Tíska og hönnun

Mat og tísku tvinnað saman

Ágústa Margrét Arnardóttir var sjómaður í þrettán ár. Hún skipuleggur viðburðinn Fashion with Flavor sem fram fer á Grand hótel um helgina. Ágústa er á myndinni miðri.mynd/Þormar Vignir Gunnarsson
Ágústa Margrét Arnardóttir var sjómaður í þrettán ár. Hún skipuleggur viðburðinn Fashion with Flavor sem fram fer á Grand hótel um helgina. Ágústa er á myndinni miðri.mynd/Þormar Vignir Gunnarsson
Ágústa Margrét Arnardóttir hönnuður stendur fyrir viðburðinum Fashion with Flavor sem fram fer á Grand hóteli um helgina. Hugmyndin að baki viðburðinum er að sýna fullnýtingu íslenskra hráefna á einstakan hátt.

„Ég fékk hugmyndina fyrst í janúar í fyrra og ákvað að hrinda henni strax í framkvæmd. Fyrstu sýningarnar fóru fram á Hornafirði, Reykholti og í Reykjavík," útskýrir Ágústa Margrét Arnardóttir, skipuleggjandi Fashion with Flavor. Á viðburðinum er tísku, mat og tónlist tvinnað saman á nýstárlegan máta. Ágústa Margrét er jafnframt eigandi og aðalhönnuður hönnunarmerkisins Arfleifðar á Djúpavogi og vinnur einungis með íslenskar afurðir á borð við roð, leður, horn og fjaðrir.

„Ég var sjómaður í þrettán ár og allir í kringum mig eru veiðimenn. Ég hef því óbilandi áhuga á öllu sem tengist nýtingu hráefnisins og hef kynnt mér mjög vel vel hvaðan allt hráefnið sem ég nota kemur og hvernig það er veitt. Ég nota til dæmis engin dýr sem eru alin í búrum," segir Ágústa og bætir við: „Ein starfskonan í Arfleifð er bóndakona og hún mætti of seint til vinnu í dag vegna kindar sem fótbrotnaði. Þetta er því mjög sveitalegur tískubissness."

Á viðburðinum munu fyrirsætur bera fram rétti eftir matreiðslumeistarann Hinrik Carl Ellertsson, klæddar fatnaði úr hreindýra- og lambaleðri eða roði. Greta Salóme sér um undirleik og á tónlistin að ýta enn frekar undir matarupplifun gestanna. Aðspurð segist Ágústa Margrét ekki óttast að sullað verði á flíkurnar. „Ég treysti fyrirsætunum fullkomlega. Í fyrra skvettist reyndar fullur bakki af bláberjalíkjör yfir eina sem var klædd í hvítt leðurpils, en það var hægt að skola litinn úr án vandræða. Þetta er algjört undraefni."

Aðspurð segist hún vilja gera Fashion with Flavor að árlegum viðburði enda hafi kvöldin verið vel sótt og vakið athygli bæði hér heima og erlendis. „Ég á eftir að vinna með öllum þeim hönnuðum sem vinna með ull þannig ég vil að sjálfsögðu halda áfram með þetta. Helst að eilífu," segir hún og hlær.

Miðaverð er 9.900 krónur og innifalið í því verði er fordrykkur og sex rétta matseðill.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×