Gunnar Bragi hlustar ekki á lögin mín Kjartan Guðmundsson skrifar 20. október 2016 14:30 "Ég ákvað að láta á reyna á listamanninn sem blundaði í mér og var orðinn þrítugur þegar ég byrjaði að brölta með Kött Grá Pje,“ segir Atli Sigþórsson, maðurinn á bakvið Kött Grá Pje. Vísir/Stefán „Ég vil fá verðlaun sem besti textahöfundur ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum,“ segir rapptónlistarmaðurinn Kött Grá Pje, sem reyndar er skráður Atli Sigþórsson skáld í símaskránni, spurður um helstu væntingar til nýrrar plötu sem hann sendir frá sér á allra næstu vikum. „Ég er nú reyndar að grínast með verðlaunin. Ég hef engar sérstakar væntingar aðrar en þær að einn og einn labbakútur hér og hvar um landið fíli hana vonandi. Ég er bara rosalega ánægður með plötuna og hlakka til að koma henni frá mér. Hún er búin að lafa hjá mér of lengi, hálf upp úr vasanum,“ heldur hann áfram um nýju breiðskífuna, sem ber heitið Kisan mín er guð og er hans fyrsta stóra plata. Kött Grá Pje vakti fyrst verulega athygli þegar lagið Aheybaró varð einn af sumarsmellum ársins 2013. Síðan þá hefur hann sent frá sér stöku lag á eigin vegum og í samstarfi við aðra við góðar undirtektir, ekki síst þegar hann rappaði ásamt Úlfi Úlfi í öðru geysivinsælu lagi, Brennum allt, árið 2015. Nú er sem sagt loksins komið að útgáfu fyrstu stóru plötunnar, en Atli Sigþórsson er ekki einhamur og tyllir víða niður fæti. Síðustu vikur og mánuði hefur hann til að mynda séð um námskeið í skapandi skrifum fyrir ungt fólk, gert vídeólistaverk ásamt listakonunni Ástu Fanneyju Sigurðardóttur í tilefni Lestrarhátíðar í Bókmenntaborg og ort ljóð fyrir herferð UN Women sem beinist gegn netníði, svo fátt eitt sé nefnt. Þá er ótalið örsagnasafnið Perurnar í íbúðinni minni sem einnig er von á í verslanir innan skamms.Kött Grá Pje framlenging á Atla Um plötuna langþráðu segir Atli aðspurður að á henni verði lítið um læti eða „svitastuð“, eins og hann orðar það, heldur hafi stefnan frá upphafi verið að gera fremur lágstemmda og rafskotna rapptónlist ásamt upptökustjóra plötunnar, Brilljantínusi. Hingað til hafa textar rapparans vakið athygli, ekki síst fyrir fjölda sögulegra vísana í há- og lágmenningu og hispurslausar yfirlýsingar á skáldlegu máli, og hann lofar því að svo verði áfram á nýju plötunni. „Sem rappari hef ég mikinn áhuga á kynusla og öðrum tengdum hlutum og fjalla mikið um þá í textum mínum. Á síðustu árum hefur mér fundist að rappið sé smám saman að opnast fyrir alls kyns hlutum en kynusli og samkynhneigð er enn mjög á grensunni í rappheiminum, sérstaklega erlendis. En þetta er vonandi að breytast. Við sáum til dæmis Young Thug í kjól framan á nýju plötunni sinni, sem er geggjað, en ég er róttæklingur í hjarta mínu og finnst borðleggjandi að fara alla leið í því að tjá skoðanir mínar með þessum hætti,“ segir Atli, sem er iðulega með lakkaðar neglur, gengur stundum um með bleik gleraugu og klæðist kímonóum. „Þegar ég nenni mála ég mig líka um augun. Ég ákvað fyrir löngu að líta á sjálfan mig sem mann sem elskar persónuleika, en hef hingað til bara laðast kynferðislega að konum og er „straight“ í þeim skilningi. Þetta eru tilfinningar sem ég tengi mjög sterkt við. Kyngervi er orðið rotið inn að merg sem einhvers konar upphaf og endir alls og ég opna mig fyrir því að elska og laðast að hverju og hverjum sem er,“ segir hann og útskýrir að Kött Grá Pje sé í rauninni framlenging á Atla, en örlítið uppblásnari og ýktari útgáfa. „Ég er sjálfur frekar félagslega heftur og feiminn. Kött Grá Pje gefur mér færi á að bregða upp grímu og haga mér eins og ég myndi gera ef ég væri aðeins sleipari gaur. Kött Grá Pje er dálítið eins og ljúfur og blíður Herra Hyde.