Erlent

Papademos leiðir Grikki

Verður forsætisráðherra Lúkas Papademos og þriggja flokka bráðabirgðastjórn hans taka formlega við völdum í dag.nordicphotos/AFP
Verður forsætisráðherra Lúkas Papademos og þriggja flokka bráðabirgðastjórn hans taka formlega við völdum í dag.nordicphotos/AFP
„Ég er ekki stjórnmálamaður en ég hef varið megninu af starfsævi minni í að hrinda í framkvæmd efnahagsstefnu stjórnvalda bæði í Grikklandi og Evrópu,“ sagði Lúkas Papademos, sem í dag tekur við embætti forsætisráðherra Grikklands af Georg Papandreú.

Hann fær nú það erfiða verkefni að hrinda í framkvæmd óvinsælum aðhaldsaðgerðum sem fylgja björgunarpakka Evrópusambandsins. Stjórn Papandreús hraktist frá völdum ekki síst vegna þess að henni tókst ekki að ná samstöðu á þingi um þessar sömu aðhaldsaðgerðir, en nú er forysta stjórnarandstöðunnar komin til liðs við stjórnina og ætlar að tryggja framgang þeirra.

Papademos segist ætla að leggja alla áherslu á að halda Grikklandi áfram inni á evrusvæðinu.

„Þátttaka lands okkar í evrusvæðinu tryggir peningalegan stöðugleika landsins,“ sagði hann í gær og bætti því við að evran myndi auðvelda aðlögun gríska hagkerfisins andspænis þeim erfiðleikum sem enn blöstu við.

Papademos verður forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar þriggja flokka af hægri og vinstri væng stjórnmálanna, sósíalistaflokksins Pasok, íhaldsflokksins Nýs lýðræðis, og lítils þjóðernisflokks af hægri vængnum sem nefnist Laos.

Leiðtogar þessara þriggja flokka hafa átt erfitt með að komast að samkomulagi um það hver verði forsætisráðherra, en niðurstaðan varð sú að Papademos yrði fyrir valinu.

Papademos var seðlabankastjóri Grikklands frá 1994 til 2002, en þá tók hann við sem aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Evrópusambandsins. Því starfi gegndi hann þangað til á síðasta ári, þegar Papandreú kallaði hann heim til að aðstoða sig við glímuna við ríkisskuldirnar.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×