Hatrið er hitaeiningasnautt Jón Kaldal skrifar 11. október 2008 18:00 Einhver versta vika lýðveldistímans er nú að baki. Þótt lítil glæta virðist vera þessa dimmu daga, getum við að minnsta kosti huggað okkur við að það var fjármálakreppa sem reið yfir landið en ekki svartidauði, stórabóla eða móðuharðindi eins og forðfeður okkar þurftu að glíma við. Ísland hefur verið í heimspressunni sleitulaust síðastliðna viku. Og fréttirnar hafa verið svartar. Allnokkur ár eru þó liðin frá því að fjármálalíf landsins beindi forvitni umheimsins að okkur. Sú umfjöllun þróaðist eitthvað á þessa leið: Fyrst vöktu miklir sigrar íslenskra banka og athafnamanna í útlöndum athygli og jafnvel aðdáun. Næst vöknuðu spurningar um hvernig þessi fámenna þjóð á hjara veraldar færi eiginlega að þessu? Þeim spurningum fylgdi vænn skammtur af tortryggni. Þegar hin alþjóðlega lánsfjárkreppa fór að hríslast um fjármálakerfi heimsins kom að þriðja kafla athyglinnar. Og það spratt ekki af góðu. Umsvif íslenskra banka voru orðin svo mikil miðað við baklandið, að afdrif þeirra í lánsfjárkreppunni þóttu geta orðið ákveðin vísibending um hvernig efnahag fjölmargra annarra landa myndi reiða af. Það var jafnvel talað um íslenska bankakerfið sem kanarífuglinn í búrinu í námugöngunum; ef fuglinn lifði væri öðrum óhætt. Við vitum öll hvernig fór fyrir bönkunum. Og því miður bendir flest til þess að útlendir áhugamenn um örlög íslenska bankakerfisins hafi haft rétt fyrir sér. Aðrar þjóðir eru alls ekki óhultar. Eftir lokun markaða í gær beggja vegna Atlantshafsins, og víðar, liggur fyrir að stór hluti heimsins er á bjargbrún mestu efnahagskreppu seinni tíma. Gríðarleg umræða er þegar hafin um hverjir bera ábyrgð á hruninu og þeim þrengingum sem eru framundan. Sú umræða einskorðast ekki við Ísland. Hér á landi dynja þung orð á stjórnmálamönnum, bankamönnum og umsvifamiklum athafnamönnum. Það eru ekki ýkjur að nota orð eins og hatur í því samhengi. Að nefna sökudólgana og hella blóðugum skömmum yfir þá er vissulega ákveðinn þáttur þeirrar umræðu sem þarf að fara fram. En sá partur umræðunnar mun örugglega ekki færa okkur þau svör sem við þurfum mest á að halda núna. Það er bráðamál fyrir samfélagið að við eyðum sem mestu af okkar kröftum til að bjarga sem flestum úr þeim eldum sem brenna. Það þarf að gerast hratt og af eins mikilli yfirvegun og er möguleg. Það þarf líka að hefja nú þegar umræðu um hvernig við ætlum að byggja upp athafnalíf landsins á nýjan leik. Það er risavaxið verkefni sem þolir ekki bið. Við skulum gæta okkur á því að það eru engar hitaeiningar í hatrinu. Við munum ekki éta það þegar á reynir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Vonin er vonarstjarna sálfræðinnar Sigurvin Lárus Jónsson Skoðun Mikilvæg „ófemínísk“ tillaga og fleira gott Hildur Sverrisdóttir Skoðun Kjósum Lilju Dögg Alfreðsdóttur á Alþingi Andri Björn Róbertsson Skoðun Samfélag fyrir okkur öll Alexandra Briem Skoðun „Hvenær var þetta samtal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn Halla Hrund Logadóttir Skoðun Reddarinn Geiri í Glaumbæ - gömul saga og ný Jakob Frímann Magnússon Skoðun Nærsýni afinn og baunabyssan Ragnar Þór Pétursson Skoðun Opið bréf til Bjarna Benediktssonar: Bruninn á Stuðlum: Hver ber ábyrgð? Anna María Ingveldur Larsen Skoðun Ríkið sviptir 30.400 manns grundvallarréttindum sínum Yngvi Sighvatsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun
