Innlent

Grunaður um að hafa orðið stúlku á grunn­skóla­aldri að bana

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn var handtekinn í Krýsuvík.
Maðurinn var handtekinn í Krýsuvík. Stöð 2/Egill

Karlmaður er í haldi lögreglu grunaður um að hafa orðið stúlku að bana. Stúlkan var á grunnskólaaldri samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Karlmaðurinn var handtekinn í Krýsuvík um kvöldmatarleytið í gær.

Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu.

Grímur segir að rannsókn málsins sé á frumstigi og að enn eigi eftir að ákveða hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim grunaða.

Í frétt Ríkisútvarpsins er haft eftir heimildum að hinn grunaði hafi hringt sjálfur á lögreglu og tilkynnt andlátið. Grímur kveðst ekki geta staðfest það.

Að sögn Helenu Rósar Sturludóttur, upplýsingafulltrúa Ríkislögreglustjóra, aðstoðaði sérsveit Ríkislögreglustjóra Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í útkallinu.


Veistu meira um málið? Fréttastofa tekur við ábendingum á netfangið [email protected]. Fullum trúnaði er heitið.


Að neðan má sjá tilkynningu frá lögreglu vegna málsins á tíunda tímanum í morgun:

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með til rannsóknar andlát stúlku á grunnskólaaldri.  Tilkynnt var um málið um kvöldmatarleytið í gær og í kjölfarið var einn handtekinn í tengslum við það.  Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki verða veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×