Viðskipti innlent

Undir­rituðu kaup­samning í síðustu viku og opna aftur á næstu dögum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tómlegt um að litast í verslun Cintamani á Laugavegi fyrir nokkru.
Tómlegt um að litast í verslun Cintamani á Laugavegi fyrir nokkru. Vísir/arnar

Íslandsbanki hefur lokið söluferli á vörumerkinu Cintamani ásamt vörulager og léni félagsins. Kaupandi félagsins er Cinta 2020 ehf. og var kaupsamningur undirritaður í lok síðustu viku, að því er fram kemur í tilkynningu frá Íslandsbanka.

Cintamani hefur um þrjátíu ára skeið framleitt og selt útivistarfatnað. Íslandsbanki hóf söluferli á Cintamani í lok janúar síðastliðnum, eftir að fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta, og var áhugasömum boðið að skila inn tilboðum fram í febrúar.

Í tilkynningu segir að verslun Cintamani í Garðabæ verði opnuð á næstu dögum auk þess sem vefverslun félagsins verði opnuð á nýjan leik.

„Þá hefur nýr eigandi tekið ákvörðun um að þeir viðskiptavinir sem áttu gjafabréf og innleggsnótur hjá félaginu geti nýtt þær hjá nýjum eigendum. Eru þeir aðilar hvattir til að hafa samband í gegnum netfangið [email protected],“ segir í tilkynningu Íslandsbanka.

Greint var frá því í febrúar að kauptilboð í Cintamani hefði verið samþykkt og þá var þegar tilkynnt að rekstur undir merkjum félagsins hæfist að nýju von bráðar. 

Rekstur Cintamani hefur gengið erfiðlega allt frá árinu 2016. Félagið hefur reglulega verið sett í söluferli síðan þá. Fyrirtækið lokaði nýlega verslun sinni í Bankastræti og þá hafði verið tilkynnt um lokun verslana í Smáralind og á Akureyri. Enn voru Cintamaniverslanir opnar á Laugavegi og í Kringlunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×