Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Njarðvík 87-82 | Grindvíkingar fyrstir að leggja Njarðvíkinga Smári Jökull Jónsson skrifar 25. október 2021 22:15 Ólafur Ólafsson átti góðan leik fyrir Grindavík gegn Njarðvík. vísir/bára Grindavík vann góðan 87-82 sigur á Njarðvíkingum í 4. umferð Subway deildarinnar í kvöld. Leikurinn var frábær skemmtun og liðin skiptust á að hafa forystuna allan leikinn. Tapið er það fyrsta hjá Njarðvík á tímabilinu. Leikurinn var frábær skemmtun frá fyrstu mínútu. Það var stemmning á pöllunum og vel mætt hjá stuðningsmönnum beggja liða. Njarðvíkingar byrjuðu betur og komust mest 9 stigum yfir í fyrsta leikhluta en það var mesti munurinn á milli liðanna í kvöld sem skiptust alls tuttugu sinnum á forystu í leiknum. Grindvíkingar voru þó fljótir að koma sér inn í leikinn og með Ivan Aurrecoechea í fararbroddi minnkuðu þeir muninn jafnt og þétt. Staðan eftir fyrsta leikhluta 22-21 Njarðvík í vil. Njarðvíkingar voru í vandræðum eftir að Fotios Lamprapoulos fékk sína þriðju villu strax í fyrsta leikhluta en hann var sá sem átti að berjast við Aurrecoechea undir körfunni. Þá var Logi Gunnarsson ekki með en hann meiddist í síðasta leik gegn Val. Sama barátta hélt áfram í öðrum leikhluta. Grindavík náði átta stiga forystu og virtust ætla að stíga enn frekar á bensíngjöfina en Njarðvíkingar svöruðu að bragði. Staðan í hálfleik 44-43 fyrir gestina og báðir þjálfarar búnir að fá tæknivillu fyrir kjaftbrúk. Ákefðin var sú sama eftir hlé. Liðin skiptust á að vera með forystuna en Ólafur Ólafsson var magnaður í þriðja leikhluta og setti niður fjögur þriggja stiga skot á stuttum tíma. Í fjórða leikhlutanum var svo allt í járnum. Það var lítið skorað í upphafi leikhlutans en þegar ísinn var brotinn skiptust liðin oftast nær á eins stigs forystu. Ivan Aurrecoechea jafnaði í 81-81 þegar tæp mínúta var eftir. Njarðvík tókst ekki að skora hinu megin og Aurrecoechea fór aftur á línuna þegar 24 sekúndur voru eftir. Hann skoraði úr fyrra skotinu en klikkaði á því síðara. Þá hirti Ólafur hins vegar gríðarlega mikilvægt sóknarfrákast og neyddi Njarðvík til að brjóta. Eftir það voru Grindvíkingar með yfirhöndina. Gestirnir fengu tvisvar tækifæri til að jafna, fyrst Maciej Baginski af vítalínunni og síðan aftur í næstu sókn á eftir en þá steig Dedrik Basile útaf vellinum þegar hann var í leit að þriggja stiga skoti. Kristinn Pálsson kláraði leikinn af vítalínunni og heimamenn fögnuðu sætum sigri. Af hverju vann Grindavík? Það var ekki mikið sem skildi að í kvöld. Bæði lið börðust af fullum krafti allan tímann og tilfinningin var sú að um væri að ræða leik í úrslitakeppni en ekki í 4.umferð deildakeppninnar. Flugeldasýning Ólafs í þriðja leikhlutanum gaf Grindvíkingum mikið og það hjálpaði ekki Njarðvíkingum að Lampropoulos lenti snemma í villuvandræðum. Heimamenn gerðu hins vegar afar vel. Þeir héldu ákefðinni og baráttunni allan tímann og náðu stoppum í vörninni á mikilvægum augnablikum. Hverjir stóðu upp úr? Ivan Aurrecoechea var, líkt og áður, afskaplega flottur hjá Grindavík í kvöld. Hann var kominn með 25 framlagspunkta eftir fyrri hálfleikinn og endaði leikinn