Umfjöllun og viðtöl: KA/Þór - Valur 24-21 | Heima­stúlkur tóku for­ystuna í úr­slita­ein­víginu

Rúnar Þór Brynjarsson skrifar
visir-img
vísir/hulda margrét

KA/Þór er komið yfir í úrslitaeinvíginu gegn Val í Olís-deild kvenna en liðin mættust í fyrsta sinn á Akureyri í kvöld. Vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér titilinn.

Í fyrri hálfleik kom ekki neitt á óvart. Lovísa Thomson var markahæst í liði Vals með 5 mörk. Rut Jónsdóttir var markahæst hjá KA/Þór með 4 mörk. Leikurinn var hnífjafn eins og við var að búast. Saga Sif markvörður Vals varði vel og sömuleiðis Matea Lonac hjá KA/Þór. Það hefði nánast verið hægt að skrifa þetta fyrir leikinn.

Áfram var leikurinn jafn og skiptust liðin á að vera yfir. Áfram hélt Lovísa að skora fyrir Valskonur og Rut fyrir KA/Þór. Heimakonur breyttu í sókninni og bættu aukamanni við þar. Valur réði ekkert við þær og skoruðu KA/Þór 5 mörk í röð. KA/Þór hélt leikinn út og vann að lokum 3 marka sigur.

Hverjir voru áberandi hjá KA/Þór?

Rut Jónsdóttir skoraði 8 mörk.

Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði 6.

Matea Lonac fann sig vel í dag og varði mjög vel á köflum.

Hverjir voru áberandi hjá Val?

Lovísa Thomson var áberandi best í liði Vals í dag.

Næst á eftir henni kom Lilja Ágústsdóttir með 4 mörk.

Af hverju vann KA/Þór?

Í úrslitaeinvígi eins og þessu var leikurinn alltaf að fara vera jafn. Kaflinn sem KA/Þór skoraði 5 mörk í röð kveikti vel í þeim og sigldu þær þessu á endanum heim. Stuðningurinn í KA heimilinu var frábær og hjálpaði hann eflaust mikið.

Hvað er næst?

Liðin mætast aftur á sunnudaginn. Þar getur KA/Þór tryggt sér titilinn.

Ágúst Jóhannsson: „Við þurfum að koma klár á sunnudaginn“

„Já þetta var leikur sem var í járnum í 45 mínútur og við fannst mér með frumkvæðið. Þær breyta og fara í 7 á 6 og á meðan erum við að fara illa með dauðafæri sem er mjög dýrt í jöfnum leik eins og þessum,“ sagði Ágúst, þjálfari Vals.

KA/Þór skoraði 5 mörk í röð og Valur tók 2 leikhlé með stuttu millibili

„Þær áttu góðan kafla og við tókum leikhlé svo skora þær 2 í viðbót og við tökum annað leikhlé til að stöðva blæðinguna. Við vorum að skapa okkur ágætis færi en því miður tókst það ekki. KA/Þór er feikilega öflugt lið og þær spila langar sóknir og gera það vel. Við þurfum að koma klár á sunnudaginn og reyna lagfæra nokkur atriði því það er virkilega gaman að spila hérna og vonandi komum við aftur.“

Ágúst skorar á Valsara að mæta og styðja þær.

„Ég er sannfærður að það verður mikið af fólki frá Akureyri þannig við þurfum að fá okkar fólk til þess að mæta og búa til hörku stemningu á sunnudaginn.“

Andri Snær: „Þetta var eins og í gamla daga í KA heimilinu

„Þetta var mjög skemmtilegur leikur fyrir áhorfendur klárlega og ég er ofboðslega stoltur af stelpunum að sýna karakter og ná að klára þetta,“ sagði Andri Snær, þjálfari KA/Þór.

KA/Þór var undir eða staðan jöfn allan fyrri hálfleikinn

„Við vorum lengi í gang í fyrri hálfleik og vorum að elta og vörnin var ekki að fúnkera eins og við lögðum upp. Sóknarlega vorum við of hægar, flæðið var ekki gott. En síðasta korterið þéttist vörnin vel og við fengum svakalega góðan stuðning frá okkar fólki sem að hjálpaði okkur með sjálfstraustið. Við náðum að loka á þær og Matea varði vel.

Andri breytti í 7 á 6 í sókn og gerði það gæfumuninn

„Við fórum í 7 á 6 og hjálpaði það okkur að fá flæðið sem við viljum í okkar sóknarleik. Við fengum færin sem við viljum fá og sýndum aga.

Fyrst og fremst vill ég þakka stuðningsfólkinu okkar í dag sem var ótrúlegt, þetta var eins og í gamla daga í KA heimilinu og áhorfendur eiga mikið hrós skilið fyrir að hjálpa okkur í þessari baráttu.“

Liðin mætast aftur á sunnudaginn og þá getur KA/Þór tryggt sér íslandsmeistaratitilinn

„Við erum núna bara að hugsa um endurheimt og fullt af hlutum sem við getum lagað og gert enþá betur. Þetta er gaman og það er stutt í næsta leik, við þurfum bara að halda áfram að bæta okkur, spila af krafti og njóta þess að spila.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira