Tónlist

Lætur ekkert stoppa sig þegar Kiss er annars vegar

Þráinn Árni Baldvinsson heldur á þremur útgáfum af sömu Kiss-plötunni, nema hvað að ein er frá Argentínu, önnur frá Ástralíu og sú þriðja frá Þýskalandi.
Þráinn Árni Baldvinsson heldur á þremur útgáfum af sömu Kiss-plötunni, nema hvað að ein er frá Argentínu, önnur frá Ástralíu og sú þriðja frá Þýskalandi. fréttablaðið/stefán
Þráinn Árni Baldvinsson, gítarleikari Skálmaldar, er með sérstakt rokkherbergi heima hjá sér. Þar fær árátta hans tengd hljómsveitinni Kiss að njóta sín.

Heimili Þráinn Árni Baldvinsson, gítarleikari Skálmaldar, nýtur þeirra forréttinda að vera með rokkherbergi heima hjá sér. Í því eru geisladiskar, vínylplötur og alls kyns munir tengdir uppáhaldshljómsveitum hans Kiss, Iron Maiden og Metallica en aðallega þó Kiss.

„Við flytjum inn í þessa íbúð 2007. Ég var með svo mikið dót sem var búið að fylgja mér í gegnum tíðina að konan vissi alveg að hverju hún var að ganga þegar við byrjuðum að hittast nokkrum árum áður,“ segir Þráinn. „Þannig að það var allan tímann á hreinu að þetta yrði herbergi fyrir þetta drasl. Svo er konan líka mikill tónlistaráhugamaður, þótt hún sé í allt öðrum geira. Hún kemur hérna inn og setur Sinéad O"Connor á fóninn, þannig að þetta er samvinnuverkefni.“

Þegar Þráinn er ekki að hlusta á tónlist í herberginu æfir hann sig á gítarinn. Spurður út í andrúmsloftið í rokkrýminu segir hann það mjög gott. „Ég er búinn að spyrja nágranna mína hvort þetta trufli þá eitthvað og einn sagði að ég ætti nú bara að hækka heldur en hitt, þannig að þetta er alveg dásamlegt.“

Hann hefur alla tíð verið mikill aðdáandi Kiss og hefur safnað ýmsum munum tengdum sveitinni í gegnum árin, þar á meðal árituðum plötum, Paul Stanley-hasarfígúrum og árituðum myndum. Hann er meira að segja með Kiss-nestisbox uppi á hillu sem að sjálfsögðu verður aldrei notað.

„Ég var heilaþveginn af Kiss þegar ég var lítill og man ekki eftir mér öðruvísi. Frændi minn var mikill Kiss-aðdáandi og eftirlét mér allt sitt plakatasafn á sínum tíma,“ segir hinn 35 ára Þráinn, sem sá goðin sín fyrst á tónleikum þegar hann var tólf ára. „Söfnunaráráttan er fyrst og fremst vínyl-„geðveiki“ og þar læt ég ekkert stoppa mig þegar kemur að Kiss.“

Sem dæmi á hann plötuna Lick It Up í mörgum mismunandi útgáfum, þar á meðal innsiglaðri, mexíkóskri og japanskri. Síðustu Kiss-plötu, Sonic Boom, keypti hann í tveimur vínylútgáfum, á geisladiski, á geisla- og mynddiski og í japanskri útgáfu. Hann kaupir einnig allar sólóplötur meðlima Kiss, þar á meðal trommuleikarans Peters Kriss. „Þær eru allar alveg hræðilegar, hundleiðinlegt djassað rugl en ég kaupi þær samt.“ Samanlagt eru Kiss-titlarnir í herberginu orðnir hátt í eitt þúsund talsins.

Þrátt fyrir aðdáun hans á Kiss segist hann ekki viss um hvort hægt sé að falla fyrir hljómsveitinni á fullorðinsárum. „Þetta er svo mikill partur af því að alast upp. Allar plöturnar eru eins og tímavélar fyrir mann,“ segir hann og telur þetta ekki verra áhugamál til dæmis golf. Hann á einmitt erfitt með að skilja hvers vegna menn ákveða á einhverjum tímapunkti að hætta að hlusta á uppáhaldstónlistina sína. „Mér finnst það léleg afsökun að einhver haldi að hann þurfi að fullorðnast. Það er bara rugl. Menn eiga að vera heilir í sínu og hafa gaman að þessu. En ég er fyrstur til að viðurkenna að þetta er bara klikkun.“[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×