Innlent

Vatnslögn fór í sundur og vatn flæðir um Hvassaleiti og Kringluna

Ellen Geirsdóttir Håkansson og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Slökkviliðsfólk við störf í Hvassaleitinu í kvöld.
Slökkviliðsfólk við störf í Hvassaleitinu í kvöld. Vísir/Vilhelm

Stór kaldavatnslögn fór í sundur upp úr klukkan tíu í Hvassaleitinu og flæðir nú vatn um svæðið líkt og um straumþunga á sé að ræða. Bæði lögreglumenn og fulltrúar slökkviliðs eru mættir á svæðið til að gæta öryggis og reyna að leysa vandann.

Að sögn Stefáns Kristinssonar varðstjóra hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins ræður slökkviliðið ekki við lekann á meðan ekki hefur tekist að skrúfa fyrir vatnið. Stefán segir í höndum Veitna að ná tökum á vatnsrennslinu með því að skrúfa fyrir vatnið. 

Uppfært klukkan 23:01

Stefán segir að búið sé að stöðva fyrir vatnsflæðið. Nú verði skoðað hvað niðurföllin í hverfinu ráði við að losa vatnselginn. Þá er ein blokk í Hvassaleitinu þar sem flætt hefur töluvert inn í kjallara. Þar sé nokkuð verkefni fyrir höndum.

Uppfært klukkan 23:17

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Veitum, segir að kaldavatnslögn neðanjarðar hafi farið í sundur. Um sé að ræða lögn sem er 800 millímetrar í þvermál. Lögregla hafi verið fljót á svæðið og í framhaldinu hafi tilkynningum fækkað. Tekist hafi að stöðva lekann og nú vinni starfsfólk veitna að því að gera við lögnina.

Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum, ljósmyndum og myndskeiðum á [email protected].




Fleiri fréttir

Sjá meira


×