Viðskipti innlent

Lögbann staðfest á ólöglega efnisveitu: Neitaði að sýna reikningana og sagði einhvern gera sér grikk

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lionel Messi er fastagestur á sjónvarpsskjám landsmanna í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu og spænsku efstu deildinni.
Lionel Messi er fastagestur á sjónvarpsskjám landsmanna í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu og spænsku efstu deildinni. vísir/getty
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest lögbann á starfsemi Jóns Geirs Sigurbjörnssonar sem selt hefur Íslendingum aðgang að útsendingum frá ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu í fótbolta undir merkjum IPTV-Iceland.

Sýn stefndi Jóni Geir til staðfestingar á lögbanninu en fyrirtækið á einkarétt og sýningarrétt á fjölmörgu sjónvarpsefni sem boðið var til kaupa hjá IPTV-Iceland. Var fallist á kröfur fyrirtækisins varðandi lögbann en ekki að fyrirtækið ætti rétt á skaðabótum vegna hátternisins.

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

500 sjónvarpsstöðvar fyrir 2500 krónur

Það var í maí 2018 sem lögmaður Sýnar leitaði til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og krafðist þess að lögbann yrði sett á þjónustu sem Jón Geir seldi almenningi að verulegum fjölda erlendra sjónvarpsrása auk aðgang að miklu magni kvikmynda- og íþróttaefnis sem Sýn hafði sýningarrétt á hér á landi.

Má nefna sýningarréttinn á ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu, sjónvarpsþáttum á borð við Ellen, Greys's Anatomy, Succession og Peakly Blinders svo fátt eitt sé nefnt. Var fullyrt að Jón Geir seldi aðgang að erlendum sjónvarpsstöðvum þar sem efnið væri aðgengilegt.

IPTV Iceland hefur meðal annars selt aðgang að ensku deildinni. Sýn átti einkaréttinn á sýningu á Íslandi þegar lögbannskrafan var lögð fram. Síminn á nú rétt á sýningar hér á landi.vísir/getty
Var því haldið fram að svo hefði verið síðan í ágúst 2017 en starfsemin hefði verið auglýst á vefsíðunni iptv-iceland.com og á Facebook-síðunni www.facebook.com/iptvsjonvarpid/ en einnig með tölvupósti frá netfanginu [email protected].

Meðal annars hafi verið hægt að kaupa áskrift að „Gamla góða pakkanum“ sem hafi verið aðgangur að 500 sjónvarpsstöðvum með rúmlega 4000 kvikmyndum og þáttum í myndleigu gegn 2500 króna greiðslu á mánuði. Í auglýsingunum hafi komið fram að pakkinn væri í toppgæðum og virki frábærlega til að fá íþróttadagskrá, kvikmyndir og þætti.

Óskað sé greiðslu inn á tiltekinn reikning og kennitala Jóns Geirs gefin upp. Kvittun eigi að senda á fyrrnefnt netfang.

Veitti ábyrgðarbréfi ekki viðtöku

Fram kom í máli lögmanns Sýnar að Jón Geir hefði einnig selt, leigt eða afhent tæknibúnað og hugbúnað til að taka á móti útsendingum og merki sjónvarpsstöðvanna og þess myndefnis sem hann seldi aðgang að. Búnaðurinn og hugbúnaðurinn hafi verið þannig útbúinn til að sniðgang tæknilegar ráðstafanir rétthafa þess myndefnis sem um ræðir.

Lögmaður Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) sendi formlegt erindi til Jóns Geirs í mars 2018 og krafðist þess að hann léti af iðju sinni. Var bréfið sent í ábyrgðarpósti en Jón Geir veitti bréfinu ekki viðtöku og sótti ekki á pósthús.

Úr höfuðstöðvum Sýnar við Suðurlandsbraut.Sýn
Rúmum tveimur mánuðum síðar var lögð fram lögbannsbeiðni hjá sýslumanni. Jón Geir mætti til sýslumanns í lok maí 2018 þegar beiðnin var tekin fyrir og sagðist ekki vera réttur aðili að málinu. Hann neitaði því að veita þá þjónustu sem Sýn sakaði hann um að veita.

Hann játaði því að framangreint reikningsnúmer væri hans og kennitala sömuleiðis. Ástæða þess að þær upplýsingar væru að finna í markaðsefni IPTV Iceland væri líklega sú að einhver væri að gera honum grikk. Hann neitaði að leggja fram bankayfirlit til að sýna fram á að hann hefði ekki móttekið greiðslur fyrir þjónustu IPTV Iceland.

Sendi tilkynningu til viðskiptavina

Kröfur Sýnar voru teknar til greina og sett lögbann á starfsemi IPTV Iceland þess efnis að Jón Geir mætti ekki miðla, dreifa og selja almenningi aðgengi að höfundaréttarvörðu efni.

Síðar sama dag hafi viðskiptamenn IPTV Iceland fengið eftirfarandi skilaboð:

„Tilkynning IPTV til viðskiptavina. Góðan dag. Fréttir hafa borist af því að búið sé að setja lögbann á starfsemi iptviceland. Það á ekkert við um okkar viðskiptavini. FRISK er að fiska í mjög gruggugu vatni og virðast ætla reyna að gera einn aðila að blóraböggli fyrir alla aðra. Sem sagt reyna að hengja einn, öðrum til viðvörunar og það tók Sýslumaðurinn undir í dag. Við viljum biðja alla áskrifendur núverandi og fyrrverandi að halda sínum upplýsingum vel að sér til að tryggja áframhaldandi þjónustu. FRISK hefur ekkert í höndunum til að loka á okkar viðskiptavini og það viljum við fullvissa ykkur um. Ef þið viljið endurnýja eða kaupa áskrift þá bendum við á nýtt netfang [email protected] til að halda öllu á hreinu. Virðingarfyllst IPTV.“

Sýn óskaði eftir aðstoð lögreglu í framhaldi og var Jóni Geir tilkynnt að óskað hefði verið eftir aðstoð lögreglu við að halda uppi lögbanninu í ljósi orðsendingunnar til viðskiptavina.