“Verð líklega alltaf þunglyndur Atli ólst upp á Akureyri og var unglingur þegar mikil rappbylgja gekk yfir landið á síðari hluta tíunda áratugarins. Hann segir stóran hluta af sinni kynslóð norðan heiða hafa verið hreinlega rappóðan og var meðal annars meðlimur í rappsveitinni Skyttunum á árunum 2003 og 2004. Þá lögðust Skytturnar í dvala og Kött Grá Pje með, því hann kom ekkert nálægt tónlist í mörg ár í kjölfarið og einbeitti sér þess í stað að sagnfræðinámi og síðar ritlistarnámi. „Ég ákvað að láta á reyna á listamanninn sem blundaði í mér og var orðinn þrítugur þegar ég byrjaði að brölta með Kött Grá Pje, eldri en margir þeirra sem eru á íslenskunni rappsenunni núna, og ég finn fyrir því að ég höfða til örlítið eldra fólks en margir aðrir. En aldurinn gerði það líka að verkum að ég hafði engu kúli að tapa, var frjáls til að gera þetta fullkomlega á mínum forsendum og hugsa ekkert um hvaða áhrif það hefði á fólk. Ég er bara skrítinn kall,“ segir Atli og gengst aðspurður við því að vera með afbrigðum opinskár og einlægur á samfélagsmiðlum, þar sem hann úttalar sig jafnt um menn, málefni og eigin líðan hverju sinni. „Ég var fyrst greindur þunglyndur sem unglingur, en þegar ég horfi til baka er ég viss um að ég var það líka sem barn. Núorðið hef ég sætt mig við að verða að öllum líkindum alltaf þunglyndur og með kvíða. Þannig er bara mitt líf, en það gengur ágætlega að halda því í skefjum með góðri aðstoð geðlækna, konunnar minnar, kattarins míns og fleiri,“ segir hann og bætir við að hann sé, í fullri einlægni, ofstækisfullur kattaunnandi eins og titill nýju plötunnar, Kisan mín er guð, bendir til. „Samt er ég með ofnæmi fyrir köttum, en ég eignaðist hana Kalinku fyrir nokkrum árum og þurfti að fara eftir prógrammi sem ég fann á netinu fyrir svona brjálæðinga eins og mig, kattaunnendur með ofnæmi. Samkvæmt áætluninni þurfti ég að fá mér lítinn kettling og það þurfti að vera læða. Ég tók Lóritín í eitt ár og prófaði svo að sleppa því og viti menn! Það tókst og ég er ekki með ofnæmi fyrir Kalinku lengur. Í hefðbundnum skilningi er ég algjör trúleysingi en í táknrænum og yfirfærðum skilningi gegnir kötturinn minn nokkurs konar guðshlutverki fyrir mér.“Er alls enginn töffari Atli segist vera friðelskandi maður, vinur og knúsari sem nenni ekki að standa í því að senda öðrum röppurum tóninn í textum sínum, eins og víða tíðkast. „Ég er alls enginn töffari og er ekki uppsigað við neinn í tónlistarbransanum. Ég hef tekið eftir því að textarnir mínir virðast helst fara í taugarnar á Framsóknarmönnum og úti á lífinu fæ ég örsjaldan athugasemdir vegna þeirra, en ekkert alvarlegt. Ég gef mér að Gunnar Bragi hafi lítið verið að hlusta á lögin mín,“ segir hann og bætir við að í framhaldi af útgáfu nýju plötunnar langi hann að klára skáldsögu sem hann hefur lengi unnið að og líka að koma fram á tónleikum í útlöndum með íslensku textana sína. „Ég er alltaf annaðhvort að gefa fokkmerki eða að hnoða á mér klofið, svo áhorfendur ættu að hafa grófa hugmynd um hvert ég er að fara, þvert á tungumál.