Erlent

Ís­lendingur sagður hafa stungið mann í hálsinn á Strikinu og flúið á Bur­ger King

Eiður Þór Árnason skrifar
Amager torgið í Kaupmannahöfn er nálgægt umræddri Helligåndskirken.
Amager torgið í Kaupmannahöfn er nálgægt umræddri Helligåndskirken. Getty/PhotographerCW
Íslendingur er sakaður um að hafa stungið mann fyrir utan bar á Strikinu í Kaupmannahöfn síðasta laugardag, nálægt kirkjunni Helligåndskirken.

Eftir árásina er árásarmaðurinn sagður hafa flúið inn á Burger King veitingastað þar sem hann var síðar handtekinn af lögreglu. DV.is greindi fyrst frá íslenskra miðla.

Sjónarvottur lýsti árásarmanninum sem „stórvöxnum húðflúruðum Íslendingi“ í samtali við danska miðilinn Ekstra Bladet. Greindi vitnið frá því að hinn meinti Íslendingur hafi átt í slagsmálum við fórnarlambið áður en hann stakk manninn í hálsinn með hníf meðan hann lá á jörðu niðri.

Lögreglumaðurinn Leif Hansen sagði í samtali við Extra Bladet að sjónarvottar hafi haft samband við lögreglu og vísað henni á manninn. Sást hann henda árásarvopninu í ruslið á Burger King staðnum þegar lögreglumenn nálguðust hann.

Minnst tuttugu lögreglumenn eru sagðir hafa verið sendir á vettvang til að reyna tryggja öryggi almennings við handtökuna.

Extra Bladet hefur eftir lögreglunni í Kaupmannahöfn á laugardag að fórnarlambið væri komið úr lífshættu og hlyti aðhlynningu á Rigshospitalet. Var það þá mat lögreglu að um væri að ræða einangrað atvik milli tengdra manna.

Vísir hefur óskað eftir frekari upplýsingum frá lögreglunni í Kaupmannahöfn.

Veistu meira um málið? Sendu okkur línu á [email protected]. Fullum trúnaði heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×