með 24 stig og 17 fráköst. Áðurnefnd þriggja stiga sýning Ólafs var mögnuð og hann leiddi sitt lið áfram eins og sönnum fyrirliða sæmi, var framlagshæstur Grindvíkinga og sýndi frábæra takta í vörninni. Hjá Njarðvík voru margir að leggja í púkkið en það vantaði að klára síðustu sóknirnar. Veigar Páll Alexandersson var mjög góður í fyrri hálfleik þegar hann skoraði 12 stig og þá var Nicolas Richotti traustur og var stigahæstur Njarðvíkinga í kvöld. Hvað gekk illa? Gæðin í leiknum voru mikil miðað við hversu lítið er búið af tímabilinu. Hvorugt liðið var þó að hitta sérstaklega vel og voru bæði undir 40% nýtingu utan af velli. Njarðvík tapaði 13 boltum, fimm fleiri en heimamenn, og það er blóðugt fyrir gestina. Dedrick Basile og Kristinn Pálsson, lykilleikmenn sinna liða, hittu illa en stigu báðir upp undir lokin og settu mikilvæg stig. Hvað gerist næst? Grindavík fer á Sauðárkrók á fimmtudag og mætir taplausu liði Tindastóls. Afar áhugaverð viðureign þar. Njarðvík heldur í Vesturbæinn á föstudagskvöldið þar sem KR-ingar bíða. Daníel Guðni: Sigur sem þýðir mikið fyrir okkur Daníel Guðni var virkilega sáttur með sigurinn í kvöld.Vísir / Bára „Þetta eru bestu 40 mínúturnar sem við höfum sýnt í þessum fyrstu fjórum umferðum og klárlega eitthvað til að byggja ofan á. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er langt tímabil, stutt á milli leikja og hver leikur í deildinni erfiður,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Grindavíkur eftir sigurinn á Njarðvík í kvöld. „Þó við höfum unnið Njarðvík hér í kvöld þá löbbum við ekkert í gegnum næsta leik gegn Tindastóli. Þeir eru hörkulið og líta mjög vel út. Þetta var fín frammistaða en við þurfum að halda áfram að bæta okkur.“ Grindavík hefur ekki unnið marga leiki síðustu tímabil gegn liðum sem flestir telja að verði meðal toppliða deildarinnar. Hversu mikilvægur var þessi sigur í því ljósi? „Það er mjög mikilvægt að við höfum trú á þessu verkefni og ég er virkilega ánægður með frammistöðuna. Þeir trúðu alveg fyrir leik að þeir gætu sigrað, við erum að keppa og með gott lið. Það hefur verið mikið talað um Njarðvík enda eru þeir með flottan hóp og sterkt lið en það á að vera erfitt að koma hingað og taka sigur. Við vorum að verja þetta vel og ég er ánægður með það.“ Stemmningin í HS Orku-höllinni í kvöld var til fyrirmyndar og vel mætt hjá stuðningsmönnum liðanna. „Það er svo langt síðan að ég hef verið í svona spennu að ég var orðinn full spenntur á hliðarlínunni, sérstaklega í fyrri hálfleik, og leið fyrir það. Ég tók ábyrgð á orðum mínum og baðst afsökunar á því, ég var æstur eins og gengur og gerist,“ sagði Daníel en hann fékk tæknivillu í fyrri hálfleiknum. „Það var mikið undir því þessi sigur þýðir mikið fyrir okkur. Þetta var mjög mikilvægt,“ sagði Daníel að lokum. Benedikt: Fengum flugeldasýningu frá Óla Óla Benedikt hefur farið vel af stað með Njarðvíkurliðið en horfði upp á sína menn tapa í kvöld.Vísir / Hulda Margrét „Klárlega ekki okkar besta frammistaða en ýmislegt jákvætt. Ég er ekki að detta í þunglyndi þó við höfum tapað þessum leik, þetta var 50/50 leikur á erfiðum útivelli gegn góðu