Sýn krafðist í framhaldinu staðfestingar á lögbanninu fyrir dómi. Jón Geir hafnaði öllum kröfum og bar áfram fyrir sig að vera ekki tengdur málinu. Hann varði sig sjálfur fyrir dómi.

Ótvírætt reikningur Jóns Geirs

Fyrir héraðsdóm kom Hallgrímur Kristinsson, formaður FRÍSK, og vitni sömuleiðis sem kvaðst hafa keypt þjónustu af Jóni Geir. Taldi héraðsdómur ágreininginn í málinu einkum snúa að því hvort Jón Geir hefði sannarlega miðlað höfundarréttarvörðu efni til almennings í gegnum IPTV Iceland þvert á sýningarrétt stefnanda með afhendingu tæknibúnaðar sem hann seldi sjálfur og væri forstilltur í þeim tilgangi að móttaka sjónvarpsefni án heimildar frá Sýn.

Hallgrímur ræddi lögbannið í Bítinu á Bylgjunni í fyrra.

Héraðsdómur samþykkti ekki útskýringar Jóns Geirs að hann væri ekki réttur aðili að málinu. Var þá vísað til framburðar vitnisins fyrir dómi þar sem kom skýrt fram að eftir að sá hafði sent fyrirspurn um áskrift að sjónvarpsefni IPTV Iceland hafi hann fengið leiðbeiningar um að greiða 12.500 krónur inn á reikning sem óvírætt sé reikningur Jóns Geirs.

Eftir að hafa reitt fram upphæðina hafi vitnið fengið leiðbeiningar um það hvernig hann gæti nálgast sjónvarps- og íþróttaefni hjá IPTV Iceland. Vitnið staðfesti að hafa svo fengið sendan hlekk með notandanafni og lykilorði sem hafi veitt honum aðgang að erlendum sjónvarpsstöðvum sem sýndu meðal annars enska boltann og Meistaradeildina.

Væri verið að gera honum „grikk“

Jón Geir gaf þá skýringu fyrir dómi, aðspurður hvers vegna kennitala hans og bankareikningur væri gefin upp í auglýsingu IPTV, að einhver væri að gera honum grikk. Engar skýringar voru þó gefnar hvers vegna einhver væri að gera honum þann grikk.

Þá skýrði hann greiðslur inn á reikning sinn, sem voru upp á 12.500 krónur eins og í tilfelli vitnisins sem kom fyrir dóm, á þann veg að um væri að ræða innborganir viðskiptavina sem væru að kaupa af honum Apple TV tæki.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Vísir/Hanna
Hann gat þó ekki skýrt þær greiðslur frekar en lagt fram gögn máli sínu til stuðnings. Þá leit dómurinn til þess að við meðferð málsins hjá sýslumanni hefði Jón Geir neitað að afhenda bankayfirlit af þeim reikningi sem gefinn var upp í auglýsingu IPTV Iceland í þeim tilgangi að sanan að hann hefði ekki tekið við greiðslum fyrir áskrift.

Taldi dómurinn skýringar Jóns Geir ótrúverðugar enda þvert á framburð vitnis og gögn málsins. Jón Geir hefði sannanlega veitt fyrrnefnda þjónustu gegn greiðslu.

Veitir enn þjónustu þrátt fyrir lögbann

Fór svo að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti lögbann sýslumanns við því að Jón Geir veitti eða seldi aðgang að sjónvarpsefni sem Sýn hefði einkarétt á hér á landi. Kemur fram í niðurstöðu dómsins að ekki verði betur séð en að Jón Geir veiti enn þjónustuna þrátt fyrir lögbann.

Dómurinn bendir á að lögmaður Sýnar hafi lagt fram fjölmarga rétthafasamninga sem sýni nægilega fram á sýningarrétt Sýnar á því efni sem Jón Geir auglýsti á síðunni IPTV Iceland.

Kröfum Sýnar á lögbann við að Jón Geir veitti eða seldi aðgang að efni annarra ótilgreinda rétthafa var vísað frá dómi. Leit dómurinn til þess að Sýn hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá þennan rétt viðurkenndan enda ætti Sýn ekki þau réttindi þótt fyrirtækið teldi réttinn sig varða.

Þá var Jón Geir sýknaður af lögbannskröfu við að selja, leigja eða afhenda búnað eða hugbúnað í þeim tilgangi að gera aðgengilegt almenningu að sýna eða miðla höfundarvörðum verkum. Ekki hefði verið sýnt nægilega fram á, gegn neitun Jóns Geirs, hvernig hann hefði átt við tæknibúnað eða hugbúnað sem hann seldi í gegnum síðuna horfum.com í þeim tilgangi að miðla höfundarréttarvörðu efni til almennings.

Kröfu Sýnar um viðurkenningu á bótaskyldu Jóns Geirs var vísað frá dómi meðal annars á þeim grundvelli að Sýn hefði ekki sýnt fram á tjón sem fyrirtækið hefði orðið fyrir vegna þess að IPTV Iceland hefði boðið efnið á mun ódýrara verði en Sýn sem átti sýningarréttinn.

Engin haldbær gögn lægju fyrir um fjártjón Sýnar vegna brota Jóns Geirs. Var kröfunni því vísað frá dómi.

Málskostnaður í málinu var felldur niður.



Vísir er í eigu Sýnar.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×