Erlent

Forseti og þing bjóða herforingjum birginn

Óvissuástand Mohammed Morsi, forseti Egyptalands, sést hér ásamt tveimur meðlimum herforingjaráðsins í gær. Undir yfirborðinu krauma þó deilur. Fréttablaðið/AP
Óvissuástand Mohammed Morsi, forseti Egyptalands, sést hér ásamt tveimur meðlimum herforingjaráðsins í gær. Undir yfirborðinu krauma þó deilur. Fréttablaðið/AP
Hæstiréttur Egyptalands ógilti í gær tilskipun Mohammeds Morsi, forseta landsins, um að egypska þingið verði kallað saman á ný. Rétturinn, sem úrskurðaði nýlega að þingkosningarnar í vetur hefðu verið ólöglegar, sagði Morsi ekki hafa vald til að kalla þingið saman á ný.

Þingið kom saman í gær, en fundur þess stóð aðeins í fimm mínútur og var því aðallega um táknrænan gjörning að ræða.

Mikil togstreita hefur verið á milli Morsis, sem var nýlega kjörinn forseti, og herforingjaráðsins, sem hefur farið með stjórn landsins síðan Hosni Mubarak var steypt af stóli fyrir sautján mánuðum síðan.

Herforingjaráðið leysti þingið upp í síðasta mánuði eftir úrskurð hæstaréttar og tók sér löggjafarvald í staðinn. Þegar Morsi var svo settur í embætti höfðu herforingjarnir dregið mjög úr völdum forseta.

Atburðir gærdagsins undirstrika spennuna sem ríkir í landinu. Herforingjaráðið hyggst verja úrskurð réttarins, en þó kom ekki til átaka þegar þingmennirnir mættu á fundinn í gær.

Á fundinum undirstrikaði forseti þingsins, Saad El-Katatni, að lög landsins yrðu virt, sem og skipting ríkisvaldsins, en hann leitaðist þó eftir því að fá álit áfrýjunardómstóls á úrskurði hæstaréttar.

Mikill órói einkennir daglegt líf í landinu þar sem mótmæli og ofbeldi eru daglegt brauð og efnahagslífið er í mikilli úlfakreppu.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×