Viðskipti erlent

Nýr iPad rokseldist áður en hann lenti á landinu

„Þetta er ekki bara leikjatölva," segir Hörður Ágústsson, framkvæmdastjóri Maclands.

Sala á þriðju kynslóð iPad-spjaldtölvunnar frá Apple hefst í dag. Hundruðir Íslendinga höfðu forpantað tölvuna samkvæmt verslunum Maclands og Epli.is, sem sérhæfa sig í sölu á vörum frá Apple.

Ólafur Sólimann hjá Epli.is segir að áhuginn á tölvunni sé gríðarlegur. „Það er búið að forpanta slatta, einhver 200 stykki. Við hættum að taka við forpöntunum fyrir viku. Við vorum hræddir um að allt myndi klárast og við gætum ekki selt neitt," segir hann.

Ólafur segir að áhuginn sé talsvert meiri nú, en þegar fyrsta kynslóð iPad var sett á markað fyrir tveimur árum. „Það er meira í kringum þetta. Fólk veit meira um hvað er á leiðinni. Það eru fleiri forpantanir. Fólk þarf ekki að koma og skoða."

Hörður Ágústsson, framkvæmdastjóri Maclands, tekur undir það og segir fólk byrjað að skilja græjuna betur. „Ég skildi tölvuna ekki fyrst, hélt að þetta væri einhver grínvara eða stór iPhone. Ég hélt að hann væri klikkaður hann Steve Jobs. Svo kom iPad 2 og þá fór ég að skilja þetta betur. Notagildið er alltaf að aukast," segir Hörður.

Sala á nýju iPad-spjaldtölvunni hófst um síðastu helgi í Bandaríkjunum og níu öðrum löndum, þar á meðal Ástralínu, Kanada, Frakklandi og Japan. Þrjár milljónir eintaka seldust á aðeins þremur dögum. Takmarkað magn af tölvunni barst til verslana hér á landi og þær virðast ætla að seljast upp áður en dagurinn er liðinn. Tugir iPad-spjaldtölva voru til að mynda pantaðar hjá Maclandi áður en tölvan kom til landsins, svo mikið að hún seldist hreinlega upp.

„Við seldum meira í forsölu en við fengum," segir hann. „Ef það verður eitthvað afgangs, sem mér finnst mjög ólíklegt, þá verður það selt."

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×