liði,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur eftir tapið gegn Grindavík í Subway-deildinni í kvöld. „Það er erfitt að vinna á útivelli í þessari deild, þú þarft að hitta á toppleik og við náðum því ekki núna. Við fengum flugeldasýningu frá Óla Óla sem skipti algjörlega sköpum,“ en áðurnefndur Ólafur skoraði sjö þriggja stiga körfur í kvöld. Fotios Lampropoulos fékk þrjár villur í fyrsta leikhluta hjá Njarðvík og það gerði baráttuna undir körfunni gegn hinum geysiöfluga Ivan Aurrecoechea enn erfiðari. „Við erum búnir að vera alveg að sársaukamörkum varðandi meiðsli og það var vont að missa Loga Gunnarsson. Það síðasta sem við máttum við núna var að missa mann í villuvandræði og hvað þá Fotios. Ef einhver hefði átt að lenda í því þá mátti það ekki vera hann. Það gerðist og við vorum ekki sammála því.“ „Mér fannst við ná að halda okkur inni í leiknum á meðan. Síðan snerist þetta um hver ætlaði að setja stóra skotið í lokin og það kom frá þeim.“ Ákefðin var mikil hjá leikmönnum og þjálfurum í kvöld. Benedikt og Daníel Guðni Guðmundsson kollegi hans hinu megin fengu báðir tæknivillur og það var vel mætt í stúkuna þar sem stemmningin var frábær. „Ég er búinn að vera lengi í þessu og leikirnir í dag eru flestir eins og úrslitakeppnin var fyrir nokkrum árum. Áður fyrr var talað um að toppa í úrslitakeppninni og menn kannski ekki beint að spara sig, en mögulega ekki að setja allt sem þeir áttu svona snemma á tímabilinu.“ „Núna þarftu bara að gera það frá byrjun til þess að vera með í úrslitakeppninni því það eru alltaf einhver góð lið sem sitja eftir. Þess vegna eru leikirnir eins og þetta sé úrslitakeppni alltaf,“ sagði Benedikt að lokum. Subway-deild karla UMF Njarðvík UMF Grindavík
Grindavík vann góðan 87-82 sigur á Njarðvíkingum í 4. umferð Subway deildarinnar í kvöld. Leikurinn var frábær skemmtun og liðin skiptust á að hafa forystuna allan leikinn. Tapið er það fyrsta hjá Njarðvík á tímabilinu. Leikurinn var frábær skemmtun frá fyrstu mínútu. Það var stemmning á pöllunum og vel mætt hjá stuðningsmönnum beggja liða. Njarðvíkingar byrjuðu betur og komust mest 9 stigum yfir í fyrsta leikhluta en það var mesti munurinn á milli liðanna í kvöld sem skiptust alls tuttugu sinnum á forystu í leiknum. Grindvíkingar voru þó fljótir að koma sér inn í leikinn og með Ivan Aurrecoechea í fararbroddi minnkuðu þeir muninn jafnt og þétt. Staðan eftir fyrsta leikhluta 22-21 Njarðvík í vil. Njarðvíkingar voru í vandræðum eftir að Fotios Lamprapoulos fékk sína þriðju villu strax í fyrsta leikhluta en hann var sá sem átti að berjast við Aurrecoechea undir körfunni. Þá var Logi Gunnarsson ekki með en hann meiddist í síðasta leik gegn Val. Sama barátta hélt áfram í öðrum leikhluta. Grindavík náði átta stiga forystu og virtust ætla að stíga enn frekar á bensíngjöfina en Njarðvíkingar svöruðu að bragði. Staðan í hálfleik 44-43 fyrir gestina og báðir þjálfarar búnir að fá tæknivillu fyrir kjaftbrúk. Ákefðin var sú sama eftir hlé. Liðin skiptust á að vera með forystuna en Ólafur Ólafsson var magnaður í þriðja leikhluta og setti niður fjögur þriggja stiga skot á stuttum tíma. Í fjórða leikhlutanum var