Innlent

Grunur um inn­flutning á fíkni­efnum kviknaði við eftir­lit

Lovísa Arnardóttir og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Lögreglan var við höfnina á Höfn í gær. Myndin er úr safni.
Lögreglan var við höfnina á Höfn í gær. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Sérsveit ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslan komu að umfangsmikilli lögregluaðgerð á Höfn í Hornafirði í gær. Samkvæmt heimildum fréttastofu tengist málið fíkniefnum. 

Lögreglan á Suðurlandi hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins. Í henni segir að við tollaeftirlit lögreglu á Höfn í Hornafirði í gær hafi vaknað grunsemdir lögreglumanna um refsiverða háttsemi sem tengist fíkniefnum. Lögegla hafi fengið aðstoð frá tollgæslunni og miðlægri rannsóknardeild til að skoða málið frekar.

Þá segir að rannsóknin sé skammt á veg komin, og að ekki sé unnt að skýra frekar frá málinu að svo stöddu. Ekki kemur fram hvort einhver yfir höfuð eða þá hversu margir hafi verið handteknir í aðgerðunum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæði forræði yfir málinu. Það er svo umfangsmikið að sérsveit ríkislögreglustjóra, lögreglufólk af Suðurlandi og þyrla Landhelgisgæslunnar kom að því.

Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar staðfestir að Gæslan hafi unnið að verkefni með lögreglu á staðnum í gær. Helena Rós Sturludóttir upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra staðfestir að sérsveitin hafi komið að aðgerðum sömuleiðis.


Veistu meira um málið? Ertu með myndir af vettvangi? Fréttastofa tekur við ábendingum á netfangið [email protected].


Fjallað var um málið á vef mbl.is í gær en þar kom fram að málið tengdist báti sem kom til Hafnar í gær og að nokkrir lögreglumenn hefðu verið við smábátahöfnina á Höfn í gær. Mbl flutti frétt af málinu sem virðist hafa verið sögð á viðkvæmum tímapunkti því fréttin var fjarlægð af vefnum að beiðni lögreglunnar.

Ekki hefur náðst í Grím Grímsson, yfirmann miðlægrar rannsóknardeildar, það sem af er degi þrátt fyrir endurteknar tilraunir.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 11:28 með tilkynningu frá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×