“Kött Grá Pje lenti nýverið í útistöðum við mann á skemmtistað vegna útlits síns. „Ég hef aldrei áður lent í neinu veseni varðandi naglalakkið, gleraugun og allt þetta bleika, en það vildi svo til að leiðir mín og þessa fávita lágu saman á pöbb. Hann kallaði mig fagga og það æsti upp í mér einhverja drottningu, og ég gengst við því að hafa aðeins egnt hann áfram og farið inn á hans persónulega svæði. Þá sló hann mig og ég flissaði að því vegna þess að það kom mér á óvart. En alla jafna tekur fólk vel í útlitið á mér.“ Mest lesið „Ég þori alveg að fullyrða að ég er skítsæmileg móðir“ Lífið „Það er enginn séns að reyna alltaf að útskýra sig“ Tónlist Endurgreiða alla miða ef tónleikahald tekst ekki í kvöld Lífið Hundruðum svekktra tónleikagesta vísað frá Hvalasafninu Lífið Frelsaði húsgögn Brynhildar Lífið Fréttatían: Mannlíf, ferðamenn og Trump Lífið Skautadiskó til styrktar góðu málefni Lífið samstarf Hafa bæði kvatt sín fyrrverandi og eru alsæl saman Lífið Tengdadóttir forsætisráðherra í innsta koppi Loftssystkina Lífið Skellti sér á djammið Lífið Fleiri fréttir „Það er enginn séns að reyna alltaf að útskýra sig“ HAM reið á vaðið í fiskabúri X-ins 977 Létu ævintýrið loksins rætast í fiskabúrinu á X-inu „Stórir hlutir að koma og fólk þarf að vera tilbúið“ Emilíana Torrini heillaði tónleikagesti upp úr skónum Laufey naut lífsins með Ariönu Grande Rétta harmonikkan er í harmonikkuverksmiðju í harmonikkuþorpi Iceland Airwaves ýtt úr vör á Grund Fagna tuttugu ára afmæli og troða upp á Grund Segja aðra kaupa gervispilanir til að hafa áhrif á veðmál Young Thug játar sök en losnar úr fangelsi „Enginn þekkir mig og ég þekki engan, sem mér finnst þægilegt“ Laufey fagnaði með Oliviu Rodrigo og Chappell Roan Tileinkar lagið Grindvíkingum „Það hefur aldrei verið neinn ótti“ „Hugleikið hver fær að stunda kynlíf og hver ekki“ „Þetta er saga af villigötum“ „Enginn að fara að hringja í mig að fyrra bragði“ Kemur frá Sýrlandi og syngur á íslensku Space Odyssey opnar á nýjum stað Dr. Gunni spyr hvort það sé ekki bara búið að vera gaman Afhjúpað á hvaða dögum böndin spila á Airwaves Sjá meira
„Ég vil fá verðlaun sem besti textahöfundur ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum,“ segir rapptónlistarmaðurinn Kött Grá Pje, sem reyndar er skráður Atli Sigþórsson skáld í símaskránni, spurður um helstu væntingar til nýrrar plötu sem hann sendir frá sér á allra næstu vikum. „Ég er nú reyndar að grínast með verðlaunin. Ég hef engar sérstakar væntingar aðrar en þær að einn og einn labbakútur hér og hvar um landið fíli hana vonandi. Ég er bara rosalega ánægður með plötuna og hlakka til að koma henni frá mér. Hún er búin að lafa hjá mér of lengi, hálf upp úr vasanum,“ heldur hann áfram um nýju breiðskífuna, sem ber heitið Kisan mín er guð og er hans fyrsta stóra plata. Kött Grá Pje vakti fyrst verulega athygli þegar lagið Aheybaró varð einn af sumarsmellum ársins 2013. Síðan þá hefur hann sent frá sér stöku lag á eigin vegum og í samstarfi við aðra við góðar undirtektir, ekki síst þegar hann rappaði ásamt Úlfi Úlfi í öðru geysivinsælu lagi, Brennum allt, árið 2015. Nú er sem sagt loksins komið að útgáfu fyrstu stóru plötunnar, en Atli Sigþórsson er ekki einhamur og tyllir víða niður fæti. Síðustu vikur og mánuði hefur hann til að mynda séð um námskeið í skapandi skrifum fyrir ungt fólk, gert vídeólistaverk ásamt listakonunni Ástu Fanneyju Sigurðardóttur í tilefni Lestrarhátíðar í Bókmenntaborg og ort ljóð fyrir herferð UN Women sem beinist gegn netníði, svo fátt eitt sé nefnt. Þá er ótalið örsagnasafnið Perurnar í íbúðinni minni sem einnig er von á í verslanir innan skamms.Kött Grá Pje framlenging á Atla Um plötuna langþráðu segir Atli aðspurður að á