Erlent

Samstaða um að koma Gaddafí frá

Þung á brún David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fjölmennum ráðherrafundi í Lundúnum í gær. Meðal þátttakenda á fundinum var Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.fréttablaðið/AP
Þung á brún David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fjölmennum ráðherrafundi í Lundúnum í gær. Meðal þátttakenda á fundinum var Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.fréttablaðið/AP
„Það er engin framtíð lengur fyrir Líbíu með Gaddafí við stjórnvölinn,“ sagði William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, að lokinni alþjóðlegri ráðstefnu í Lundúnum um hernaðaraðgerðirnar í Líbíu.

Á fundinum í Lundúnum var samþykkt að halda áfram loftárásum á liðsmenn Gaddafís og fylgja eftir loftferðabanni og vopnasölubanni, ásamt því að þrýsta á Gaddafí að láta undan uppreisnarmönnum.

„Gaddafí hefur enn ekki látið af völdum, og þangað til hann gerir það verður Líbía hættulegur staður,“ sagði Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að fundinum loknum.

Á fundinum voru utanríkisráðherrar næstum því fjörutíu ríkja, þar á meðal NATO-ríkjanna og aðildarríkja Arababandalagsins, ásamt Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO, Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Catherine Ashton, utanríkismálafulltrúa Evrópusambandsins, og Hesham Youssef, fulltrúa Arababandalagsins.

„Við vorum öll sammála um að Gaddafí og stjórn hans hefðu glatað öllu réttmæti og yrðu dregin til ábyrgðar vegna gerða sinna,“ sagði Hague, ánægður með að samstaða hefði verið svona mikil.

Þrátt fyrir það berast enn misvísandi yfirlýsingar um markmið árásanna og enn virðist óljóst hver verkaskipting eigi að vera með Bandaríkjunum, NATO og einstaka aðildarríkjum NATO um bæði yfirstjórn og framkvæmd árásanna.

Barack Obama Bandaríkjaforseti notaði ávarp sitt til þjóðarinnar á mánudagskvöld til að réttlæta þátttöku Bandaríkjamanna í aðgerðunum í Líbíu.

„Hernaðaraðgerðir okkar hafa það þrönga markmið að bjarga mannslífum,“ sagði hann, en sagðist þó ætla að taka þátt með öðrum ríkjum í því að beita Gaddafí þrýstingi í von um að hann léti af völdum.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×