Handbolti

„Varnar­leikurinn var skelfi­legur”

Hinrik Wöhler skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var allt annað en sáttur með varnarleikinn í Úlfarsárdal í kvöld.
Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var allt annað en sáttur með varnarleikinn í Úlfarsárdal í kvöld. Vísir/Anton Brink

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var niðurlútur eftir tap á móti Fram í Úlfarsárdal í kvöld. Þeim gekk illa að stöðva sóknarmenn Fram og var Ásgeir Örn virkilega óánægður með varnarleik liðsins.

„Við erum hundsvekktir. Þetta voru mikil vonbrigði og bara heilt yfir var þetta virkilega slakur leikur af okkar hálfu. Varnarleikurinn var skelfilegur, ekkert flóknara en það. Að fá á sig 21 mark í síðari hálfleik, það er rosa erfitt að vinna leiki þannig,“ sagði Ásgeir Örn.

Þjálfarinn vildi sjá mun meiri baráttu hjá sínum mönnum og Framarar nýttu sér andleysi Hafnfirðinga.

„Þeir gerðu þetta vel og ekkert af þeim tekið. Ég vil bara að mínir menn geri betur og vona að þeir verða tilbúnir í baráttuna. Það voru engin fríköst, engin ákefð og ekki rassgat að gerast hjá okkur. Fram er gott lið og gekk á lagið, þeir gerðu sitt vel.“

Þrátt fyrir að taka leikhlé snemma leiks þá gekk lítið að blása eldmóð í liðsmenn Hauka. Ásgeir var sáttur með að komast inn í leikinn undir lok fyrri hálfleiks en Haukar gáfu eftir þegar þeir mættu að nýju út í síðari hálfleik.

„Fórum yfir það sem við erum búnir að tala um sem gekk í gegnum allan leikinn. Við vorum ógeðslega „soft“ og vorum ekki að mæta þeim. Það var engin pressa á skotmennina og ég var ánægður með það sem gerðist eftir það. Við jöfnum í 10-10 og svo var 16-16 í hálfleik og það var allt í lagi. Í staðinn fyrir að gefa í þá gefum við eftir varnarlega,“ sagði Ásgeir um leik liðsins í kvöld.

Hann gat tekið fátt jákvætt út úr leik liðsins í kvöld og var stuttorður er hann var spurður út í það.

„Örugglega eitthvað en mér dettur ekkert í hug núna,“ sagði Ásgeir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×