Erlent

Landbúnaðarstefna ESB endurskoðuð

Dacian Ciolos Landbúnaðar- og byggðaþróunarstjóri Evrópusambandsins kynnti fyrstu drögin að nýrri landbúnaðarstefnu.fréttablaðið/AP
Dacian Ciolos Landbúnaðar- og byggðaþróunarstjóri Evrópusambandsins kynnti fyrstu drögin að nýrri landbúnaðarstefnu.fréttablaðið/AP
Bændur, umhverfissinnar og jafnvel Sameinuðu þjóðirnar gagnrýndu strax í gær fyrstu drög framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að nýrri landbúnaðarstefnu, sama daginn og þessi drög voru kynnt.

Evrópusambandið ver árlega helmingi fjárlaga sinna, eða jafnvirði nærri 8.500 milljörðum króna, í rekstur landbúnaðarkerfis sem nú á að endurskoða í heild sinni fyrir árið 2013.

Dacian Ciolos, sem fer með landbúnaðar- og byggðaþróunarmál í framkvæmdastjórninni, sagði helstu markmið breytinganna vera þau, að landbúnaðurinn í Evrópusambandsríkjunum yrði bæði umhverfisvænni og skilvirkari auk þess sem sýna þyrfti bændum í nýju aðildarríkjunum í Austur- og Mið-Evrópu meiri sanngirni í styrkveitingum og öðrum stuðningi við þá.

Meðal annars verða styrkir til bænda markvissari, tengdir skilyrðum í auknum mæli og beint frekar til bænda í ríkjum sem til þessa hafa styrkt bændur minna en önnur ríki.

Meðal nýjunga í drögunum eru hugmyndir um að ungir bændur, sem eru að hefja búskap, fái sérstaka styrki fyrstu fimm búskaparárin. Einnig eru í drögunum áform um að taka betur tillit til búskapar á harðbýlum svæðum með því að veita þeim viðbótarstyrki umfram þá, sem þeim standa nú þegar til boða.

Fyrstu viðbrögð evrópskra bænda voru þau að nýju tillögurnar legðu á þá meiri kvaðir um óþarfa skriffinnsku, auk þess sem þeir eru óánægðir með að draga eigi úr framleiðslu þrátt fyrir að heimseftirspurn eftir landbúnaðarvörum vaxi stöðugt.

Umhverfisverndarsinnar gagnrýna hins vegar drögin á þeim forsendum, að þau gangi ekki nógu langt í þá áttina að vernda náttúruna og bregðast við loftslagsbreytingum.

Þá segir matvælasérfræðingur frá Sameinuðu þjóðunum að þessi nýja landbúnaðarstefna ESB muni áfram skekkja heimsmarkaðinn vegna þess að styrkir til bænda geri þeim kleift að selja afurðir sínar undir kostnaðarverði, sem bitnar á bændum í fátækari ríkjum jarðar.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×