Tónlist

Tónleikaplötu Sigur Rósar vel tekið

Kvikmyndin Inni er svarthvít og henni er leikstýrt af Vincent Morisset.
Kvikmyndin Inni er svarthvít og henni er leikstýrt af Vincent Morisset.
Fyrsta tónleikaplata Sigur Rósar er komin út. Platan hefur hlotið góðar viðtökur gagnrýnenda helstu tónlistartímarita heims. Sigur Rós hefur sent frá sér tónleikapakkann INNI. Í pakkanum má finna tvöfalda tónleikaplötu sem var tekin upp á tónleikum hljómsveitarinnar í Alexöndruhöll í Lundúnum í nóvember árið 2008, þá fyrstu sem hljómsveitin sendir frá sér ásamt mynd eftir Vincent Morisset um sömu tónleika.

Pakkinn kemur út í ýmsum útgáfum, á DVD, Blu-Ray, stafrænt og að sjálfsögðu á geisladiskum. Viðhafnarútgáfan fæst í gegnum vefsíðu Sigur Rósar og er aðeins seld í 6.996 eintökum, eða jafnmörgum eintökum og hægt var að búta niður sviðsfatnaðinn þeirra frá tónleikaferðinni sem fylgdi eftir Með suð í eyrum við spilum endalaust. Einn bútur fylgir hverjum pakka.

Gagnrýndur helstu tónlistartímarita heims hafa verið almennt sáttir með útgáfuna. Platan fær 75 af 100 mögulegum í meðaleinkunn á vefsíðunni Metacritic.com, sem tekur saman dóma ýmissa gagnrýnenda og fjölmiðla.

Gagnrýnandi breska tónlistarblaðsins Clash gefur pakkanum átta af tíu mögulegum og segir lögin hljóma hrá án strengjasveitarinnar Amiinu og að ákefð meðlima Sigur Rósar keyri þau áfram. Þá segir hann að lokalag plötunnar Lúppulagið, sem hefur ekki komið út áður, sé ánægjuleg viðbót en ekki ástæða ein og sér til að kaupa. „Stórkostlegur flutningar laganna, sem eru af öllum fimm breiðskífum hljómsveitarinnar, er góð ástæða til að næla sér í eintak,“ segir hann í niðurlagi gagnrýni sinnar.

Gagnrýnandi tímaritsins Spin er einnig sáttur og gefur pakkanum sjö af tíu mögulegum. Hann er þó ánægðastur með að fá nýtt lag í Lúppulaginu og bætir við að það sé góður endahnykkur og enda gott lag.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×