Frítíminn

Bankið í ofninum: Er ríkisvaldið að fylgjast með þér í vinnunni?

Pétur Blöndal skrifar
Pétur Blöndal.
Pétur Blöndal.

„Einu sinni var það þannig að þú barst ábyrgð gagnvart sjálfum þér, vinnuveitanda þínum, viðskiptavinum og lögum. Kannski Guði ef þú varst þannig innréttaður. En nú er það liðin tíð.“

Svona kemst leiðsögumaður á hópferðabíl að orði þegar við sitjum yfir kaffi og kruðeríi hjá frjálshyggjubakaranum. Það sem vantar í þessa upptalningu er nefnilega eftirlitsiðnaðurinn, sem virðist á köflum vera ríki í ríkinu, bákn í bákninu. Við erum svo úthvíldir, að við einhendum okkur í að ræða forsjárhyggju ríkisvaldsins sem lýtur að búnaði í hópferðabílum og flutningabílum til að fylgjast með hvíldartíma bílstjóra.

Hver fylgist með rötum í umferðinni?

Víst er sjálfsagt að nýta tækni til að ná fram meira öryggi og gæðum í þjónustu, en það er áleitin spurning hversu langt ríkisvaldið á að ganga í að fylgjast með daglegum störfum fólks. Ætti það ekki að vera hlutverk vinnuveitenda að nýta slíka tækni, lesa í upplýsingar, byggja upp gæða- og öryggiskerfi og axla svo ábyrgð og svara fyrir það ef eitthvað út af bregður.

Þannig er að koma þarf fyrir ökuritum í öllum bifreiðum fyrir níu farþega og flutningabílum yfir ákveðinni þyngd. Það eru hinsvegar engir ökuritar í öllum hinum bifreiðunum á vegunum. Þó eru þar sjaldnast atvinnumenn undir stýri með aukin ökuréttindi. Sumir jafnvel algjörir ratar í umferðinni. Lítið verið að spá í hvíldartíma. Og merkilegt nokk, þá eru leigubílstjórar undirskildir ökuritum og farartæki með einum færri farþega en níu. Þetta virðist því nokkuð handahófskennt og mismuna starfsgreinum sem keppa um farþegana.

Víst er sjálfsagt að nýta tækni til að ná fram meira öryggi og gæðum í þjónustu, en það er áleitin spurning hversu langt ríkisvaldið á að ganga í að fylgjast með daglegum störfum fólks.

Sektir við Gullfoss

Og það er ekkert verið að grínast með þetta. Það er á sviði lögreglumanna í vegaeftirliti að stöðva hópferðabifreiðar og athuga hvort farið hafi verið að lögum um hvíldartíma. – og rýna þá í ökuritann í stað þess að spyrja bílstjóra eða farþega. Heill framleiðslu-, viðhalds- og eftirlitsiðnaður hefur skapast um þessa einu græju.

Lögreglan staðsetur sig þá gjarnan við Gullfoss, Geysi eða á Þingvöllum vegna þess að þar er umferðin mest, þó að henni sé vel kunnugt um að á gullna hringnum eru sjaldnast meira en 45 mínútur á milli staða og bílstjórar fá því góða hvíld á milli. Engu að síður er hamrað á þeim bílstjórum sem aka þessa leið og fá þeir háar sektir ef þeir hafa ekki haft nógu mikið eftirlit með ökuritanum, til dæmis ef hann er bilaður eða pappírslaus eða bílstjóranum hefur láðst að endurnýja ökuritakortið.

Vinnutap, umstang og fyrirhöfn

Auðvitað er kostnaður við þetta hobbí ríkisvaldsins. Þegar ég leitaði upplýsingar var í grófum dráttum slegið á uppsetning ökurita kostaði yfir 200 þúsund. Hann þarf að fara í skoðun á tveggja ára fresti fyrir tugi þúsunda, en áður var það á sex ára fresti, sektir eru á annað hundrað þúsund ef eitthvað bregður út af – til dæmis ef ökuritinn verður pappírslaus, endurnýja þarf ökukort bílstjóra og þjálfa þá í að þjónusta ökuritann. Allt er þetta ávísun á vinnutap, umstang og fyrirhöfn.

