Tónlist

Fór í sjö blaðaviðtöl í London á einum degi

Fyrsta plata Ólafs hjá Universal, For Now I Am winter, kemur út á mánudaginn.
Fyrsta plata Ólafs hjá Universal, For Now I Am winter, kemur út á mánudaginn. fréttablaðið/stefán
For Now I Am Winter, þriðja hljóðversplata Ólafs Arnalds og sú fyrsta á vegum útgáfurisans Universal, kemur út á mánudaginn.

Aðspurður segist hann ekki finna fyrir auknum þrýstingi í kringum plötuna frá Universal, nema í kynningarmálum. Til að mynda er hann nýkominn frá London þar sem hann fór í sjö viðtöl á einum degi. Hann fer í annan kynningarleiðangur til New York í byrjun mars. „Þetta er svolítið batterí sem maður þarf aðeins að venjast.“

Miklu púðri var eytt í plötuna sem var tekin upp að hluta með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu. Útsetningar voru í höndum Nico Muhly og söngvari rokksveitarinnar Agent Fresco syngur fjögur lög á plötunni. Þetta er í fyrsta sinn sem sungið er á plötu Ólafs.

Hann er sammála því að þetta sé aðgengilegasta platan hans til þessa. „Það er kannski aðallega út af því að það er söngur í nokkrum lögum en hún er líka stærri og elektrónískari og það er aðeins meira að gerast,“ segir Ólafur en tekur fram að ekkert popp sé ferðinni. „Það var meðvitað hjá mér að breyta um stíl en ekkert endilega markmiðið að verða aðgengilegri. Ég er búinn að gera svolítið mikið af músík síðustu árin, bæði plötur og fyrir kvikmyndir. Mér fannst þetta vera orðið svolítið mikið það sama og ég tók meðvitaða ákvörðun um að finna eitthvað nýtt til að maður gæti enduruppgötvað sjálfan sig.“

Ólafur hefur boðið aðdáendum sínum að endurhljóðblanda lag eftir hann á netinu. Núna hefur hann gengið skrefinu lengra því hægt er að ná í lög til niðurhals, breyta þeim og senda í „remix“-keppni. Þau bestu verða gefin út á EP-plötu í gegnum vefsíðuna Spotify. „Það er strax komin nokkur áhugaverð lög,“ segir hann. „Þetta er eitthvað sem ég hefði ekki getað gert án Universal því þetta eru flókin forrit sem kosta örugglega sitt.“ Nýtt myndband með Ólafi við lagið Old Skin er einnig væntanlegt. Leikstjóri var Magnús Leifsson, sem fékk Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir myndband sitt við Glow með Retro Stefson.

Fram undan hjá tónlistarmanninum eru útgáfutónleikar í London, Berlín, New York og Los Angeles þar sem hann spilar með þarlendum sinfóníuhljómsveitum. Að þeim loknum fer hann í þriggja mánaða hefðbundnari tónleikaferð í vor með eigin hljómsveit og heldur svo í annan túr í haust. „Það er svolítið skrítið að hugsa til þess að maður getur ekki lofað sér í neitt fyrr en á næsta ári,“ segir hann léttur.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×