Tónlist

Mömmuvænt alþýðupopp í Þjóðleikhúskjallaranum

Meðlimir 1860 eru þrír en hljóðfærin sem þeir spila á eru töluvert fleiri. Þeir hafa vakið athygli á tónleikum fyrir snerpu í hljóðfæraskiptum í miðjum lögum. Frá vinstri eru þeir Kristján, Hlynur og Óttar.
Meðlimir 1860 eru þrír en hljóðfærin sem þeir spila á eru töluvert fleiri. Þeir hafa vakið athygli á tónleikum fyrir snerpu í hljóðfæraskiptum í miðjum lögum. Frá vinstri eru þeir Kristján, Hlynur og Óttar. frettablaðið/anton
Tríóið 1860 tók til starfa fyrir réttu ári en hefur þegar látið frá sér sína fyrstu breiðskífu, sem kallast Sagan. Hljómsveitin spilar þjóðlagaskotið popp sem fengið hefur góðar viðtökur hjá landanum. Útgáfutónleikar verða haldnir í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld klukkan 22.

„Við Óttar erum æskuvinir og höfum spilað í hinum ýmsu hljómsveitum saman. Við vorum farnir að prófa okkur eitthvað áfram tveir saman, en Óttar sá svo Kidda spila á harmonikku eitthvert kvöldið fyrir rúmu ári og sá að þarna var komið hljóðfærið sem vantaði til að fullkomna okkar hljóm. Þetta byrjaði svo að blómstra um leið og við vorum komnir þrír saman,“ segir Hlynur Júní Hallgrímsson, söngvari sveitarinnar. Auk Hlyns skipa 1860 þeir Óttar Birgisson gítarleikari og Kristján Hrannar Pálsson píanóleikari.

1860 vakti athygli strax frá upphafi því hljómsveitarmeðlimir notuðu sér nútímatækni til að koma sér á framfæri. Þeir byrjuðu strax á því að deila lögunum sínum á samskiptavefnum Youtube. „Við gerðum þetta aðallega fyrir vini okkar til að byrja með en allt í einu hafði einhver linkað á myndband með okkur á einhverjum vinsælum heimasíðum og við komnir með einhver þúsund áhorf á myndband sem var aðallega hugsað fyrir litlu systur, mömmu og ömmu. Það er auðvitað skemmtilegt að geta deilt þessu en þetta vatt upp á sig og við fengum svona smá meðbyr.“

Aðdáendahópur sveitarinnar er því ekki eingöngu bundinn við Ísland og nú þegar hefur fólk hvaðanæva að úr heiminum deilt myndböndum á vefnum þar sem það syngur og spilar sínar útgáfu af lögum sveitarinnar. „Tónlistin okkar á sér eiginlega sjálfstætt líf á Youtube, því oft settum við fyrstu útgáfur af lögum á vefinn, en breyttum síðar hljómagangi eða öðru. Svo sjáum við samt einhvern frá Bandaríkjunum flytja lag með okkur eins og það var bara eftir fyrstu æfingu.“

Bandarískir aðdáendur sveitarinnar munu fá tækifæri til að kynnast sveitinni betur strax eftir áramót því í næstu viku lýkur upptökum á EP-plötu sem sveitin gefur út vestanhafs. Það er fyrirtækið sem sér um sænska listamanninn Tallest Man on Earth sem sér um útgáfuna, en eigandi fyrirtækisins komst einmitt í kynni við bandið þegar hann rakst á myndband sveitarinnar á Youtube.

Tónlist 1860 hefur verið mikið spiluð í útvarpi og fyrsta smáskífa plötunnar, Snæfellsnes, sat meðal annars í öðru sæti vinsældarlista Rásar 2 í sumar. Hlynur segir þá félaga hæstánægða með hversu breiður áheyrendahópurinn er. „Maður gerði ráð fyrir því að tónlistin myndi höfða til fólks á sama aldri og maður sjálfur er, en það kom okkur aðeins á óvart að krakkar sem eru talsvert yngri en við eru að fíla þetta og svo eru vinkonur ömmu minnar heitustu aðdáendur okkar.“

Hlynur hvetur fólk til að leggja leið sína í Þjóðleikhúskjallarann í kvöld. „Ef fólk ætlar að mæta á eina tónleika með okkur á lífsleiðinni þá held ég að þetta verði að vera þeir. Við verðum þarna með heilan her af fagfólki með okkur, þetta verður eitthvað alveg sérstakt.“

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×