svo allt í járnum. Það var lítið skorað í upphafi leikhlutans en þegar ísinn var brotinn skiptust liðin oftast nær á eins stigs forystu. Ivan Aurrecoechea jafnaði í 81-81 þegar tæp mínúta var eftir. Njarðvík tókst ekki að skora hinu megin og Aurrecoechea fór aftur á línuna þegar 24 sekúndur voru eftir. Hann skoraði úr fyrra skotinu en klikkaði á því síðara. Þá hirti Ólafur hins vegar gríðarlega mikilvægt sóknarfrákast og neyddi Njarðvík til að brjóta. Eftir það voru Grindvíkingar með yfirhöndina. Gestirnir fengu tvisvar tækifæri til að jafna, fyrst Maciej Baginski af vítalínunni og síðan aftur í næstu sókn á eftir en þá steig Dedrik Basile útaf vellinum þegar hann var í leit að þriggja stiga skoti. Kristinn Pálsson kláraði leikinn af vítalínunni og heimamenn fögnuðu sætum sigri. Af hverju vann Grindavík? Það var ekki mikið sem skildi að í kvöld. Bæði lið börðust af fullum krafti allan tímann og tilfinningin var sú að um væri að ræða leik í úrslitakeppni en ekki í 4.umferð deildakeppninnar. Flugeldasýning Ólafs í þriðja leikhlutanum gaf Grindvíkingum mikið og það hjálpaði ekki Njarðvíkingum að Lampropoulos lenti snemma í villuvandræðum. Heimamenn gerðu hins vegar afar vel. Þeir héldu ákefðinni og baráttunni allan tímann og náðu stoppum í vörninni á mikilvægum augnablikum. Hverjir stóðu upp úr? Ivan Aurrecoechea var, líkt og áður, afskaplega flottur hjá Grindavík í kvöld. Hann var kominn með 25 framlagspunkta eftir fyrri hálfleikinn og endaði leikinn með 24 stig og 17 fráköst. Áðurnefnd þriggja stiga sýning Ólafs var mögnuð og hann leiddi sitt lið áfram eins og sönnum fyrirliða sæmi, var framlagshæstur Grindvíkinga og sýndi frábæra takta í vörninni. Hjá Njarðvík voru margir að leggja í púkkið en það vantaði að klára síðustu sóknirnar. Veigar Páll Alexandersson var mjög góður í fyrri hálfleik þegar hann skoraði 12 stig og þá var Nicolas Richotti traustur og var stigahæstur Njarðvíkinga í kvöld. Hvað gekk illa? Gæðin í leiknum voru mikil miðað við hversu lítið er búið af tímabilinu. Hvorugt liðið var þó að hitta sérstaklega vel og voru bæði undir 40% nýtingu utan af velli. Njarðvík tapaði 13 boltum, fimm fleiri en heimamenn, og það er blóðugt fyrir gestina. Dedrick Basile og Kristinn Pálsson, lykilleikmenn sinna liða, hittu illa en stigu báðir upp undir lokin og settu mikilvæg stig. Hvað gerist næst? Grindavík fer á Sauðárkrók á fimmtudag og mætir taplausu liði Tindastóls. Afar áhugaverð viðureign þar. Njarðvík heldur í Vesturbæinn á föstudagskvöldið þar sem KR-ingar bíða. Daníel Guðni: Sigur sem þýðir mikið fyrir okkur Daníel Guðni var virkilega sáttur með sigurinn í kvöld.Vísir / Bára „Þetta eru bestu 40 mínúturnar sem við höfum sýnt í þessum fyrstu fjórum umferðum og klárlega eitthvað til að byggja ofan á. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er langt tímabil, stutt á milli leikja og hver leikur í deildinni erfiður,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Grindavíkur eftir sigurinn á Njarðvík í kvöld. „Þó við höfum unnið Njarðvík hér í kvöld þá löbbum við ekkert í gegnum næsta leik gegn Tindastóli. Þeir eru hörkulið og líta mjög vel út. Þetta var fín frammistaða en við þurfum að halda áfram að bæta okkur.