Handbolti

Minningarbók um Kolbein Aron í íþróttahúsinu í Eyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Minningarbókin um Kolbein Aron Arnarson.
Minningarbókin um Kolbein Aron Arnarson. Mynd/Fésbókarsíða ÍBV
Eyjamenn og aðrir urðu fyrir miklum missi um jólin þegar handboltamaðurinn Kolbeinn Aron Arnarson varð bráðkvaddur í blóma lífsins.

Kolbeinn Aron Arnarson var markvörður meistarafloks karla hjá ÍBV og hann var mjög vinamargur bæði í Eyjum sem og upp á landi.

Eyjamenn ætla meðal annars að minnast Kolbeins með því að biðja fólk sem þekkti hann til að skrifa í minningarbók sem mun liggja frammi í íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum frá 4. til 9. janúar.

 

„Allir þeir sem vilja votta honum virðingu sína geta sett nafn sitt í bókina og þeir sem vilja senda kveðju mega einnig gera það. Þeir sem eiga flotta mynd geta sent okkur myndina á [email protected] og munum við líma hana inn í bókina,“ segir í tilkynningu á fésbókarsíðu handboltans í ÍBV.

Kolbeinn Aron varð bráðkvaddur á heimili sínu 29 ára að aldri á aðfangadag, 24. desember síðastliðinn.

Kolbeinn Aron var einn af lykilmönnum í uppbyggingu og velgengni handboltans í Vestmannaeyjum undanfarin ár. Eftir að hafa æft og leikið með yngri flokkum ÍBV lék hann 17 ára gamall sinn fyrsta leik með meistaraflokki árið 2006. Alls spilaði hann 279 leiki fyrir félagið, sem gerir hann að fjórða leikjahæsta leikmanni þess frá upphafi.

Kolbeinn Aron átti stóran þátt í því er liðið varð eftirminnilega Íslandsmeistari í fyrsta skipti árið 2014 og bikarmeistari ári síðar.

„Fráfall Kolbeins Arons er öllum sem þekktu hann mikið áfall. Hjá okkur sem voru með honum í handboltanum situr eftir sorg og söknuður; þakklæti og virðing,“ sagði í tilkynningunni á heimasíðu ÍBV um andlát Kolbeins.




Tengdar fréttir

Kolbeinn Aron er látinn

Kolbeinn Aron Arnarson markmaður ÍBV í handknattleik varð bráðkvaddur á heimili sínu í Vestmannaeyjum um jólin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×