Erlent

Tólf látnir í árás á skrifstofur tímarits í París

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað í ellefta hverfi í París.
Árásin átti sér stað í ellefta hverfi í París. Vísir/Getty
Tólf manns eru látnir og sjö særðir eftir að þrír hettuklæddir menn réðust inn á ritstjórnarskrifstofur satírutímaritsins Charlie Hebdo í 11. hverfi Parísarborgar. Þetta kemur fram á vef Reuters.

Þetta er það sem við vitum um árásina. Ítarlegri umfjöllun er fyrir neðan punktana.

  • Þrír byssumenn réðust inn á skrifstofur satírutímaritsins Charlie Hebdo í morgun og hófu skothríð.
  • Yfirvöld hafa staðfest að 12 hafi látist; tíu starfsmenn blaðsins og tveir lögreglumenn. Fimm aðrir eru með alvarlega áverka.
  • Árásarmennirnir flúðu af vettvangi og stálu bifreið til að komast undan. Þeir ganga enn lausir.
  • Forseti Frakklands François Hollande hefur sagt að þjóðin sé í áfalli eftir, það sem hann kallaði, hryðjuverkaárás.
  • Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Charlie Hebdo verður fyrir árásum í kjölfar birtinga skopmyndateikninga af Múhameð spámanni. Sprengjuárás var gerð á skrifstofur þeirra árið 2011 og hótanir hafa borist um árásir nýverið.


Sjónarvottar segjast hafa heyrt mikla skothríð og að árásarmennirnir hafi notast við Kalashnikov-hríðskotariffla. Síðar hafi sést til mannanna flýja af vettvangi.

Í frétt BBC segir að tveir hinna látnu séu lögreglumenn. Fimm hinna særðu eru í lífshættu. Sjónarvottar segja að árásarmennirnir hafi kallað „spámannsins Múhameðs hefur verið hefnt“.

Í einu myndbandanna sem sjónarvottar tóku af árásinni má sjá árásarmennina skjóta lögreglumann til bana með köldu blóði.
Lögregla hefur girt af svæðið í kringum skrifstofurnar. Á vef Guardian segir að skotför hafi verið á lögreglubíl sem var lagður nokkur hundruð metrum frá skrifstofunni, á Boulevard Richard-Lenoir.

Tímaritið hefur áður vakið mikið umtal vegna háðsádeilu sinnar á fréttir og málefni líðandi stundar. Í síðasta tísti tímaritsins fyrir árásina var birt mynd af Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna ISIS.

Eldsprengju var varpað á skrifstofur tímaritsins árið 2011 eftir að hafa birt teiknimyndir af leiðtogum múslíma. Þá voru margir sem gagnrýndu tímaritið fyrir að birta Múhameðs-teikningar Jyllands-Posten árið 2008.

Að neðan má sjá myndband sem fréttamaðurinn Martin Boudot birti á Twitter þar sem sjá má blaðamenn sem hafa leitað skjóls á þaki skrifstofubyggingar Charlie Hebdo.

Uppfært:

Hæsta viðbúnaðarstigi vegna mögulegrar hryðjuverkaárásar hefur nú verið komið á.

Francois Hollande Frakklandsforseti er nú mættur á staðinn og hefur hann tilkynnt að ríkisstjórn verði kölluð saman vegna málsins.

Í frétt Le Monde segir að þetta sé mannskæðasta hryðjuverkaárás í sögu landsins frá árinu 1835.

Þá segir að árásin hafi átt sér stað þegar ritstjórnarfundur stóð yfir á skrifstofum blaðsins.

Búið er að bera kennsl á árásarmennina þrjá. Tveir þeirra eru bræður frá París og sá þriðji er frá Reims. Allir eru þeir sagðir franskir ríkisborgarar. Þeir heita Said Kouachi,  Cherif Koachi og Hamyd Mourad.

Ertu á staðnum? Hafðu samband við Vísi í [email protected].

Síðasta Twitter-færsla tímaritsins fyrir árásina var skopmynd af Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna ISIS. Sjónarvottur í nærliggjandi húsi tók þetta myndband á farsímann af árásarmönnunum fyrir utan skrifstofur Charlie Hedbo. Fjöldi fólks um allan heim vottar fórnarlömbunum virðingu sína á Twitter og merkja færslurnar #CharlieHedbo og #jesuischarlie. Þar birta teiknarar einnig fjöldan allan af skopmyndum til stuðnings tímaritinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×