Tíska og hönnun

Útskriftarlínan efst í Vogue-keppninni

Magnea býr á Íslandi um þessar mundir en útilokar ekki að flytja aftur til útlanda í framtíðinni. Fréttablaðið/Anton
Magnea býr á Íslandi um þessar mundir en útilokar ekki að flytja aftur til útlanda í framtíðinni. Fréttablaðið/Anton
Magnea Einarsdóttir er efst í hönnunarkeppni á vegum vefsíðunnar Vogue.it og dönsku vefverslunarinnar Muuse.com. Hún sendi útskriftarlínu sína frá Central St. Martins inn í keppnina, sem nefnist Muuse x Vogue Talents Young Vision Awards 2012.

"Ég kláraði BA-nám frá Central St. Martins í sumar, en þar lærði ég fatahönnun með áherslu á prjón. Ég skráði mig í keppnina í haust ásamt þrjú hundruð öðrum fatahönnuðum og var valin áfram í úrslit af dómnefnd. Þetta er mjög spennandi og það er mikill heiður fyrir mig að hafa verið valin áfram af þessari dómnefnd," útskýrir Magnea.

Tuttugu hönnuðir komust áfram í úrslit og úr þeim hópi verða valdir tveir sigurvegarar. Tískuritstjóri ítalska Vogue, Sara Maino, mun velja annan sigurvegarann úr tíu manna hópi og lesendur Vogue.it munu kjósa um hinn sigurvegarann á netinu. Magnea er í síðari flokknum og sigri hún í keppninni á hún kost á að selja hönnun sína á Muuse.com.

"Síðast þegar ég gáði var ég efst, en það eru enn nokkrir dagar eftir. Kosningunni lýkur ekki fyrr en eftir helgi," segir Magnea en hægt er að taka þátt í kosningunni hér.

Magnea kveðst hafa verið að skoða andstæður þegar hún skapaði útskriftarlínu sína sem er hönnuð úr íslenskri ull og gúmmíi. "Línan er ekki auðveld í framleiðslu, maður á það til að sleppa sér alveg í útskriftarverkefnum, en hún er startpunktur sem ég get unnið með áfram."

Magnea flutti heim til Íslands að námi loknu og vinnur nú að verkefni með vinkonu sinni, sem einnig er fatahönnuður. Hún útilokar þó ekki að flytja aftur út bjóðist henni spennandi vinna eða verkefni í framtíðinni.

"Ég er flutt heim í bili. Ég á lítinn strák sem vildi fá að fara í leikskóla á Íslandi. Tækifærin eru vissulega fleiri úti í London en þar sem ég var ein úti með strákinn ákvað ég að koma heim í svolítinn tíma. Það er dýrt að vera einstæður með barn í London og stuðningsnetið er ekkert. En auðvitað langar mig út og það gæti gerst ef ég fæ einhver spennandi tilboð í framtíðinni."

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×