Tónlist

Nancy Sinatra nútímans

Lana Del Rey er söngkonan með dimmu röddina sem er að slá í gegn um þessar mundir með laginu Video Games. Fáir vita að hún hefur áður reynt fyrir sér í tónlistarbransanum og er dóttir milljarðamærings.

Fáir hafa heyrt nafn Lönu Del Rey en fleiri hafa hins vegar heyrt lag hennar Video Games oftar en einu sinni á öldum ljósvakans upp á síðkastið. Lagið hefur slegið í gegn og tæplega tvær milljónir hlustað á myndbandið á You Tube.

Í nóvember á þessu ári hélt Lana Del Rey sína fyrstu tónleika í Bretlandi og seldist upp á þá á nokkrum mínútum.

Með Kurt Cobain, Thomas Newman og Bruce Springsteen sem sínar tónlistarfyrirmyndir vill Lana del Rey láta kalla sig Nancy Sinatra nútímans.

Lana Del Rey heitir í raun Elizabeth Grant en hún hefur viðurkennt að listamannsnafnið var búið til af umboðsmönnum hennar til að selja fleiri plötur.

Hún reyndi að koma sér á framfæri árið 2009 í poppbransanum en það mistókst og í ár sneri hún aftur með nýja ímynd. Meira hár, þykkari varir, betri lög og klæddí anda sjöunda áratugarins.

Lana Del Rey er fædd og uppalin í New York og dóttir milljarðamæringsins Robs Grant, en sá bakgrunnur hefur valdið ímynd hennar nokkrum skaða enda skiptar skoðanir um hvort söngkonan hafi einfaldlega borgað sig áfram í tónlistarbransanum. En það verður ekki um það deilt að lagið Video Games er eitt af lögum ársins og nýjasta lag hennar, Born to Die, á eftir að klifra hátt upp listana á næstu vikum. Það bendir allt til þess að Lana Del Rey eigi eftir að fá nokkur tónlistarverðlaunin árið 2012.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×