henni verði lítið um læti eða „svitastuð“, eins og hann orðar það, heldur hafi stefnan frá upphafi verið að gera fremur lágstemmda og rafskotna rapptónlist ásamt upptökustjóra plötunnar, Brilljantínusi. Hingað til hafa textar rapparans vakið athygli, ekki síst fyrir fjölda sögulegra vísana í há- og lágmenningu og hispurslausar yfirlýsingar á skáldlegu máli, og hann lofar því að svo verði áfram á nýju plötunni. „Sem rappari hef ég mikinn áhuga á kynusla og öðrum tengdum hlutum og fjalla mikið um þá í textum mínum. Á síðustu árum hefur mér fundist að rappið sé smám saman að opnast fyrir alls kyns hlutum en kynusli og samkynhneigð er enn mjög á grensunni í rappheiminum, sérstaklega erlendis. En þetta er vonandi að breytast. Við sáum til dæmis Young Thug í kjól framan á nýju plötunni sinni, sem er geggjað, en ég er róttæklingur í hjarta mínu og finnst borðleggjandi að fara alla leið í því að tjá skoðanir mínar með þessum hætti,“ segir Atli, sem er iðulega með lakkaðar neglur, gengur stundum um með bleik gleraugu og klæðist kímonóum. „Þegar ég nenni mála ég mig líka um augun. Ég ákvað fyrir löngu að líta á sjálfan mig sem mann sem elskar persónuleika, en hef hingað til bara laðast kynferðislega að konum og er „straight“ í þeim skilningi. Þetta eru tilfinningar sem ég tengi mjög sterkt við. Kyngervi er orðið rotið inn að merg sem einhvers konar upphaf og endir alls og ég opna mig fyrir því að elska og laðast að hverju og hverjum sem er,“ segir hann og útskýrir að Kött Grá Pje sé í rauninni framlenging á Atla, en örlítið uppblásnari og ýktari útgáfa. „Ég er sjálfur frekar félagslega heftur og feiminn. Kött Grá Pje gefur mér færi á að bregða upp grímu og haga mér eins og ég myndi gera ef ég væri aðeins sleipari gaur. Kött Grá Pje er dálítið eins og ljúfur og blíður Herra Hyde.“Verð líklega alltaf þunglyndur Atli ólst upp á Akureyri og var unglingur þegar mikil rappbylgja gekk yfir landið á síðari hluta tíunda áratugarins. Hann segir stóran hluta af sinni kynslóð norðan heiða hafa verið hreinlega rappóðan og var meðal annars meðlimur í rappsveitinni Skyttunum á árunum 2003 og 2004. Þá lögðust Skytturnar í dvala og Kött Grá Pje með, því hann kom ekkert nálægt tónlist í mörg ár í kjölfarið og einbeitti sér þess í stað að sagnfræðinámi og síðar ritlistarnámi. „Ég ákvað að láta á reyna á listamanninn sem blundaði í mér og var orðinn þrítugur þegar ég byrjaði að brölta með Kött Grá Pje, eldri en margir þeirra sem eru á íslenskunni rappsenunni núna, og ég finn fyrir því að ég höfða til örlítið eldra fólks en margir aðrir. En aldurinn gerði það líka að verkum að ég hafði engu kúli að tapa, var frjáls til að gera þetta fullkomlega á mínum forsendum og hugsa ekkert um hvaða áhrif það hefði á fólk. Ég er bara skrítinn kall,“ segir Atli og gengst aðspurður við því að vera með afbrigðum opinskár og einlægur á samfélagsmiðlum, þar sem hann úttalar sig jafnt um menn, málefni og eigin líðan hverju sinni. „Ég var fyrst greindur þunglyndur sem unglingur, en þegar ég horfi til baka er ég viss um að ég var það líka sem barn. Núorðið hef ég sætt mig við að verða að öllum líkindum alltaf þunglyndur og með kvíða. Þannig er bara mitt líf, en það gengur ágætlega að halda því í skefjum með góðri aðstoð geðlækna, konunnar minnar, kattarins míns og fleiri,“ segir hann og bætir við að hann sé, í fullri einlægni, ofstækisfullur kattaunnandi eins og titill nýju plötunnar, Kisan mín er guð, bendir til. „Samt er ég með ofnæmi fyrir köttum, en ég eignaðist hana Kalinku fyrir nokkrum árum og þurfti að fara eftir prógrammi sem ég fann á netinu fyrir svona brjálæðinga eins og mig, kattaunnendur með ofnæmi. Samkvæmt áætluninni þurfti ég að fá mér lítinn kettling og það þurfti að vera læða. Ég tók Lóritín í eitt ár og prófaði svo að sleppa því og viti menn! Það tókst og ég er ekki með ofnæmi fyrir Kalinku lengur. Í hefðbundnum skilningi er ég algjör trúleysingi en í táknrænum og yfirfærðum skilningi gegnir kötturinn minn nokkurs konar guðshlutverki fyrir mér.