Menning

Listamaður vill gera andlitsúða úr tárum fólks

Snorri Másson skrifar
Gígja Jónsdóttir vill tárin þín.
Gígja Jónsdóttir vill tárin þín. Instagram

Gígja Jónsdóttir listamaður biðlar nú til almennings að gráta í táraglas fyrir tárabrunn á sýningu hennar, þar sem hún vill safna tárum úr öllum áttum.

Þeir sem eru áhugasamir um að taka þátt fá táraglas sent heim, sem þeim er uppálagt að hafa innan seilingar hverju sinni ef þeir skyldu fara að gráta. Sjálf geymir Gígja táraglas á náttborðinu og gætir þess að gráta í það ef til þess kemur.

Gígja vill að þátttakendur komi síðan á sýningu hennar í Hafnarborg sem verður opin í september og október og helli tárunum í brunninn tárin. 

Hvað ætlar hún svo að gera við tárin?

„Það eru margir að forvitnast um einmitt þetta, hvað ég ætla að gera við þessi tár. Mér finnst það skipta minna máli heldur en bara að þetta fjallar um að þessi tár komi saman í þessum litla brunni og sýna þessa sammannlegu tengingu sem við eigum í gegnum tárin okkar,“ segir Gígja í samtali við Vísi.

En fyrst hún er spurð: „Það verður lokahóf haldið 31. október og þá ætlaði ég að setja þau tár sem hafa safnast í svona spreybrúsa og úða tárunum. Búa til svona „facemist“ og úða tárunum í andrúmsloftið og andlit gestanna. Þeir fá þá svona tilfinningamóðu í andlitið. Þegar ég segi það hef ég reyndar smá áhyggjur útaf Covid. Þetta er náttúrulega líkamsvessi. En ég þarf bara aðeins að skoða þetta.“

Tárin verða til sýnis á samsýningu sem Gígja tekur þátt í, Samfélag skynjandi vera, sem mun standa yfir í Hafnarborg frá 28. ágúst til 31. október 2021. Hægt er að senda henni tár yfir allan sýningartímann.

Áhugasamir um að leggja sín tár af mörkum geta sent fullt nafn, heimilisfang og símanúmer til Gígju í netfangið [email protected].






Fleiri fréttir

Sjá meira


×