Innlent

Gefa seinni skammt af Pfizer-bóluefninu

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá bólusetingu gegn kórónuveirunni í Laugardalshöll. Myndin er úr safni.
Frá bólusetingu gegn kórónuveirunni í Laugardalshöll. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Seinni bólusetning með bóluefni Pfizer gegn kórónuveirunni fer fram í Laugardalshöll í dag og á morgun fyrir þá sem fengu fyrri skammtinn fyrir 4. mars. Boð hafa þegar verið send fólki með smáskilaboðum.

Samkvæmt tilkynningu frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins verður bólusett í Laugardalshöll frá klukkan 12:00 til 16:00 í dag, mánudaginn 22. mars og á milli klukkan 9:00 og 15:00 á morgun, þriðjudaginn 23. mars.

Fólk er beðið um að mæta með skilríki og grímu. Bólusett er í axlarvöðva og í almennu rými. Fólk er því beðið um að mæta þannig klætt að auðvelt sé að ná í stungustaðinn. Bent er á að gott sé að vera í stuttermabol innst klæða.

Allir þeir sem fá bóluefni þurfa að bíða í fimmtán mínútur eftir að þeir eru sprautaðir með efninu. Hafi fólk bráðaofnæmi við stungulyfjum eða af óþekktum toga er því ekki ráðlagt að láta bólusetja sig. Þeir sem ætla ekki að þiggja bóluefnið eru beðnir um að láta vita á [email protected] eða í síma 513-5000.

Frekari upplýsingar um síðari bólusetningu með Pfizer-bóluefninu á vef heilsugæslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×