar, færði rök fyrir því að Klaatu væru Bítlarnir. Greinin um heyrnarsljóa blaðamanninn.New Musical Express Það fer litlum sögum af viðbrögðum sjálfra Bítlanna við þessu fári, enda allir uppteknir við að vera stórstjörnur, hver í sínu lagi, og það þarf auðvitað ekki að taka fram að þótt tveir þeirra séu nú horfnir yfir móðuna miklu er Sir Paul auðvitað enn sprelllifandi þegar þetta er skrifað og rokkar enn eins og enginn sé morgundagurinn. Mæjónesan gulnar En Klaatu-liðum þótti gamanið tekið að kárna, þrátt fyrir að vera bara þrír óþekktir gaurar frá Toronto voru þeir auðvitað alvöru músíkantar að reyna að koma eigin tónlist á framfæri undir eigin formerkjum. Þegar kom að útgáfu Hope ákváðu þeir því að læra af reynslunni, láta af allri dulúð og þrælmerkja sér og upptökuliði sínu allar lagasmíðar og stúdíóbauk í bak og fyrir. En lengi lifir í gömlum glæðum og þrátt fyrir þetta töldu menn sig enn geta lesið í vísbendingar á umslagi hennar að þar væru Bítlarnir enn á ferð. Þarna var auðvitað allra lagahöfunda getið en það þurfti ekki að þýða að þeir væru hinir raunverulegu flytjendur. Það sama var að segja um næstu þrjár plötur sveitarinnar, Sir Army Suit sem kom út 1978, Endangered Species frá 1980 og Magentalane frá 1981. Þrautreyndustu samsærisskjónum tókst alltaf á undraverðan, og yfirleitt afar langsóttan hátt, að finna vísbendingar um það að þarna væru Bítlarnir enn að músisera. Enn dúkkaði Billy Shears upp (sem Paul McCartney auðvitað) og þarna var jafnvel að finna tregasöng þá líklega tvímenninganna eftirlifandi frá Liverpool um fráfall Johns Lennons sem myrtur var í New York í desember 1980 illu heilli. Hljómsveitin Klaatu starfaði til ársins 1982 en lagði þá upp laupana í bili. Árið 1988 kom bandið saman og tók upp smáskífu. Til að hræra enn upp í samsærisgrautnum bar sú smáskífa nafnið Woman, eins og auðvitað lag Johns Lennons og þá átti nafnið víst einnig mjög langsótta tengingu við lagið Woman sem Paul McCartney átti að hafa samið og gefið öðrum flytjendum til afnota einhverjum áratugum fyrr… 2005 kom Klaatu einu sinni enn saman og tók nokkur lög í órafmagnaðri útgáfu í tilefni af safnplötu með efni sveitarinnar sem þá kom út… Þeir John, Dee og Terry eru af og til enn fengnir til að rifja upp Bítlafárið hið síðara og hafa nokkuð gaman af í dag. En sætta sig við það að þrátt fyrir þokkalegasta feril verður bandið þeirra sennilega alltaf þekkt sem bandið sem var næstum því Bítlarnir…. Ég hvet alla sem þetta lesa til að kynna sér þessa umræddu og margslungnu plötu, 3:47 EST, og leggja sjálfir dóm á hvort eitthvað sé til í bítlískum pælingum samsærisskúnkann.
Tónlist Einu sinni var... Mest lesið Tengdadóttir forsætisráðherra í innsta koppi Loftssystkina Lífið Tengdó hringdi og vildi vita hvort Sunnu Dís hefði í alvöru liðið svona Lífið „Getur líka fengið Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki“ Lífið „Nýja heimsskipanin:“ Leynileg áætlun um heimsyfirráð í undirbúningi? Lífið Fáir sáu íslenskar bíómyndir sem fengu 350 milljónir króna í styrk Lífið Segir fjölskylduna flutta Lífið Bannað að hlæja: Stressið allsráðandi í upphafi kvöldsins Lífið Hafa bæði kvatt sín fyrrverandi og eru alsæl saman Lífið „Er ekki að fara fram á það lifa lífinu í bómull“ Lífið Skellti sér á djammið Lífið Fleiri fréttir HAM reið á vaðið í fiskabúri X-ins 977 Létu ævintýrið loksins rætast í fiskabúrinu á X-inu „Stórir hlutir að koma og fólk þarf að vera tilbúið“ Emilíana Torrini heillaði tónleikagesti upp úr skónum Laufey naut lífsins með Ariönu Grande Rétta harmonikkan er í harmonikkuverksmiðju í harmonikkuþorpi Iceland Airwaves ýtt úr vör á Grund Fagna tuttugu ára afmæli og troða upp á Grund Segja aðra kaupa gervispilanir til að hafa áhrif á veðmál Young Thug játar sök en losnar úr fangelsi „Enginn þekkir mig og ég þekki engan, sem mér finnst þægilegt“ Laufey fagnaði með Oliviu Rodrigo og Chappell Roan Tileinkar lagið Grindvíkingum „Það hefur aldrei verið neinn ótti“ „Hugleikið hver fær að stunda kynlíf og hver ekki“ „Þetta er saga af villigötum“ „Enginn að fara að hringja í mig að fyrra bragði“ Kemur frá Sýrlandi og syngur á íslensku Space Odyssey opnar á nýjum stað Dr. Gunni spyr hvort það sé ekki bara búið að vera gaman Afhjúpað á hvaða dögum böndin spila á Airwaves Sjá meira