Innlent

Ís­lendingur hand­tekinn fyrir að ljúga um á­rás á Tenerife

Jón Þór Stefánsson skrifar
Maðurinn, sem er 66 ára gamall, var handtekinn á hótelinu sínu á suðurhluta eyjunnar.
Maðurinn, sem er 66 ára gamall, var handtekinn á hótelinu sínu á suðurhluta eyjunnar. Getty

Íslenskur ferðamaður á Tenerife hefur verið handtekinn grunaður um ljúga til um árás sem hann sagðist hafa orðið fyrir og reyna svíkja út fé vegna þess. Um er að ræða karlmann sem er 66 ára gamall, en handtakan fór fram á hóteli mannsins á suðurhluta eyjunnar.

Staðarblaðið Canarian Weekly fjallar um málið, en miðillinn segir að Íslendingurinn hafi tjáð lögreglu að hann hafi verið fórnarlamb ofbeldisfullrar árásar þar sem að greiðlukorti hans hafi verið stolið.

Í kjölfarið hafi átta þúsund evrur verið teknar út af bankareikningi hans, en það jafngildir tæplega 1,2 milljónum króna.

Fram kemur að lögregla hafi tekið mál mannsins til rannsóknar og kannað hvar úttektin á þessum átta þúsund evrum átt sér stað. Það var á næturklúbbi. Í kjölfarið ræddi lögregla við starfsfólk skemmtistaðarins og önnur vitni sem voru á staðnum þegar úttektirnar voru gerðar.

Sú rannsókn er sögð hafa leitt í ljós að Íslendingurinn hafi varið nokkrum klukkustundum á klúbbnum þar sem hann hafi keypt ótilgreinda þjónustu og þar að auki verið gjafmildur við aðra gesti staðarins.

Eftir frekari rannsókn fór lögregla á hótelið þar sem maðurinn dvaldi og handtók hann fyrir að ljúga til um árásina og segjast vera fórnarlamb saknæmar háttsemi. 

Fram kemur í frétt Canarian Weekly að maðurinn gæti átt yfir höfði sér sex til tólf mánaða fangelsisdóm, og þá mætti einnig búast við sektum vegna meintrar háttsemi sinnar.

Veistu meira um málið? Vísir tekur við ábendingum á [email protected]. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×