Viðskipti erlent

Boða breytingar á evrusvæði

Sarkozy og Merkel segja að nánar verði gert grein fyrir samkomulagi um endurfjármögnun bankakerfis evrusvæðisins í lok mánaðarins.nordicphotos/afp
Sarkozy og Merkel segja að nánar verði gert grein fyrir samkomulagi um endurfjármögnun bankakerfis evrusvæðisins í lok mánaðarins.nordicphotos/afp
Angela Merkel og Nicolas Sarkozy, leiðtogar Þýskalands og Frakklands, munu mæla fyrir „mikilvægum breytingum“ á stjórnun evrusvæðisins.

Þetta kom fram á sameiginlegum blaðamannafundi Merkel og Sarkozy eftir fund þeirra um skuldavanda evruríkjanna í Berlín í gær.

Leiðtogarnir sögðust einnig hafa náð samkomulagi um endurfjármögnun bankakerfis evrusvæðisins, sem fæli í sér alþjóðlega lausn, en jafnframt að samkomulagið yrði ekki kynnt nánar fyrr en í lok október.

Hingað til hafa Frakkar viljað nota neyðarsjóð evruríkjanna til að endurfjármagna franska banka. Þjóðverjar hafa hins vegar einungis viljað nota sjóðinn í algjörri neyð, en talið er að hundrað til tvö hundruð milljarða evra þurfi til að endurfjármagna evrópska banka.

Aukin samþætting evru-svæðisins er mikilvæg að sögn Sarkozy.

Merkel segir eitt helsta markmiðið að koma á nánara og meira skuldbindandi samstarfi meðal ríkja á evru-svæðinu svo hægt sé að komast hjá umframeyðslu. Nauðsynlegt sé að lausn finnist á þeim vandamálum sem steðja að Evrópu fyrir fund helstu leiðtoga Evrópu í Brussel síðar í mánuðinum.

Einnig er talið að leiðtogarnir hafi rætt skuldavanda Grikklands og málefni fransk-belgíska bankans Dexia á fundi sínum. Fyrr um daginn höfðu stjórnvöld í Belgíu, Frakklandi og Lúxemborg tilkynnt að samkomulag hefði náðst um að skipta bankanum upp, en hann er fyrsta fórnarlamb skuldakreppunnar á evrusvæðinu. Í sameiginlegri yfirlýsingu forsætisráðherra ríkjanna kom fram að samkomulagið yrði lagt fyrir stjórn Dexia til samþykktar, en stjórn bankans átti að funda seint í gær.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×