“Er alls enginn töffari Atli segist vera friðelskandi maður, vinur og knúsari sem nenni ekki að standa í því að senda öðrum röppurum tóninn í textum sínum, eins og víða tíðkast. „Ég er alls enginn töffari og er ekki uppsigað við neinn í tónlistarbransanum. Ég hef tekið eftir því að textarnir mínir virðast helst fara í taugarnar á Framsóknarmönnum og úti á lífinu fæ ég örsjaldan athugasemdir vegna þeirra, en ekkert alvarlegt. Ég gef mér að Gunnar Bragi hafi lítið verið að hlusta á lögin mín,“ segir hann og bætir við að í framhaldi af útgáfu nýju plötunnar langi hann að klára skáldsögu sem hann hefur lengi unnið að og líka að koma fram á tónleikum í útlöndum með íslensku textana sína. „Ég er alltaf annaðhvort að gefa fokkmerki eða að hnoða á mér klofið, svo áhorfendur ættu að hafa grófa hugmynd um hvert ég er að fara, þvert á tungumál.“Kött Grá Pje lenti nýverið í útistöðum við mann á skemmtistað vegna útlits síns. „Ég hef aldrei áður lent í neinu veseni varðandi naglalakkið, gleraugun og allt þetta bleika, en það vildi svo til að leiðir mín og þessa fávita lágu saman á pöbb. Hann kallaði mig fagga og það æsti upp í mér einhverja drottningu, og ég gengst við því að hafa aðeins egnt hann áfram og farið inn á hans persónulega svæði. Þá sló hann mig og ég flissaði að því vegna þess að það kom mér á óvart. En alla jafna tekur fólk vel í útlitið á mér.“
Mest lesið „Ég þori alveg að fullyrða að ég er skítsæmileg móðir“ Lífið „Það er enginn séns að reyna alltaf að útskýra sig“ Tónlist Endurgreiða alla miða ef tónleikahald tekst ekki í kvöld Lífið Hundruðum svekktra tónleikagesta vísað frá Hvalasafninu Lífið Frelsaði húsgögn Brynhildar Lífið Fréttatían: Mannlíf, ferðamenn og Trump Lífið Skautadiskó til styrktar góðu málefni Lífið samstarf Hafa bæði kvatt sín fyrrverandi og eru alsæl saman Lífið Tengdadóttir forsætisráðherra í innsta koppi Loftssystkina Lífið Skellti sér á djammið Lífið Fleiri fréttir „Það er enginn séns að reyna alltaf að útskýra sig“ HAM reið á vaðið í fiskabúri X-ins 977 Létu ævintýrið loksins rætast í fiskabúrinu á X-inu „Stórir hlutir að koma og fólk þarf að vera tilbúið“ Emilíana Torrini heillaði tónleikagesti upp úr skónum Laufey naut lífsins með Ariönu Grande Rétta harmonikkan er í harmonikkuverksmiðju í harmonikkuþorpi Iceland Airwaves ýtt úr vör á Grund Fagna tuttugu ára afmæli og troða upp á Grund Segja aðra kaupa gervispilanir til að hafa áhrif á veðmál Young Thug játar sök en losnar úr fangelsi „Enginn þekkir mig og ég þekki engan, sem mér finnst þægilegt“ Laufey fagnaði með Oliviu Rodrigo og Chappell Roan Tileinkar lagið Grindvíkingum „Það hefur aldrei verið neinn ótti“ „Hugleikið hver fær að stunda kynlíf og hver ekki“ „Þetta er saga af villigötum“ „Enginn að fara að hringja í mig að fyrra bragði“ Kemur frá Sýrlandi og syngur á íslensku Space Odyssey opnar á nýjum stað Dr. Gunni spyr hvort það sé ekki bara búið að vera gaman Afhjúpað á hvaða dögum böndin spila á Airwaves Sjá meira