Þessir bílstjórar tapa svo í samkeppninni við sjóræningja í greininni, sem siglt hafa framhjá kerfinu í áraraðir. Sumir þeirra eru á vegum erlendra ferðaskrifstofa og hafa ekki aukin ökuréttindi. „Þeir glotta bara og segjast vera í ferð með vini sína á meðan lögreglan sektar löggilda ferðaþjónustuaðila fyrir að bera ekki nógan pappír í ökuritann.“ Og já, það er enn verið að prenta upplýsingar á pappír. Ekki fylgir sögunni hvort sektirnar séu sendar út á faxtæki.

Hamrað er á þeim bílstjórum sem aka þessa leið og fá þeir háar sektir ef þeir hafa ekki haft nógu mikið eftirlit með ökuritanum, til dæmis ef hann er bilaður eða pappírslaus eða bílstjóranum hefur láðst að endurnýja ökuritakortið.

Þannig er heilli atvinnugrein ýtt inn í veruleika Orwells. Og spyrja má, hvort ekki væri eðlilegra að það væri hlutverk fyrirtækjanna sjálfra að velja búnað og fylgjast með því að allt sé í lagi. Það er jú þeirra hagur að ekkert fari úrskeiðis.

Enda er þetta einmitt það sem fyrirtækin gera. Þau eru mörg með sitt eigið kerfi til að fylgjast með keyrslu sinna ökutækja í rauntíma, hraða, staðsetningu, akstursferli, hvernig bremsað er og svo framvegis. Þannig sækja þau mikilvæga tölfræði og upplýsa sína bílstjóra og viðskiptavini – þetta er því allt til hjá fyrirtækjunum og ríkið þarf ekkert að vasast í þessu. Ef eitthvað bregður út af, er hægt að fara yfir það.

Hvar stoppar eftirlitið?

Víst er um það, að ökuritinn er ekki mælikvarði allra hluta. Eftir sem áður veltur öryggi farþega á samviskusemi bílstjóra og aðhaldi vinnuveitenda. Ökumaður rútunnar gæti vel hafa keyrt leigubíl um nóttina, spilað Matador með vinunum, horft á Neftflix eða sinnt maka sínum. Engar upplýsingar um það fást úr ökuritanum. Það þarf einfaldlega að treysta fólki. Óþægilegt en satt. Vinnuveitandi og viðskiptavinir eru í þeirri stöðu – uns kvartanir berast. Enda er næsta víst að bílstjóri tollir ekki lengi í vinnu ef hann er sídottandi og geispandi fyrir framan farþegana.

Ef akstur hefst snemma á morgnana væri svo ekkert því til fyrirstöðu að skylda þá til að sofa í sérherbergi eða útihúsi, þannig að makinn sé ekki að halda vöku fyrir þeim.

En kannski þarna sé tækifæri fyrir eftirlitsiðnaðinn að ganga lengra í eftirlitinu. Væri ekki þjóðráð að vakta hús bílstjóra til þess að ganga úr skugga um að þeir séu komnir heim til sín á skikkanlegum tíma og séu ekkert að sniglast úti að næturlagi. Það er áreiðanlega hægt að koma fyrir búnaði sem mælir hversu miklum djúpsvefni þeir ná. Hvers vegna ekki að taka af þeim Netið á miðnætti – þannig að þeir vaki ekki yfir skjám fram á nótt. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar verið er að sýna vinsæla sjónvarpsþætti á borð við Verbúðina. Ef akstur hefst snemma á morgnana væri svo ekkert því til fyrirstöðu að skylda þá til að sofa í sérherbergi eða útihúsi, þannig að makinn sé ekki að halda vöku fyrir þeim. Allt þetta er bara til að gæta að frekara öryggi í umferðinni – varla hefur neinn neitt á móti því?


„Á ég að gera það?“ spurði Indriði í óborganlegum þáttum Fóstbræðra og fórnaði höndum. Í þessum pistlum sem birtast vikulega á laugardögum verður ómakið tekið af Indriða, hlustað eftir banki í ofninum og hver veit nema einhver taki að sér að „gera það“ – ganga í að kippa hlutunum í lag. Allar hugmyndir, ábendingar og athugasemdir vel þegnar.

[email protected].






×