Samstarf

Mikil spenna fyrir loka­kvöldið í Meistara­deild Líf­lands í hesta­í­þróttum

Meistaradeild Líflands
Árni Björn Pálsson og Konráð Valur Sveinsson, sigurvegarar skeiðmóts Meistaradeildar Líflands 2023
Árni Björn Pálsson og Konráð Valur Sveinsson, sigurvegarar skeiðmóts Meistaradeildar Líflands 2023

Laugardaginn 8. apríl fór fram skeiðmót Meistaradeildar Líflands og keppt var í gæðingaskeiði og 150m skeiði á Brávöllum, Selfossi. Veðrið hafði aðeins leikið okkur grátt í aðdraganda keppninnar sem rættist þó vel úr á keppnisdag og aðstæður voru með besta móti miðað við árstíma. 

Það var mikil spenna í loftinu, margir góðir hestar skráðir til leiks og margir sem voru líklegir til sigurs. Sigurvegari beggja greina frá því í fyrra, Árni Björn Pálsson, mætti með bæði þau hross sem sigruðu hér fyrir ári síðan og því ljóst að hann var líklegur til sigurs í báðum greinum. Íslandsmeistararnir í gæðingaskeiði frá því í sumar, Elvar Þormarsson og Fjalladís frá Fornusöndum, mættu einnig til leiks ásamt fleirum sem hafa verið að gera það gott í greininni. Í 150m skeiðið var m.a. skráður Konráð Valur Sveinsson með margverðlaunaðan Kjark frá Árbæjarhjáleigu ásamt fleiri vekringum og því ljóst að mikil skeiðveisla var framundan.

Keppnin var gríðarlega jöfn og spennandi í gæðingaskeiðinu en að lokum var það Árni Björn Pálsson sem endurtók leikinn frá því í fyrra og sigraði verðskuldað á merinni Álfamær frá Prestsbæ og hlaut fyrir það hvorki meira né minna en 8.46. Skeiðsprettirnir voru kraftmiklir sýndir af miklu öryggi. Ekki langt á eftir voru Elvar Þormarsson og Fjalladís frá Fornusöndum í 2. sæti og Konráð Valur Sveinsson á Tangó frá Litla-Garði í 3. sæti.

Árni Björn Pálsson og Álfamær frá Prestsbæ sem sigruðu gæðingaskeiðið með eink. 8.46

Niðurstöður - Gæðingaskeið

1 Árni Björn Pálsson Álfamær frá Prestsbæ Top Reiter 8,46

2 Elvar Þormarsson Fjalladís frá Fornusöndum Hjarðartún 8,38

3 Konráð Valur Sveinsson Tangó frá Litla-Garði Top Reiter 8,21

4 Sigurður Vignir Matthíasson Glitnir frá Skipaskaga Ganghestar/Margrétarhof 7,83

5-6 Jóhann Kristinn Ragnarsson Þórvör frá Lækjarbotnum Storm Rider/Austurkot 7,71

5-6 Daníel Gunnarsson Strákur frá Miðsitju Auðsholtshjáleiga 7,71

1.-3. í Gæðingaskeiði. F.v. Elvar Þormarsson 2. sæti, Árni Björn Pálsson 1. sæti og Konráð Valur Sveinsson 3. sæti.

Skeiðmótinu lauk svo með hörku spennandi 150m skeiði. Leikar fóru svo að Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu sigruðu á ótrúlegum tíma miðað við árstíma, 14.34 sek. sem kemur þó ekki á óvart því þeir félagar hafa sýnt okkur margoft hvað í þeim býr og eru greinilega ekkert farnir að gefa neitt eftir. En það var svo Daníel Gunnarsson og Kló frá Einhamri 2 sem voru í 2. sæti á tímanum 14.70 sek. og Hans Þór Hilmarsson og Vorsól frá Stóra-Vatnsgarði í 3. sæti á tímanum 14.91.

