Erlent

Vatn víða að finna á fjarlægum plánetum

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Fjarreikistjarnan Proxima b er á sporbraut um stjörnuna Proxima, sem er næsti nágranni okkar í alheiminum. Reikistjarnan er talin vera grýtt.
Fjarreikistjarnan Proxima b er á sporbraut um stjörnuna Proxima, sem er næsti nágranni okkar í alheiminum. Reikistjarnan er talin vera grýtt. NordicPhotos/Getty
Vatn er að öllum líkindum afar stór hluti af náttúru fjarreikistjarna – reikistjarna utan okkar sólkerfis – sem eru tvisvar til fjórum sinnum stærri en Jörðin. Jarðefnafræðingar sem rýnt hafa í stærð og massa tæplega fjögur þúsund staðfestra og grunaðra fjarreikistjarna kynntu niðurstöður sínar á Goldsmith-ráðstefnunni í Boston í gærkvöldi.

Fyrstu fjarreikistjörnurnar fundust árið 1992. Þær voru á sveimi í kringum tifstjörnu í 2.300 ljósárafjarlægð frá Jörðu, í stjörnumerki Meyjunnar. Síðan þá hafa vísindamenn freistað að varpa ljósi á eðli og náttúru þessara reikistjarna svo hægt sé að meta lífvænleika þeirra.

Vísindamenn við Harvard-háskóla rýndu í gögn frá Kepler-geimsjónaukanum og stjarnmælingageimfarinu Gaia og báru saman radíus fjarreikistjarna og áætlaðan massa þeirra. Fyrri niðurstöður gefa sterklega til kynna að flestar fjarreikistjörnur falla í tvo flokka, annars vegar reikistjörnur sem er í kringum 1,5 sinnum stærri en Jörðin, og hins vegar reikistjörnur sem eru 2,5 sinnum stærri en Jörðin. Vísindamennirnir hafa nú kynnt líkan sem útskýrir tengsl massa fjarreikistjarna og radíuss þeirra.

Líkanið gefur til kynna að fjarreikistjörnur sem eru 1,5 stærri en Jörðin séu yfirleitt grýttar og í kringum 5 sinnum massameiri en Jörðin. Aftur á móti eru stærri fjarreikistjörnurnar, þær sem eru 2,5 stærri en Jörðin og 10 sinnum massameiri, að öllum líkindum vatnaveraldir.

„Þetta er vatn, en ekki vatn sem er jafn auðfundið og hér á Jörðinni,“ segir Li Zeng hjá Harvard-háskóla. „Yfirborð þessara fjarreikistjarna er í kringum 200 til 500 gráða heitt. Þannig gæti yfirborðið verið þakið lofthjúpi sem samanstendur fyrst og fremst af vatnsgufu, á meðan vatn í fljótandi formi er að finna í jarðlögum.“

Zeng segir að í kringum 35 prósent þeirra fjarreikistjarna sem eru stærri en Jörðin séu líklega ríkar af vatni.

„Þessar tilteknu reikistjörnur mynduðust líklega með svipuðum hætti og kjarnar stærstu reikistjarna í okkar sólkerfi. TESS-geimsjónaukinn, sem nýlega var skotið á loft, mun finna mun fleiri slíkar fjarreikistjörnur. Næsta kynslóð geimsjónauka, James Webb-geimsjónaukinn nánar tiltekið, mun síðan vonandi geta greint lofthjúp þeirra,“ sagði Zeng. „Þetta eru spennandi tímar fyrir þá sem hafa áhuga á fjarlægum veröldum.“

[email protected]


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×