Innlent

Ís­lendingur sagður al­var­lega særður í nautaatsslysi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Skjáskot úr myndbandi af atvikinu.
Skjáskot úr myndbandi af atvikinu. Información.es

Íslenskur maður á fimmtugsaldri særðist á nautaatsviðburði í gær í bænum Jávea nálægt Alicante á Spáni. Við upphaf svokallaðs bous al carrer, þar sem nautum er sleppt á afmörkuðum götum bæja, varð hann fyrir árás eins nautsins og fékk stærðar horn í gegnum lærið.

Spænski miðillinn La Razón greinir frá því að hann sé nokkuð særður en að hornið hafi ekki rofið slagæðina. Maðurinn var fluttur á Dénia-sjúkrahúsið í Alicante en ekkert liggur fyrir um ástand hans.

Í myndbandi sem til er af atvikinu sést hvernig naut ræðst að honum um leið og þeim er sleppt á brautina. Hann stendur ofan á pýramídalaga hindrun en eitt nautanna gefur honum bylmingshögg og hann fellur í jörðina. Þá snýr nautið sér við og rekur horn sitt í gegnum lærið á honum. Viðbragðsaðilar þutu þá inn á brautina til að koma honum til aðstoðar.

Myndbandið má sjá í frétt Información um málið.

Atvikið átti sér stað um sjöleytið í gærkvöldi að staðartíma og þurfti að stöðva nautahlaupið til að hlúa að manninum. Nautunum var sleppt á ný á götur bæjarins þegar manninum hafði verið komið fyrir á sjúkrahúsi.

Áslaug Karen Jóhannsdóttir, deildarstjóri upplýsingadeildar utanríkisráðuneytisins, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að borgaraþjónusta ráðuneytisins sé meðvituð um málið.

„En við veitum engar frekari upplýsingar um einstök borgaraþjónustumál.“

Veistu meira um málið? Hvar atvikið átti sér stað? Hverjir eiga í hlut? Ertu með myndir af svæðinu? Fréttastofa tekur við ábendingum á netfangið [email protected]. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×