Einhver versta vika lýðveldistímans er nú að baki. Þótt lítil glæta virðist vera þessa dimmu daga, getum við að minnsta kosti huggað okkur við að það var fjármálakreppa sem reið yfir landið en ekki svartidauði, stórabóla eða móðuharðindi eins og forðfeður okkar þurftu að glíma við. Ísland hefur verið í heimspressunni sleitulaust síðastliðna viku. Og fréttirnar hafa verið svartar. Allnokkur ár eru þó liðin frá því að fjármálalíf landsins beindi forvitni umheimsins að okkur. Sú umfjöllun þróaðist eitthvað á þessa leið: Fyrst vöktu miklir sigrar íslenskra banka og athafnamanna í útlöndum athygli og jafnvel aðdáun. Næst vöknuðu spurningar um hvernig þessi fámenna þjóð á hjara veraldar færi eiginlega að þessu? Þeim spurningum fylgdi vænn skammtur af tortryggni. Þegar hin alþjóðlega lánsfjárkreppa fór að hríslast um fjármálakerfi heimsins kom að þriðja kafla athyglinnar. Og það spratt ekki af góðu. Umsvif íslenskra banka voru orðin svo mikil miðað við baklandið, að afdrif þeirra í lánsfjárkreppunni þóttu geta orðið ákveðin vísibending um hvernig efnahag fjölmargra annarra landa myndi reiða af. Það var jafnvel talað um íslenska bankakerfið sem kanarífuglinn í búrinu í námugöngunum; ef fuglinn lifði væri öðrum óhætt. Við vitum öll hvernig fór fyrir bönkunum. Og því miður bendir flest til þess að útlendir áhugamenn um örlög íslenska bankakerfisins hafi haft rétt fyrir sér. Aðrar þjóðir eru alls ekki óhultar. Eftir lokun markaða í gær beggja vegna Atlantshafsins, og víðar, liggur fyrir að stór hluti heimsins er á bjargbrún mestu efnahagskreppu seinni tíma. Gríðarleg umræða er þegar hafin um hverjir bera ábyrgð á hruninu og þeim þrengingum sem eru framundan. Sú umræða einskorðast ekki við Ísland. Hér á landi dynja þung orð á stjórnmálamönnum, bankamönnum og umsvifamiklum athafnamönnum. Það eru ekki ýkjur að nota orð eins og hatur í því samhengi. Að nefna sökudólgana og hella blóðugum skömmum yfir þá er vissulega ákveðinn þáttur þeirrar umræðu sem þarf að fara fram. En sá partur umræðunnar mun örugglega ekki færa okkur þau svör sem við þurfum mest á að halda núna. Það er bráðamál fyrir samfélagið að við eyðum sem mestu af okkar kröftum til að bjarga sem flestum úr þeim eldum sem brenna. Það þarf að gerast hratt og af eins mikilli yfirvegun og er möguleg. Það þarf líka að hefja nú þegar umræðu um hvernig við ætlum að byggja upp athafnalíf landsins á nýjan leik. Það er risavaxið verkefni sem þolir ekki bið. Við skulum gæta okkur á því að það eru engar hitaeiningar í hatrinu. Við munum ekki éta það þegar á reynir.
Opið bréf til Bjarna Benediktssonar: Bruninn á Stuðlum: Hver ber ábyrgð? Anna María Ingveldur Larsen Skoðun
Opið bréf til Bjarna Benediktssonar: Bruninn á Stuðlum: Hver ber ábyrgð? Anna María Ingveldur Larsen Skoðun