Konráð Valur Sveinsson og Kraftur frá Árbæjarhjáleigu II sem sigruðu 150m skeiðið á tímanum 14.34

Niðurstöður - 150m skeið

1 Konráð Valur Sveinsson Top Reiter Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II 14,34

2 Daníel Gunnarsson Auðsholtshjáleiga Kló frá Einhamri 2 14,70

3 Hans Þór Hilmarsson Hjarðartún Vorsól frá Stóra-Vatnsskarði 14,91

4 Jóhann Kristinn Ragnarsson Storm Rider/Austurkot Þórvör frá Lækjarbotnum 14,96

5 Þorgeir Ólafsson Þjóðólfshagi/Sumarliðabær Rangá frá Torfunesi 14,97

6 Þórarinn Ragnarsson Hjarðartún Bína frá Vatnsholti 15,08

1.-3 sæti í 150m skeiði. F.v. Daníel Gunnarsson í 2. sæti, Konráð Valur Sveinsson í 1. sæti og Hans Þór Hilmarsson í 3. sæti

Það var lið Top Reiter sem sigraði báðar liðakeppnirnar. Í gæðingaskeiðinu hlutu þau 61 stigi og voru það sigurvegarinn Árni Björn, Konráð Valur með Tangó frá Litla-Garði en þeir lentu í 3. sæti og Teitur Árnason með Nótu frá Flugumýri II í 10. sæti sem kepptu fyrir hönd síns liðs. Þessir félagar kepptu einnig í 150m skeiðinu en Konráð Valur sigraði á Kjarki frá Árbæjarhjáleigu, Árni Björn í 8. sæti á Ögra frá Horni I og Teitur á Styrk frá Hofsstaðaseli í 9. sæti og hlutu fyrir það 57 stig. 

Með þessu skaust liðið upp í 4. sæti í liðakeppninni og eru einungis 16.5 stigi frá 1. sætinu. Það er lið Hjarðartúns sem leiðir liðakeppnina naumlega með 273.5 stig og má svo sannarlega segja að það er ekkert í hendi fyrir lokamótið og ljóst að liðin þurfa að spila vel úr sínum spilum til að geta átt möguleika á sigri.

Sigurvegarar liðakeppninnar, lið Top Reiter. F.v. Eyrún Ýr Pálsdóttir, Konráð Valur Sveinsson, Teitur Árnason. Á myndina vantar liðsmennina Árna Björn Pálsson og Þórdísi Ingu Pálsdóttur.

Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir leiðir einstaklingskeppnina og hefur gert það frá upphafi. Hún er nú með 31 stig en nú hafa margir verið að sækja að henni og eru því nokkrir knapar sem eiga einnig möguleika á því að sigra deildina. Tvær keppnisgreinar eru eftir og skiptir hvert stig máli í átt að sigri. Það er því ljóst að lokakvöldið verður spennandi fram á síðasta sprett, bæði í liða- og einstaklingskeppninni.

Lokamótið verður haldið föstudaginn 14. apríl næstkomandi í HorseDay höllinni Ingólfshvoli og þá kemur í ljós hverjir munu standa uppi sem sigurvegarar Meistaradeildar Líflands 2023. Það má svo sannarlega segja að það stefnir í gríðarlega sterkt og spennandi lokakvöld, eins og fyrr segir er einstaklingskeppnin galopin og geta nokkrir knapar unnið stóra titilinn ef allt gengur upp hjá þeim. Aðeins 16.5 stig skilja að 1. og 4. sæti í liðakeppninni og skiptir hvert stig máli hjá öllum liðum í þessum tveimur greinum sem eftir eru. Það er klárt mál að allir knapar munu tefla fram sínum allra besta hestakosti og því getum við búið okkur undir virkilega spennandi og skemmtilegt kvöld. Fljótustu verkringar landsins munu þjóta gegnum húsið ásamt því að bestu tölthestar landsins munu leika listir sínar.

Klippa: Meistaramót Líflands í hestaíþróttum - skeiðmót

Að þessu sinni er það Lífland sem býður áhorfendum í höllina. Eins og áður verða frábærar veitingar í boði fyrir áhorfendur í HorseDay höllinni og er þeim bent á að panta mat á [email protected] og fá þá í kaupbæti frátekið sæti á besta stað í stúkunni, opnað verður í matinn kl 16:30 - fyrstir panta fyrstir fá!

Klippa: Skeiðmót Meistaramóts Líflands






Fleiri fréttir

Sjá meira


×