“ Grindavík hefur ekki unnið marga leiki síðustu tímabil gegn liðum sem flestir telja að verði meðal toppliða deildarinnar. Hversu mikilvægur var þessi sigur í því ljósi? „Það er mjög mikilvægt að við höfum trú á þessu verkefni og ég er virkilega ánægður með frammistöðuna. Þeir trúðu alveg fyrir leik að þeir gætu sigrað, við erum að keppa og með gott lið. Það hefur verið mikið talað um Njarðvík enda eru þeir með flottan hóp og sterkt lið en það á að vera erfitt að koma hingað og taka sigur. Við vorum að verja þetta vel og ég er ánægður með það.“ Stemmningin í HS Orku-höllinni í kvöld var til fyrirmyndar og vel mætt hjá stuðningsmönnum liðanna. „Það er svo langt síðan að ég hef verið í svona spennu að ég var orðinn full spenntur á hliðarlínunni, sérstaklega í fyrri hálfleik, og leið fyrir það. Ég tók ábyrgð á orðum mínum og baðst afsökunar á því, ég var æstur eins og gengur og gerist,“ sagði Daníel en hann fékk tæknivillu í fyrri hálfleiknum. „Það var mikið undir því þessi sigur þýðir mikið fyrir okkur. Þetta var mjög mikilvægt,“ sagði Daníel að lokum. Benedikt: Fengum flugeldasýningu frá Óla Óla Benedikt hefur farið vel af stað með Njarðvíkurliðið en horfði upp á sína menn tapa í kvöld.Vísir / Hulda Margrét „Klárlega ekki okkar besta frammistaða en ýmislegt jákvætt. Ég er ekki að detta í þunglyndi þó við höfum tapað þessum leik, þetta var 50/50 leikur á erfiðum útivelli gegn góðu liði,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur eftir tapið gegn Grindavík í Subway-deildinni í kvöld. „Það er erfitt að vinna á útivelli í þessari deild, þú þarft að hitta á toppleik og við náðum því ekki núna. Við fengum flugeldasýningu frá Óla Óla sem skipti algjörlega sköpum,“ en áðurnefndur Ólafur skoraði sjö þriggja stiga körfur í kvöld. Fotios Lampropoulos fékk þrjár villur í fyrsta leikhluta hjá Njarðvík og það gerði baráttuna undir körfunni gegn hinum geysiöfluga Ivan Aurrecoechea enn erfiðari. „Við erum búnir að vera alveg að sársaukamörkum varðandi meiðsli og það var vont að missa Loga Gunnarsson. Það síðasta sem við máttum við núna var að missa mann í villuvandræði og hvað þá Fotios. Ef einhver hefði átt að lenda í því þá mátti það ekki vera hann. Það gerðist og við vorum ekki sammála því.“ „Mér fannst við ná að halda okkur inni í leiknum á meðan. Síðan snerist þetta um hver ætlaði að setja stóra skotið í lokin og það kom frá þeim.“ Ákefðin var mikil hjá leikmönnum og þjálfurum í kvöld. Benedikt og Daníel Guðni Guðmundsson kollegi hans hinu megin fengu báðir tæknivillur og það var vel mætt í stúkuna þar sem stemmningin var frábær. „Ég er búinn að vera lengi í þessu og leikirnir í dag eru flestir eins og úrslitakeppnin var fyrir nokkrum árum. Áður fyrr var talað um að toppa í úrslitakeppninni og menn kannski ekki beint að spara sig, en mögulega ekki að setja allt sem þeir áttu svona snemma á tímabilinu.“ „Núna þarftu bara að gera það frá byrjun til þess að vera með í úrslitakeppninni því það eru alltaf einhver góð lið sem sitja eftir. Þess vegna eru leikirnir eins og þetta sé úrslitakeppni alltaf,“ sagði Benedikt að lokum.